K.I.B.S. kvartettinn (1939-42)

K.I.B.S. kvartettinn

K.I.B.S. kvartettinn

K.I.B.S. söngkvartettinn (stundum ritað KIBS kvartettinn) starfaði um skeið á heimsstyrjaldarárunum síðari.

Kvartettinn mun hafa hafið æfingar 1939 en þegar Carl Billich tók til við að æfa þá árið 1940 og leika undir hjá þeim urðu æfingarnar markvissari, og þeir hófu að koma fram og syngja á opinberum vettvangi.

Upphafsstafir meðlima K.I.B.S. kvartettsins mynduðu nafn hans en meðlimir voru Kjartan Sigurjónsson fyrsti tenór, Ingi Bjarnason annar tenór, Björgvin Jóhannesson fyrsti bassi og Sigurður Jónsson annar bassi.

K.I.B.S. kvartettinn starfaði að minnsta kosti til haustsins 1940 en hugsanlega allt til 1942. Þeir félagarnir lögðu sig sérstaklega fram við að flytja efni (klassískt sem léttmeti) sem hafði jákvæðan boðskap fram að bera á þeim stríðstímum sem þá voru í gangi.