Leoncie (1953-)

Leoncie1

Leoncie við hljómborðin

Tónlistarkonan Leoncie er flestum kunn hér á landi en hún er án efa einn umtalaðasti tónlistarmaður Íslands fyrr og síðar. Hún hefur starfað hér á landi um árabil og gefið út fjölda platna.

Leoncie (Maria Martin) Albertsson er fædd 1953 á Indlandi en hún er indversk/portúgölsk að uppruna. Heimildir segja hana með gráðu í klassískri tónlist frá The Trinity College of Music í London og BA próf í enskum bókmenntum. Hún hafði starfað að tónlist víða um lönd en kom hingað árið 1982 frá Danmörku, hér kynntist hún manni, giftist honum eftir stutt kynni og settist að á Íslandi í kjölfarið. Hún hlaut fljótlega íslenskan ríkisborgararétt og hóf að skemmta hérlendis með söng og dans undir listamannstitlinum Indverska prinsessan.

Leoncie varð strax fremur umdeild fyrir tónlist sína sem þykir allsérstæð en hana mætti skilgreina sem austurlenskt diskópopp leikið á skemmtara, söngstílinn er erfiðara að skilgreina.

Alla tíð hefur Leoncie verið dugleg að koma fram í einkasamkvæmum með skemmtiatriði sín, og komið sér áfram með því að auglýsa í einkamáladálkum dagblaðanna en dans hennar var í erótískum anda.

1985 gaf söngkonan út sína fyrstu plötu og vakti strax athygli þó ekki nema væri fyrir umslag hennar en á því var mynd af henni og Jóni Páli Sigmarssyni sem þá var á hátindi frægðar sinnar sem kraftajötunn. Platan hét My Icelandic man og hafði að geyma ellefu lög samin, leikin og sungin af henni sjálfri.

Sjálf tónlistin á plötunni hlaut fremur litla athygli og engir dómar birtust um hana í blöðum en Leoncie varð tíður gestur á síðum dagblaða og tímarita æ síðan fyrir aðra hluti, hér og þar birtust viðtöl við söngkonuna þar sem hún kvartaði yfir að hafa verið úthýst í íslenskum skemmtanaiðnaði.

Í þessum viðtölum sagðist hún iðulega á leið úr landi vegna þessa eineltis en þetta átti eftir að vera gegnumgangandi næstu árin. Svo virðist sem fólk hafi ekki tekið hana alveg alvarlega og átti það jafnt við í tónlistarheiminum og meðal starfsmanna opinberra fyrirtækja og stofnana sem hún leitaði til með vandamál sín. Aukinheldur átti hún í ýmsum deilum við nafntogaðar persónur á opinberum vettvangi. Henni fannst verulega að sér vegið og smám saman tók hún að tengja kynþáttafordóma við alla umræðu, sem og öfund Íslendinga almennt út í sig vegna fegurðar sinnar og tónlistarhæfileika. Svo fór að lokum að Leoncie varð eins konar utangarðsmaður í íslenskri tónlist.

Næstu árin starfaði Leoncie við nektardans og söng með hléum en dvaldi þess á milli erlendis um lengri og skemmri tíma en var alkomin til Íslands 1990, upp úr því fór hún aftur að láta kveða að sér á tónlistarsviðinu.

1992 kom út hennar önnur plata, Story from Brooklyn en tónlistin á henni var að einhverju leyti tengd tékkneskri spennumynd, A friend for rainy weather II, t.a.m. var lagið Have faith titillag þeirrar myndar. Platan kom einnig út í Tékklandi.

Story from Brooklyn fékk fremur slaka dóma í tímaritinu Eintaki og Pressunni þar sem m.a. þessa lýsingu á söngstíl söngkonunnar var að finna: „…glefsar í orðin, gleypir þau og tyggur, veltir þeim með tungubroddinum og spýtir út með skræk, bauli eða þokkafullum titringi.“ Margir vildu meina að hér væri um að ræða fullkomna lýsingu á stíl hennar. Í kjölfarið komu lög með henni á safnplötunni Lagasafnið 3 (1993) og birtist fremur neikvæð gagnrýni um þau lög í úttekt Morgunblaðsins.

Í ársbyrjun 1994 sýndi Ríkissjónvarpið þátt um Leoncie þar sem ferli hennar í máli og myndum var gerð skil, það sem olli þó mesta umtalinu var bútur sem ekki var í myndinni (sem klipptur hafði verið út að beiðni Sveinbjörns I. Baldvinssonar þáverandi dagskrárstjóra) en þar klæddi söngkonan sig í nærbuxur merktar alþýðuflokknum sem Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra, hafði fært henni á einhverri skemmtun á Suðurnesjunum.

Þetta ár birtust fréttir þess efnis að Leoncie hefði landað stórum þriggja ára útgáfusamningi á Indlandi en líklega áttu þær fréttir aldrei við nein rök að styðjast.

Hún var þarna farin að kalla sig Ísprinsessuna (Ice princess) en það átti ekki eftir að standa lengi því tveimur árum síðar gekk hún undir nafninu Icy spicy eða Ískryddið. Haustið 1996 rauk Leoncie enn úr landi í fússi og var lítið hérlendis næstu árin.

Leoncie2

Leoncie

Árið 2000 birtist Leoncie enn og aftur á landinu og nú með nýja plötu í farteskinu sem hún hafði unnið að árin á undan. Platan, Love messages from overseas, hlaut fremur sérkennilegan dóm í tímaritinu Fókus en þar gat gagnrýnandinn ekki gert upp við sig hvort hún ætti að fá hauskúpu eða fullt hús stiga, það var þó ljóst af lestri greinarinnar að ef tónlistin væri gagnrýnd á alvarlegan hátt að þá yrði hauskúpan ofan á.

Nýja platan var frábrugðin fyrri plötum að því leyti að gestir komu við sögu á henni, t.d. söng Páll Óskar Hjálmtýsson dúett með henni í laginu Hold me in your arms en það lag vakti einna mesta athygli almennings.

Næstu árin átti Leoncie eftir að leggja meiri áherslu á tónlistarferil sinn en áður, hún var hætt að strippa og plötur komu nú út tíðar en áður, 2002 kom næsta plata en hún bar titilinn Sexy loverboy. Tímaritið Sánd gaf plötunni frábæra dóma en miðað við það sem á undan hafði gengið er erfitt að lesa í raunverulega merkingu þess dóms.

Ekki verður litið framhjá því að Leoncie hlaut orðið jákvæðari athygli og nú var tónlist hennar farin að hljóma á útvarpsstöðvum, því er þó ekki að neita að oft er stutt milli háðs og hrifningar í þeim efnum. Athyglinni var þó loks náð og viss viðurkenning var fólgin í því að Erpur Eyvindarson tók viðtal við hana í sjónvarpsþættinum Johnny National á Skjá einum.

Dramatíkinni í kringum söngkonuna var þó hvergi nærri lokið og þegar lag eftir hana (Sexy loverboy) var nýtt í skaupi Ríkissjónvarpsins áramótin 2002-03 án hennar leyfis ætlaði allt um koll að keyra. Leoncie fór hamförum í kjölfarið og viðtal Sigurjóns Kjartanssonar á útvarpsstöðinni X-inu við hana bætti ekki úr skák. Það var því við hæfi að næsta plata, sem kom út 2003, bæri heitið Radio rapist wrestler Sigurjóni til höfuðs. Titillag plötunnar, Radio rapist fjallar einmitt um hann og fékk platan nokkra athygli einkum vegna þess.

Mestu umfjöllunina fékk hins vegar lagið Ást á pöbbnum sem er í raun eina lag Leoncie sem hlotið hefur almennar vinsældir, þó ekki nema væri fyrir textann sem þykir sérkennilega saman settur. Lagið hefur síðan verið einkennislag hennar og þegar fyrirbæri eins og Spaugstofan og Baggalútur tóku lagið upp á sína arma var ákveðnum standard náð. Söngkonan kom þó í veg fyrir að útgáfa Baggalúts kæmi út á plötu, það heyrist þó reglulega leikið í útvarpi.

Vorið 2004 náði dramatíkin í kringum Leoncie hámarki þegar hún í beinni útsetningu í morgunþættinum Í bítið á Stöð 2, jós svívirðingum yfir Jón Ólafsson tónlistarmann, þá þótti flestum söngkonan fara langt yfir strikið og sá sjónvarpsstöðin sitt óvænna og sendi frá sér yfirlýsingu og afsökunarbeiðni í kjölfarið vegna málsins.

Leoncie hélt áfram að senda frá sér plötur og 2005 kom The invisible girl út, lítið fór fyrir plötunni en hún fékk jákvæða dóma í DV.

Ári síðar (sumarið 2006) skaut henni a.á.m. upp sem þátttakandi í breska sjónvarpsþættinum X-factor, hún hafði þar reyndar ekki erindi sem erfiði og var framganga hennar þar fremur sem vatn á myllu þeirra sem höfðu haft hana að skotspæni.

Leoncie lét þó ekki deigan síga og 2007 kom út hennar sjöunda plata, Pukki Bollywood baby. Svo virðist sem þessi plata hafi farið framhjá tónlistargagnrýnendum því enginn fjölmiðlanna virðast hafa birt um hana plötudóm. Þess má geta að á Pukki Bollywood baby er að finna enska útgáfu á laginu Ást á pöbbnum, Love in a pub in Essex, en um þetta leyti var söngkonan flutt til Essex á Englandi.

Sena hafði dreift plötum Leoncie um tíma eftir að Japis (sem dreifði fyrstu plötunum) lagði upp laupana, en þegar þarna var komið við sögu höfðu 12 tónar tekið við dreifingunni, og ástæðan var jú – ósætti við Senu.

Minna fór nú fyrir Leoncie og síðustu misserin hefur hún lítið verið hérlendis, plata kom út 2009 sem heitir Wild american sheriff en hún hefur litla sem enga umfjöllun fengið á Íslandi. 2011 kom síðan út platan Dansadu við Leoncie og 2016 Mr. Lusty.

Leoncie er óvenjulegur tónlistarmaður með sérkennilegan stíl, hún hefur ekki átt upp á pallborðið hjá öllum og hefur oftar en ekki goldið fyrir yfirlýsingar sínar í fjölmiðlum. Það breytir því þó ekki að hún hefur alltaf verið samkvæm sjálfri sér og staðföst í tónlistarflutningi sínum og þrátt fyrir að hafa menningarlegan bakgrunn sem er harla ólíkur þeim íslenska hefur hún lagað sitt að honum svo úr verður skemmtileg blanda indversks popp með íslenskar skírskotanir. Hún hefur með tímanum áunnið sér eins konar „költ“ stimpil sem æ fleiri eru tilbúnir að viðurkenna, hún hefur líka alltaf átt tryggan aðdáendahóp þótt lítill sé. Hann hefur þó farið stækkandi með árunum.

Leoncie er líklega einn duglegasti tónlistarmaður sem Ísland hefur alið, hún hefur alltaf haldið áfram af þrautseigju og dugnaði þrátt fyrir mótlæti. Hún hefur t.d. tekið þátt nokkrum sinnum í undankeppni Eurovision keppninnar en án árangurs.

Lög Leoncie hafa ekki oft komið út á safnplötum en þó má nefna áðurnefnda Lagasafnið 3 (1993), einnig kom út efni með henni á safnplötunni Afsakið hlé (2002).

Efni á plötum