Ruth Reginalds (1965-)

Ruth Regingalds4

Ruth Reginalds

Ruth (Rut) Scales Reginalds (f. 1965) er að öllum líkindum ein skærasta barnastjarna íslenskrar tónlistarsögu en um leið dapurlegt dæmi um hvernig frægð, athygli og freistingar því tengt getur leikið börn í hennar sporum.

Ruth hafði búið í New York í nokkur ár sem krakki þegar hún kom heim til Íslands og flutti til Keflavíkur með móður sinni og fósturföður í ársbyrjun 1973, þá á áttunda ári.

Hún sýndi fljótt sönghæfileika og kom fram opinberlega á 17. júní-skemmtun þá um sumarið með hljómsveitinni Júdas, sem innihélt m.a. Magnús Kjartansson en þau áttu eftir að starfa heilmikið saman. Ruth hafði reyndar ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana en móðir hennar, Ríkey Ingimundardóttir er hálfsystir bræðranna Lýðs og Gylfa Ægissona sem hafa komið að íslensku tónlistarlífi með einum eða öðrum hætti.

Menn voru fljótir að átta sig á hæfileikum Ruthar og fljótlega var hún fengin til að syngja inn á tvær plötur um Róbert bangsa sem komu út vorið 1975, Róbert bangsi og Róbert bangsi í Leikfangalandi, síðari plötunni fylgdi einnig lítil tveggja laga plata. Plöturnar urðu strax feikivinsælar og skutu Ruth á stjörnuhimininn, hún varð miðdepill alls kyns skemmtana og varð landsþekkt á svipstundu.

Í kjölfarið fóru Magnús Kjartansson og félagar hans í Júdas að vinna með henni plötu sem út kom ári síðar og bar heitið Simmsalabimm, Finnbogi bróðir Magnúsar stýrði upptökum. Á henni var að finna lög úr ýmsum áttum en Þorsteinnn Eggertsson átti flesta textana, umslag plötunnar myndskreytti Ruth sjálf ásamt Þorsteini.

Eins og platan um Róbert bangsa varð Simmsalabimm strax vinsæl enda fyrsta eiginlega barnapoppplata sem gefin er út á Íslandi. Titillag hennar varð t.a.m. gríðarlega vinsælt en það söng hún með Einari Júlíussyni, Simmsalabimm fékk ennfremur ágæta dóma í Dagblaðinu og Vísi en síðri í Tímanum.

Athyglin sem Ruth fékk í kjölfarið leiddi smám saman til þess að hún varð fyrir aðkasti og einelti í skóla sínum en það átti eftir að verða viðvarandi næstu árin. Ekki var tekið á þeim málum með fullnægjandi hætti fremur en tíðkaðist á þessum tíma og átti þetta síðar eftir að leiða til fíkniefnaneyslu hennar og drykkju á unglingsárum en hún hóf að drekka strax ellefu ára gömul. Inn í þetta blönduðust önnur vandamál eins og skilnaður móður hennar og fósturföður, en föður sinn sem var af erlendu bergi brotinn, hafði hún aldrei þekkt.

Velgengnin var mikil á yfirborðinu og Ruth naut mikilla vinsælda, kom fram í fjölmiðlum og söng mikið opinberlega. 1977 hóf vinnan við nýja plötu þar sem Magnús Kjartansson var enn í aðalhlutverki en nú var það ný sveit hans, Brunaliðið sem annaðist undirleik á plötunni. Þeir Þórður Árnason og Vilhjálmur Vilhjálmsson stjórnuðu upptökum sem fram fóru í Hljóðrita í Hafnarfirði.

Þegar platan, sem hlaut titilinn Ruth Reginalds, kom út um sumarið 1977 lá beinast við að hún héldi samstarfinu áfram með Brunaliðinu og túraði hún með sveitinni og fríðu föruneyti um landið þvert og endilangt með fjölskylduskemmtunum að deginum til en sveitaböllum á kvöldin, slíkt líferni hefur sjálfsagt ekki hjálpað til í vandamálum Ruthar enda var Brunaliðið samansafn vinsælla poppara sem fannst ekkert skemmtilegra en að sukka ærlega, það skal þó tekið fram að popplandsliðið hélt söngkonunni ungu frá djamminu sem framast var kostur enda var hún ekki orðin tólf ára þegar hér var komið við sögu.

Ruth Reginalds3

Ruth í Hljóðrita

Lögin af plötunni heyrðust mikið í útvarpi og sló sérstaklega lagið Tóm tjara í gegn en í textanum fólst áróður gegn reykingum. Lína ballerína, Addi snari og Lalli nutu einnig mikilla vinsælda. Platan seldist vel og fékk gullplötu fyrir fimm þúsund seld eintök en auk þess hlaut hún góða dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Dagblaðinu og Tímanum sem varð til að styrkja Ruth á söngsviðinu en einangraði hana enn frekar félagslega.

Haustið 1977 bætti Ruth enn einni rósinni í hnappagatið þegar hún söng tvö jólalög í hressilegri kantinum á jólaplötuna Jólastrengir. Þetta voru lögin Jólasveinninn kemur og Ég sá mömmu kyssa jólasvein. Lögin slógu samstundis í gegn eins og annað sem hún hafði tekið sér fyrir hendur og í uppgjöri dagblaðsins á íslenska poppárinu um áramótin hafnaði hún í öðru sæti sem söngkona ársins, þá rétt ríflega tólf ára gömul.

Fljótlega var farið að vinna að næstu plötu Ruthar, hennar þriðju sólóplötu. Hún fékk titilinn Furðuverk og varð titillagið vinsælasta lag plötunnar. Þetta var þriðja og jafnframt síðasta platan sem hún vann með Magnúsi Kjartanssyni og félögum en Hljómplötuútgáfan sem hann og Jón Ólafsson (síðar kenndur við Skífuna) m.a. áttu hlut að, gaf út hana út. Magnús stjórnaði upptökum sjálfur og útsetti lögin en útgáfan varð fyrir miklu áfalli um svipað leyti og platan kom út þegar einn eigenda hennar, Vilhjálmur Vilhjálmsson féll frá með sviplegum hætti. Platan fékk góðar viðtökur eins og hinar tvær, hún fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og ágæta í Vísi.

Smám saman hafði sigið á ógæfuhliðina eins og fyrr er greint frá og þegar næsta plata fór í vinnslu sumarið 1980 var Ruth komin á kaf í ruglið, hún hafði slitið samstarfinu við Magnús Kjartansson og Geimsteinn gaf hana út haustið 1980. Platan hlaut nafnið Rut+ en nú var Ruth hætt að skrá nafn sitt með h-i eins og áður. Rúnar Júlíusson stjórnaði upptökum sem fóru fram í Hljóðrita og MSP Long Island. Platan þótti ekki eins vel heppnuð og fyrri plötur en hún fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu, hún var að mati gagnrýnenda ekki eins heilsteypt. Hún naut samt sem áður vinsælda og lögin Hvað er að mér? og sérstaklega Í bljúgri bæn urðu með vinsælli lögum, hið síðarnefnda hefur reyndar fylgt Ruth alla tíð síðan.

Þetta varð síðasta plata Ruthar í bili enda hafði álagið á henni ekki verið eðlilegt, á aðeins rúmlega fimm árum hafði hún sungið inn á sex stórar plötur þar sem söngur hennar var í aðalhlutverki (þ.a. fjórar sólóplötur), sungið inn á jólaplötu, á skemmtunum um land allt og í útvarpi og sjónvarpi þannig að eitthvað hlaut undan að láta. Enda fór svo að hún dró sig í hlé að mestu en var þó eitthvað viðloðandi tónlist, neyslan var allsráðandi næstu ár Ruthar þar sem áfengi og eiturlyf stjórnuðu mestu.

Ruth Reginalds

Ruth á unglingsárunum

Ruth var þarna um tíma í keflvískri hljómsveit sem bar nafnið Groupsex en hún var skipuð ungu tónlistarfólki frá ýmsum löndum, fór um landið og spilaði rokkprógramm á böllum og hélt síðan til Færeyja til tónleikahalds. Allan tímann var söngkonan unga í neyslu.

Einnig kom Ruth við sögu Áhafnarinnar á Halastjörnunni og söng á einni plötu hennar, Ég kveðju sendi-herra, sem út kom 1983. Það var í fyrsta skipti sem hún söng á plötu sem ekki var stílað á barnamarkhópinn.

Þetta sama ár (1983) var hún einnig viðloðandi pönksveitina Fræbbblana (er gekk þarna undir nafninu AEON) en Valgarður Guðjónsson söngvari hafði yfirgefið sveitina í fússi, eitthvað var það samstarf Ruthar og Fræbbblanna endasleppt.

Enn hallaði undan fæti og svo fór að lokum að henni var hjálpað í meðferð 21 árs gamalli, árið 1986. Eftir það má segja að ný Ruth hafi komið fram á sjónarsviðið, Ruth hin fullorðna en barnastjörnustimpillinn hefur þó ætíð fylgt henni enda mun hennar alltaf verða minnst fyrir framlag sitt til tónlistarinnar á yngri árum.

Eftir meðferðina fór lítið fyrir söngkonunni til að byrja með, hún söng reyndar inn á þrjár plötur frænda síns Lýðs Ægissonar sem komu út á árunum 1985 – 1992 en 1986 kom út lag sem Ruth söng ásamt Haraldi Gunnari á safnplötunni Skýjaborgir, þessi lög fóru ekki hátt og söngkonan var ekki áberandi á þessum árum enda að ná áttum eftir erfið æsku- og unglingsár. Reyndar fór hún ekki að koma aftur fram opinberlega að ráði fyrr en 1988. Hún minnti þó rækilega á sig þegar hún söng sem gestur á jólaplötu Björgvins Halldórssonar Allir fá þá eitthvað fallegt (1989), lagið Þú komst með jólin til mín.

Þá hóf hún að syngja m.a. á söngskemmtunum á skemmtistaðnum Broadway og víðar, og smám saman birtist hún í sönglagakeppnum eins og undankeppnum Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og Landslagskeppninni sem haldin var nokkrum sinnum í kringum 1990.

Ruth flutti t.a.m. tvö lög í Landslagskeppninni 1991 sem komu út á plötu tengdri þeirri keppni, annars vegar með hljómsveitinni Herramönnum þar sem hún söng ásamt söngvaranum Kristjáni Gíslasyni, hins vegar lag sem hún söng ein. Þetta sama ár söng hún einnig tvö lög í undankeppni Eurovision, Í leit að þér og Í fyrsta sinn, síðarnefnda lagið ásamt Ingvari Grétarssyni, það lag kom út á safnplötunni Úr ýmsum áttum (1991).

1992 kom hún við sögu á tveimur Lagasafns-safnplötum sem þá komu út, annars vegar með hljómsveitinni Foreign country á Lagasafnið 1 og hins vegar á Lagasafninu 2 þar sem hún flutti lag undir eigin nafni.

1992 kom Ruth við sögu á styrktarplötu fyrir Sophiu Hansen, Börnin heim en 1993 tók hún aftur þátt í undankeppni Eurovision með sönghópnum Júróbykkjunum sem flutti lag Ómars Ragnarssonar. Þá tók hún einnig þátt í uppfærslu á Evitu á Akureyri þar sem hún söng aðalhlutverkið þetta sama ár og ári síðar, 1994 var hún í hljómsveitinni Alvörunni ásamt Grétari Örvarssyni sem sendi m.a. frá sér gamla Grýlulagið Hvað er að ske? í nýrri útsetningu, það kom út á safnplötunni Ýkt böst. Allt voru þetta þó einungis skammtímaverkefni utan þess að Alvaran starfaði í nokkra mánuði.

Ruth Reginalds2

Ruth

Ruth kom víða við, 1996 söng hún inn á jólaplötuna Jólaperlur og um það leyti hóf hún samstarf með Birgi Jóhanni Birgissyni sem stóð um árabil, síðar einnig með Magnúsi Kjartanssyni, þar sem þau fengust við alhlið pöbbaspilamennsku. Aldrei var hún þó alveg laus við áfengi og skiptust á skin og skúrir í þeim málum.

Þá söng hún nokkur lög á safnplötum úr ýmsum áttum sem komu út á þessum árum, t.d. Alla leið heim (1997) og Ástarperlur 2 (1998) svo dæmi séu tekin en árið 2000 hóf hún samstarf með Eyjólfi Kristjánssyni og Inga Gunnari Jóhannssyni í tríóinu Vox, það samstarf stóð til 2003. Um þetta leyti starfaði hún einnig eitthvað með hljómsveitinni Cadillac.

Árið 2000 kom að því að Ruth lét aftur til sín taka með rækilegum hætti þegar hún gaf út á eigin spýtur sólóplötu sem bar einfaldlega nafnið Ruth. Þar var hún í samstarfi með Gunnlaugi Briem sem annaðist upptökur og útsetningar ásamt fleirum en platan var tekin upp í London, öll lögin voru sungin á ensku. Þá hafði ekki komið út plata með henni í tuttugu ár.

Platan fékk ágætar viðtökur, hún seldist ágætlega en Ruth lét taka hana fljótlega úr sölu þegar hún uppgötvaði að dreifingaraðilinn hafði ekki staðið við sitt. Hún fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu en góða í tímaritinu Fókusi og DV en platan varð þó ekki til að auka hróður söngkonunnar eða efla vinsældir hennar að marki enda hafði hún litla sérstöðu í hörðum poppheiminum.

Vorið 2001 söng hún lag Inga Gunnars, Enginn eins og þú, í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og hafnaði þar í öðru sæti á eftir laginu Birtu (Angel) sem sigraði í það skiptið.

2002 og 03 vann Ruth að ævisögu sinni ásamt Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur en hún kom út fyrir jólin 2003 og hét einfaldlega Ruth Reginalds. Í bókinni skaut hún föstum skotum að sínum nánustu og fékk móðir hennar einkum að kenna á því en Ruth hafði aldrei séð neina af þeim fjármunum sem hún aflaði sem barnastjarna, og hafði hún reyndar alltaf staðið í þeirri meiningu að útgefandinn hefði ekki staðið við sitt. Þannig voru gömul sár ýfð upp og þær mæðgur tjáðu sig nokkuð við hvora aðra í gegnum fjölmiðla.

Um svipað leyti og bókin kom út, kom einnig út safnplatan Bestu barnalögin en hún hafði að geyma úrval af þeim lögum sem Ruth hafði gert vinsæl sem barn.

Ruth söng lag í Ljósalagakeppni Reykjanesbæjar 2003 og 2004 var hún í hljómsveitinni Stefnumótum með söngvaranum André Bachmann. Þessi verkefni vöktu þó enga sérstaka eftirtek.

Enn komst Ruth í fréttirnar þegar til stóð að hún færi í allsherjar yfirhalningu m.a. með lýtaaðgerðum snemma árs 2004 í beinni útsendingu í þættinum Ísland í bítið á Stöð 2, aldrei kom þó til þess þar eð landlæknir skarst í leikinn og því var ekki sjónvarpað frá aðgerðum, sem hún þó fór í um sumarið.

Lítið hefur farið fyrir Ruth síðan, í kjölfar lýtaaðgerðanna lenti hún enn í vandræðum í einkalífinu, skildi með eiginmann sinn og fluttist til Bandaríkjanna 2005. Þar býr hún núna og kallar sig Ruth Moore en hefur lítið sungið undanfarið, hún hefur þó sungið í gospelkór. Það hefur því gengið á ýmsu í lífi hennar, á milli þess sem hún hefur heillað fólk í kringum sig með söng hafa draugar fortíðarinnar barið að dyrum, hún hefur t.d. stundum átt erfitt með að segja alveg skilið við áfengið.

Söngvar hennar um Tóma tjöru, Simmsalabimm og Furðuverk munu þó alltaf halda nafni Ruthar Reginalds á lofti, barnastjörnunnar sem gaf Íslendingum æsku sína, eins og Albert Guðmundsson mun hafa komist að orði.

Lög Ruthar hafa komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina, hér eru nokkrar upp taldar: Bara það besta (1977), Barnagull (1986), 16 ára (1992), Barnalög (1993), Lofsöngvar (1993), Alltaf á jólum (1993), Pottþétt jól (1996), Bítlabærinn Keflavík (1998), Pottþétt jól 2 (1998), Íslensku Disneylögin (2000), Skógarjól (2000), Á hátíðarvegum (2000), 25 ára (2001), Óskalögin 5 (2001), Pottþétt barnajól (2001), Íslensk Pepsi jól (2001), Pottþétt gospel (2001), Litla jólaplatan (2002), Óskalögin 6 (2002), Stóra barnaplatan 3 (2002), Gullkorn Jóhanns G. Jóhannssonar (2003), NEXT: jóladiskurinn 2004 (2004), Ég hlakka svo til (2009) og 100 íslensk í ferðalagið (2009).

Þrátt fyrir að hér að ofan hafi verið upp taldir fjölmargir tónlistarmenn sem Ruth Reginalds hefur unnið með eru hér nefndir nokkrir til viðbótar sem hún hefur sungið með á plötum, Geirmundur Valtýsson, Hallbjörn Hjartarson, Anna Mjöll Ólafsdóttir, Kristján Kristjánsson (KK), Ómar Ragnarsson, Selma Hrönn Maríudóttir, Stefán Hilmarsson, Sverrir Stormsker, Magnús og Þorgeir, Rúnar Þór Pétursson, Bjarni Tryggva og Jóhann G. Jóhannsson.

Efni á plötum