
Valgeir Guðjónsson og Halla Margrét Árnadóttir
Menn lögðu ekki árar í bát þrátt fyrir áfallið í Bergen, nú var búið að taka einu sinni þátt og þá var bara að læra af reynslunni. Næsta ár (1987) var haldin undankeppni með örlítið breyttu sniði frá árinu áður. Áhuginn var mun minni en árið á undan en aðeins fimmtíu og níu lög bárust í keppnina, tíu þeirra voru valin til að keppa í úrslitunum og fékk hver höfundur 150.000 krónur til ráðstöfunar til að fullvinna lagið.
Lögin tíu sem háðu baráttuna um sætið í lokakeppninni voru: Aldrei ég gleymi eftir Axel Einarsson, Jóhann G. Jóhannsson samdi textann en Erna Gunnarsdóttir söng, Ég leyni minni ást eftir Jóhann G. Jóhannsson en Björgvin Halldórsson flutti, Gamlar glóðir eftir Þorgeir Daníel Hjaltason við texta Iðunnar Steinsdóttur, Jóhanna Linnet flutti, Norðurljós (lagið hét upphaflega Hanastél) eftir Gunnar Þórðarson við texta Ólafs Hauks Símonarsonar og flutning Eyjólfs Kristjánssonar, Hægt og hljótt eftir Valgeir Guðjónsson en Halla Margrét Árnadóttir söng það, Í blíðu og stríðu eftir Jóhann Helgason sem söng lagið sjálfur, Lífsdansinn eftir Geirmund Valtýsson við texta Hjálmars Jónssonar í flutningi Björgvins Halldórssonar og Ernu Gunnarsdóttur, Lífið er lag eftir Gunnlaug Briem, Friðrik Karlsson og Birgi Bragason en hljómsveitin Model flutti, Mín þrá eftir Jóhann G. Jóhannsson í flutningi Björgvins Halldórssonar og Sofðu vært eftir Ólaf Hauk Símonarson en það lag söng Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú). Lögin voru kynnt í fimm stuttum sjónvarpsþáttum vikurnar fyrir úrslitin sem fram fóru mánudagskvöldið 23. mars.
Svo fór að Hægt og hljótt í flutningi Höllu Margrétar Árnadóttur, 22 ára gamallar óþekktrar söngkonu, sigraði eftir harða baráttu við Model og Lífið er lag en Norðurljós með Eyjólfi Kristjánssyni lenti í þriðja sæti.
Flest laganna nutu vinsælda í kjölfar keppninnar og stóru útgefendurnir, Skífan og Steinar skiptu lögunum með sér á safnplötum, Skífan gaf út plötuna Söngvakeppni Sjónvarpsins með Hægt og hljótt, Lífsdansinum, Ég leyni minni ást, Í blíðu og stríðu, Mín þrá og Sumarást en hin lögin fjögur, Aldrei ég gleymi, Norðurljós, Sofðu vært og Lífið er lag, komu út á safnplötu Steina, Lífið er lag. Þrjú síðast nefndu lögin komu ennfremur út á smáskífum á vegum fyrirtækisins. Hægt og hljótt kom hins vegar út á smáskífu á vegum Skífunnar, þar var lagið sungið á íslensku og ensku (undir titlinum One more song).
Halla Margrét og Valgeir ásamt föruneyti fóru til Belgíu þar sem lokakeppnin var haldin og þrátt fyrir vonbrigðin frá árinu áður virtust menn nokkuð borubrattir og bjartsýnir sem fyrr, árangurinn hlyti að minnsta kosti að verða betri en hjá Gleðibankanum.
Laugardagskvöldið 9. maí var keppnin haldin og vonbrigðin urðu hin sömu og árið áður, sextánda sætið var hlutskipti okkar aftur en sumir vildu meina að árangurinn væri betri í þetta skiptið þar sem þátttökuþjóðirnar voru fleiri. Færri afsökunarraddir heyrðust en þeim mun fleiri sem fannst Eurovision ómerkilegt fyrirbæri og hundleiðinlegt.