Söngvakeppni Sjónvarpsins [3] (1988 – Þú og þeir (Sókrates) / Socrates) [tónlistarviðburður]

Sverrir Stormsker og Stefán Hilmarsson

Það má kannski segja að nú hafi nýjabrumið verið farið af Eurovision-undankeppninni og hafi verið blásið í lúðra fyrsta árið má segja sem svo að þetta þriðja ár hafi lúðrablásturinn verið í formi nokkurra blokkflaututóna, enda var þessi fræga sönglagakeppni erfiðari viðureignar en menn héldu fyrir.

Fleiri sendu þó inn lög 1988 en árið á undan (alls 117 lög), fyrirkomulagið var hið sama, tíu lagahöfundar fengu nú 175.000 krónur til ráðstöfunar til að fullvinna lög sín en lögin voru Aftur og aftur sem Bjarni Arason söng (eftir Jakob Frímann Magnússon), Ástarævintýri í flutningi Eyjólfs Kristjánssonar (lag Eyjólfs og Inga Gunnars Jóhannssonar við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar), Dag eftir dag, sungið af Guðrúnu Gunnarsdóttur (lag og texti eftir Valgeir Skagfjörð), Eitt vor sem Pálmi Gunnarsson söng (eftir Kristin Svavarsson við texta Halldórs Gunnarssonar), Í fyrrasumar, sungið af Grétari Örvarssyni og Gígju Sigurðardóttur (lag Grétars og texti Ingólfs Steinssonar), Í tangó í flutningi Björgvins Halldórssonar og Eddu Borg (lag Gunnars Þórðarsonar við texta Þorsteins Eggertssonar), Látum sönginn hljóma, flutt af Stefáni Hilmarsson (eftir Geirmund Valtýsson og Hjálmar Jónsson) Mánaskin sem Eyjólfur Kristjánsson og Sigrún Waage sungu (lag Guðmunds Árnasonar og texti Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar), Sólarsamba í flutningi Magnúsar Kjartanssonar og dóttur hans, Margrétar Gauju (eftir Magnús og við texta eftir Halldór Gunnarsson) og Þú og þeir, sungið af Stefáni Hilmarssyni (en lag og texti eftir Sverri Ólafsson Stormsker).

Úrslitin fóru fram mánudagskvöldið 21. mars og er skemmst frá því að segja að lagið Þú og þeir eftir Sverri Stormsker í flutningi Stefáns Hilmarssonar, sigraði með miklum yfirburðum, Ástarævintýri varð í öðru sæti og Mánaskin í því þriðja.

Sverrir var yfirlýsingaglaður í kjölfar sigur síns og lofaði því í blaðaviðtali strax um kvöldið að ef hann yrði ekki meðal tíu efstu í lokakeppninni myndi hann hengja sig í hæsta gálga, einnig heyrðust yfirlýsingar þess efnis að hann myndi gera þarfir sínar á sviðinu ef hann ynni ekki. Sverrir gerði reyndar ráð fyrir að sigra Eurovision á Írlandi og var þegar búinn að finna hentugt húsnæði fyrir keppnina hér árið eftir, í Félagsheimilinu í Kjós.

Níu af tíu laganna komu út fljótlega á safnplötunni Þú og þeir og allir hinir nema einn, en lagið Aftur og aftur var þar ekki af ókunnum ástæðum. Ástarævintýri, Sólarsamba, Látum sönginn hljóma og Í tangó nutu um sumarið mikilla vinsælda auk auðvitað sigurlagsins.

Hópurinn hélt til Dublin í Írlandi undir nafninu Beathoven og hafði þá nafni lagsins verið breytt í Sókrates (Socrates á ensku), með í för var kraftatröllið Jón Páll en hann var einkum til að kynna land og þjóð. Það dugði þó lítt til því enn og aftur varð sextánda sætið hlutskipti okkar Íslendinga en sigurinn féll í hendur Svisslendinga og söngkonunnar Celine Dion, sem reyndar er kanadísk. „Allt er þá er þrennt er“ sögðu menn fyrir keppnina og áttu þá við að við þyrftum þrjú skipti til að vinna Eurovision en fæstir tengdu það við að sextánda sætið yrði hlutskipti okkar í þrígang. Annars vakti framganga kynningarfulltrúa Ríkissjónvarpsins í Dublin, Hrafns Gunnlaugssonar einna mestu athyglina ytra en honum varð illilega á messunni þegar hann kynnti Stefán Hilmarsson sem Sighvat Björgvinsson í samkvæmi í boði hópsins. Í kjölfarið var honum ýtt til hliðar.