Söngvakeppni Sjónvarpsins 1989 – Það sem enginn sér / No one knows

Söngvakeppni sjónvarpsins 89

Valgeir Guðjónsson ásamt hinum unga Daníel Ágústi Haraldssyni

Undankeppni Eurovision 1989 var með öðru sniði en áður enda þurfti nú að spara innan Ríkissútvarpsins, fyrirkomulagið var með þeim hætti að sex höfundar voru fengnir til að semja lög, höfundarnir þrír sem sigrað höfðu í þrjú fyrstu skiptin, auk Gunnars Þórðarsonar og Geirmundar Valtýssonar sem átt höfðu lög í öllum þremur undankeppnunum til þessa. Bubba Morthens var auk þess boðið að semja lag fyrir keppnina en hann afþakkaði.

Lögin voru Alpatwist eftir Geirmund Valtýsson við texta Hjálmars Jónssonar en Bítlavinafélagið flutti, Línudans eftir Magnús Eiríksson, flutt af Ellenu Kristjánsdóttur, Sóley eftir Gunnar Þórðarson við texta hans og Toby Herman, Björgvin Halldórsson og Katla María Hausmann fluttu, Það sem enginn sér, eftir Valgeir Guðjónsson í flutningi Daníels Ágústs Haraldssonar og Þú leiddir mig í ljós eftir Sverri Stormsker en Jóhanna Linnet söng það lag.

Á sama tíma og menn skáru niður hjá Ríkisútvarpinu var sett önnur söngvakeppni á fót á vegum Stöðvar 2 enda voru þeir fljótir að skynja óánægju lagahöfunda með fyrirkomulag RÚV á framkvæmd undankeppninnar, nýja keppnin hlaut nafnið Landslagið, og fjölmiðlarnir tveir bitust um hylli áhorfenda og áheyrenda þetta árið, undankeppni Eurovision hlaut því minni umfjöllun og athygli en ella.

Alltént var áhugi á keppninni nú minni en áður og minna fór fyrir henni í fjölmiðlum, úrslitin réðust síðan í beinni sjónvarpsútsendingu fimmtudagskvöldið 30. mars. Daníel Ágúst og lagið Það sem enginn sér eftir Valgeir Guðjónsson bar sigur úr býtum og Alpatwist Geirmundar og Línudans Magnúsar Eiríkssonar skiptu með sér öðru og þriðja sætinu. Eins og í fyrra sinnið er Valgeir sigraði tefldi hann fram ungum og lítt þekktum söngvara, en Daníel Ágúst var söngvari þá lítt þekktrar hljómsveitar, Nýdanskrar.

Sigurlagið kom út á smáskífu hjá Steinum á íslensku og ensku en naut óneitanlega nokkuð minni athygli en fyrirrennararnir enda Landslagið í gangi eins og fyrr er frá greint. Alpatwist kom út á plötu Geirmundar um sumarið, Í syngjandi sveiflu, Línudans var hins vegar á safnplötunni Bjartar nætur á sama tíma og Þú leiddir mig í ljós Sverris Stormsker kom út um haustið á plötu Stormskersins, Hinn nýi íslenski þjóðsöngur. Sóley Gunnars Þórðarsonar kom ekki út fyrr en á safnplötu Björgvins, Þó líði ár og öld árið 1994 (þótt Rokklingarnir syngju það reyndar á plötu sinni, Það er svo undarlegt, árið 1991). Línudans og Sóley nutu hvað mestra vinsælda auk sigurlagsins, og hafa orðið sígild með tímanum.

Lokaúrslitin 1989 fóru fram í Bern í Sviss 6. maí og er skemmst frá því að segja að þaðan reið íslenska lagið ekki feitum hesti, hlaut ekkert stig og hafnaði í neðsta sæti en Norðmenn höfðu helst til þessa náð slíkum árangri.

Menn höfðu svosem ekki miklar skýringar á þessu slaka gengi, þótt „keppnisliðið“ gengi stolt frá borði sárnaði þjóðinni og raddir heyrðust sem vildu „hætta þessari vitleysu“ og hin margnotaða og -rómaða höfðatala var nú dregin fram í dagsljósið og margtuggin. Það var því ekki undarlegt þótt landinn hefði litlar væntingar í framhaldinu.

Efni á plötum