Söngvakeppni Sjónvarpsins 1992 – Nei eða já / Time after time

Heart 2 heart

Heart 2 heart á sviðinu í Svíþjóð

150 lög bárust í undankeppni Evrópusöngvakeppninnar fyrir vorið 1992 og voru tíu af þeim valin af dómnefnd til að keppa um sæti í úrslitakeppninni í Svíþjóð.

Lögin tíu voru; Einfalt mál (lag Harðar G. Ólafssonar við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar) sungið af Helgu Möller og Karli Örvarssyni, Eva (eftir Þóri Úlfarsson við texta Arnars Freys Gunnarssonar) í flutningi Arnars Freys, Karen (lag Jóhanns Helgasonar við texta Björns Björnssonar) í flutningi Bjarna Arasonar, Ljósdimma nótt (lag og texti Herdísar Hallvarðsdóttur) flutt af Guðrúnu Gunnarsdóttur, Mig dreymir (eftir Björgvin Halldórsson) sungið af höfundinum sjálfum, Nei eða já (eftir Friðrik Karlsson og Grétar Örvarsson, Stefán Hilmarsson samdi texta) flutt af Sigríði Beinteinsdóttur og Sigrúnu Evu Ármannsdóttur, Nótt sem dag (lag Sigurðar Baldurssonar við texta Gylfa Más Hilmissonar) flutt af Gylfa Má, Þú mátt mig engu leyna (eftir Axel Einarsson við texta Harðar Hilmarssonar) sungið af Margréti Eir Hjartardóttur og Þú! um þig! frá þér! til þín! (lag og texti eftir Ómar Ragnarsson), sungið af Helgu Möller og Karli Örvarssyni.

Upphaflega var lagið Nýr heimur einnig meðal keppnislaganna en af einhverjum ókunnum ástæðum var það síðan ekki meðal þeirra sem keppti til úrslita. Lögin níu voru kynnt í þremur þáttum.

Sigurvegari keppninnar þetta árið varð Nei eða já í flutningi Sigríðar Beinteinsdóttur og Sigrúnar Evu Ármannsdóttur en Karen sungið af Bjarna Arasyni hafnaði í öðru sæti. Þau tvö skáru sig nokkuð úr í úrslitunum en Mig dreymir, lag Björgvins Halldórssonar lenti í þriðja sæti.

Eins og venjulega kepptust lögin um athyglina eftir keppnina, engin safnplata var gefin út sérstaklega í tengslum við hana en lögin komu út á nokkrum safnplötum, Ljósdimma nótt á safnplötunni Börnin heim, Karen á Bandalögum 5, Mig dreymir og Eva á safnplötunni Sólargeisla, auk þess kom Einfalt mál út á plötu höfundarins, Harðar G. Ólafssonar árið 1998 og þá flutt af Helgu Möller sem fyrr sem og Jóhannesi Eiðssyni. Lögin Nótt sem dag, Þú mátt mig engu leyna og Þú! Um þig! Frá þér! Til þín! hafa vísast aldrei komið út á plötum.

Hljómsveitin Stjórnin sem flutt hafði Eitt lag enn tveimur árum áður var nú aftur dregin fram í Eurovision-dagsljósið til að fylgja þeim stöllum til Svíþjóðar enda Grétar höfundur lagsins og Sigríður annar flytjenda, sveitin kallaði sig nú Heart 2 heart og þegar lagið var gefið út á smáskífu fyrir keppnina var það kallað Time after time upp á enska tungu. Aukinheldur kom lagið út á breiðskífu Stjórnarinnar sem kom út um sumarið.

9. maí var úrslitakeppnin haldin og hafnaði þetta framlag Íslendinga í sjöunda sæti sem var næstbesti árangur landsins til þessa. Menn voru því nokkuð sáttir við árangurinn.

Efni á plötum