Söngvakeppni Sjónvarpsins 1993 – Þá veistu svarið / Midnight dancer

ingibjörg Stefánsdóttir

Ingibjörg Stefánsdóttir syngur Þá veistu svarið

Um 130 lög bárust í keppnina árið 1993 og tíu þeirra kepptu til úrslita í beinni sjónvarpsútsendingu í febrúar eftir að hafa verið kynnt í nokkrum þáttum, lögin voru eftirfarandi; Bless, bless í flutningi Guðlaugar Ólafsdóttur (eftir Geirmund Valtýsson við texta Birgis Fannars Birgissonar), Brenndar brýr flutt af Ingunni Gylfadóttur (lagið er eftir Ingunni og Tómas Hermannsson en textinn eftir Odd Bjarna Þorkelsson), Eins og skot, sungið af Önnu Mjöll Ólafsdóttur (lag og texti eftir föður hennar, Ólaf Gauk Þórhallsson), Ég bý hér enn sungið af áðurnefndri Ingunni (lag eftir hana og Tómas en auk þeirra átti Friðfinnur Hermannsson (bróðir Tómasar) stóran hlut í textanum), Himinn, jörð og haf flutt af Júlíusi Guðmundssyni (eftir Borgar Þórarinsson við texta Odd Bjarna Þorkelsson), Hopp-abla-ha sungið af Júróbykkjunum sem reyndust vera Ruth Reginalds, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Skúli Gautason og Ómar Ragnarsson (lag og texti Ómars Ragnarssonar), Í roki og regni sem sungið var af Hauki Haukssyni (lag Ingvi Þór Kormáksson, texti Pétur Eggerz), Ó, hve ljúft er að lifa flutt af Margréti Eir Hjartardóttur (lag Þóris Baldurssonar við texta Jónasar Friðriks Guðnasonar), Samba flutt af Kötlu Maríu Hausmann (lagið er eftir Kötlu Maríu en textinn eftir Halldór Hermannsson) og Þá veistu svarið í flutningi Ingibjargar Stefánsdóttur (eftir Jon Kjell Seljeseth við texta Friðriks Sturlusonar).

Sigurlagið var Þá veistu svarið eftir hinn norsk-íslenska Jon Kjell, sem Ingibjörg Stefánsdóttir tvítug söngkona söng en hún hafði þá getið sér orðspors sem söngkona Pís of keik. Eins og skot flutt af Önnu Mjöll varð í öðru sæti og Brenndar brýr með Ingunni Gylfadóttur í því þriðja en hún átti tvö lög í úrslitunum ásamt Tómasi Hermannssyni.

Eins og lög gera ráð fyrir var gefin út smáskífa með íslenskum og enskum texta, Friðrik Sturluson gerði enskan texta við lagið sem hét þá Midnight dancer og var Ingibjörg kynnt undir nafninu Inga. Einnig kom lagið út á safnplötunni Heyrðu, síðar um sumarið. Annars komu fá laganna út í kjölfarið, lagið í þriðja sæti, Brenndar brýr kom út á plötunni Endist varla en þau Ingunn og Tómas gáfu hana út tveimur árum síðar undir flytjendanafninu Piltur og stúlka. Bless, bless kom út á plötu Geirmundar Valtýssonar, sem hét einfaldlega Geirmundur, um sumarið 1993 og um svipað leyti kom lagið Í roki og regni út á safnplötunni Lagasafnið 4 en önnur lög frá úrslitunum 1993 hafa aldrei komið út á plötum.

Stóri dagurinn rann upp 15. maí og þegar upp var staðið hafði lagið hafnað í þrettánda sæti í keppninni sem haldin var í Dublin á Írlandi, árangurinn var íslenska hópnum nokkur vonbrigði en vonir höfðu verið um betra gengi eftir blaðamannafundi og kynningar.

Þarna fóru að heyrast raddir um hversu óþjál íslenskan hljómaði í eyrum útlendinga og menn tóku að spyrja sig hvort það hentaði betur að syngja á ensku. T.a.m. velti höfundur lagsins, Jon Kjell því fyrir sér hvernig laginu hefði gengið hefðu t.d. Bretar sent það til keppni.

Einnig spurðu menn sig hvort þjóðir væru að „díla“ með stig sín á milli, sú umræða átti eftir að aukast á næstu árum.

Efni á plötum