Söngvakeppni Sjónvarpsins 1995 – Núna / If it’s gonna end in heartache

Björgvin Halldórsson Núna

Björgvin Halldórsson

Enn á ný var nýtt fyrirkomulag keppninnar hér heima prófað árið 1995, var það gert í sparnaðarskyni eins og árið áður og þegar upp var staðið varð kostnaður helmingi minni en þegar best lét.

Í þetta sinn var flytjandinn valinn fyrst og lagið síðan, af sérstakri nefnd. Stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson varð fyrir valinu en nokkrar raddir höfðu heyrst í gegnum árin að hann væri einmitt sá söngvari sem hentaði slíkum keppnum best, máli sínu til stuðnings nefndu menn söngvakeppni á Írlandi sem hann hafði tekið þátt í nokkrum árum fyrr og staðið sig með miklum ágætum.

Þeir félagar Björgvin og Ed Welch sömdu lagið, sem hlaut nafnið Núna, en textinn er eftir Jón Örn Marinósson. Ensk útgáfa var gerð eins og venjulega (If it‘s gonna end in heartache) og samdi áðurnefndur Welch þann texta, það varð þó nokkuð umdeilt að erlendur laga- og textahöfundur skyldi koma svo mikið að laginu.

Lagið kom út á smáskífu og um leið kom út safnplatan Núna: Björgvin Halldórsson og Söngvakeppni Sjónvarpsins 1986-1995, þar sem lög sem Björgvin hafði flutt í undankeppnunum hér heima, voru á einni plötu.

Stóri dagurinn rann síðan upp 13. maí og enn var haldið til Dublinar, í þriðja skiptið í röð. Í undanfaranum fyrir keppnina gekk nokkuð vel, lagið fékk nokkra athygli í fjölmiðlum ytra og gaf tilefni til bjartsýni í keppninni, menn vissu þó af fenginni reynslu að velgengni í aðdraganda keppninnar er allt annar hlutur en velgengni í stigagjöfinni eftir keppnina. Enda fór svo að Björgvin Halldórsson og Núna höfnuðu í fimmtánda sæti, sem varð íslensku þjóðinni óneitanlega nokkur vonbrigði.

Enn á ný fór umræðan um atkvæðaskipti milli þjóða af stað og hafði stjórn Eurovision keppninnar m.a. haldið fund um málið árið áður, ekki var þó boðað til aðgerða.

Fleira varð umdeilt í keppninni þetta árið, norska sigurlagið, Nocturne olli nokkrum deilum, einkum milli frændþjóðanna Norðmanna og Svía (sem bitust um sigur í keppninni) en þeir síðarnefndu fundu ýmislegt að norska laginu, það væri stolið og nánast instrumental (ósungið) og bentu ennfremur á að Norðmenn kæmu lítið við sögu á flutningi lagsins. Þess má geta að Óskar Páll Sveinsson og Jon Kjell Seljeseth unnu meðal annarra að laginu.

Sögu lagsins Núna var þó hvergi nærri lokið því Björgvin átti eftir að flytja það í tveimur sambærilegum söngvakeppnum á næstu tveimur árum, í Tyrklandi sumarið 1996 þar sem það hafnaði í öðru sæti og snemma árs 1997 í Caven International söngvakeppninni á Írlandi þar sem hann gerði sér lítið fyrir og sigraði. Lagið hlaut því uppreist æru eins og Björgvin benti sjálfur á í blaðaviðtali.

Efni á plötum