Söngvakeppni Sjónvarpsins [3] (1996 – Sjúbídú / Shoobe-doo) [tónlistarviðburður]

Anna Mjöll

Anna Mjöll

Engin undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin á Íslandi 1996 fremur en árið áður vegna gríðarlegs kostnaðar. Vegna þessa fóru raddir gegn þátttöku í keppninni að verða háværari.

Sveinbjörn I. Baldvinsson dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkissjónvarpinu gekk hvað harðast gegn þátttöku í keppninni vegna kostnaðarins við hana en um leið þýddi það stórfelldan niðurskurð í innlendri dagskrárgerð, útvarpsráð hafnaði beiðni hans í þrígang um að hætta við þátttöku og lyktir urðu þær að Sveinbjörn sagði upp starfi sínu.

Áhugi landans árið áður hafði verið í samræmi við umgjörð þátttökunnar og ekki jókst hann þegar sú leið var farin aftur að Ríkissjónvarpið leitaði til nokkurra aðila um lag, sumir afþökkuðu en svo fór að Anna Mjöll Ólafsdóttir söng lagið Sjúbídú sem hún samdi ásamt föður sínum, Ólafi Gauki Þórhallssyni. Hún hafði ekki verið mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi enda búið í Bandaríkjunum um tíma.

Anna Mjöll flutti lagið ásamt fjórum bandarískum bakraddasöngvurum og eins og árið áður voru menn ekki á eitt sáttir um aðkomu erlendra tónlistarmanna að íslenska framlaginu. Hvort sem það var ástæðan fyrir því að lagið kom ekki út á safnplötu um vorið, skal ekki segja en lagið kom þó út á íslensku og ensku (Shoobe-doo) á smáskífu á vegum Tónaljóna, útgáfufyrirtækis Ólafs Gauks.

Breytt fyrirkomulag úrslitakeppninnar, sem nú var haldin í Osló í Noregi olli því að aðeins tuttugu og þrjár þjóðir af þrjátíu náðu inn í aðalkeppnina en þjóðum hafði fjölgað mjög í Evrópu á árunum á undan í kjölfar sundurliðunar Balkan- og Sovétríkjanna. Eins konar forkeppni hafði því verið haldin nokkrum vikum fyrir aðalkeppnina og komust Íslendingar í gegnum þá síu.

Úrslitakvöldið 18. maí rann upp og endaði Sjúbídú í þrettánda sæti og mátti vel við una en Írar sigruðu, í fjórða skiptið á fimm árum.

Efni á plötum