
Páll Óskar syngur Minn hinsta dans
Eurovision keppnin hafði nú tekið nokkrum breytingum frá því Íslendingar tóku fyrst þátt 1986, takmarkanir á fjölda þátttakenda hafði verið sett á í kjölfar þess að Evrópuþjóðum fjölgaði mjög en auk þess var nú engin undankeppni hér heima fyrir keppnina heldur fékk Ríkissjónvarpið nú tónlistarfólk til að semja og flytja lag fyrir sína hönd.
Það fyrirkomulag var nú reynt í þriðja skiptið árið 1997 og var Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari, sem naut nokkurra vinsælda fyrir danspopp sitt, fenginn til verksins að beiðni Sjónvarpsins.
Hann samdi lagið og textann sjálfur ásamt Trausta Haraldssyni og tók hann meðvitaða ákvörðun að vera með öðruvísi lag, dansvænt og um leið skyldi það fanga athygli út á hið sjónræna. Einnig má geta þess að lagið er án dæmigerðs viðlags.
Páll Óskar er mikill Eurovision aðdáandi og hafði þótt keppnin ómerkileg síðustu árin á undan, hann afréð því að ganga alla leið og kæra sig kollóttan um hvað öðrum fyndist en freista þess að breyta ímynd keppninnar. Ýmsum þótti þó nóg um þegar lagið og myndbandið sást í fyrsta sinn.
Fimm laga smáskífa kom út, lagið á íslensku og ensku og að auki lagið Never done this before sem var nýtt lag úr ranni Páls Óskars en auk þess var að finna á plötunni lögin Ást við fyrstu sýn og gamli Duran Duran smellurinn A view to a kill. Páll Óskar sem kallaði sig nú Paul Oscar gaf plötuna út sjálfur. Lagið kom ekki út á safnplötum.
3. maí var sjálf keppnin haldin og þegar Páll Óskar hafði flutt framlag sitt síðastur keppenda ásamt fjórum dansmeyjum og hvítum sófa kvað Evrópa upp sinn dóm. Minn hinsti dans hafnaði í tuttugasta sæti af tuttugu og fimm, fáeinum dögum síðar kom í ljós að það dygði ekki Íslendingum til að hljóta þátttökurétt árið eftir en reglur þ.a.l. höfðu verið settar á. Bretar sigruðu.
Páll Óskar fékk þó mikla athygli út á flutninginn og plötusamning að auki, en skoðanir eru þó skiptar um hvort honum hafi tekið ætlunarverk sitt, að breyta Eurovision. Sumir vilja meina að lag hans hafi verið misheppnað og hann uppskorið samkvæmt því en aðrir benda á að árið eftir (1998, þegar Íslendingar fengu ekki að vera með) hafi hin/n ísraelska/i Dana International sigrað keppnina með hinu dansvæna Diva með pompi og prakt, m.ö.o. að Páll Óskar hafi opnað augu Evrópubúa fyrir Eurovison-dansbylgju sem kom í kjölfarið.