Söngvakeppni Sjónvarpsins 2000 – Hvert sem er / Tell me!

Einar Ágúst og Telma

Einar Ágúst og Telma

Árið 2000 var aftur tekin upp sú leið eftir nokkurra ára hlé að hafa undankeppni. Fimm lög af 120 sem bárust í keppnina voru kynnt í skemmtiþættinum Stutt í spunann, og úrslitakvöldið var síðan haldið í lok febrúar þegar þau kepptu í beinni útsendingu þáttarins.

Lögin fimm voru Barnagæla flutt af Guðrúnu Gunnarsdóttur en lag og texti voru eftir Valgeir Skagfjörð, Hvert sem er í flutningi Telmu Ágústsdóttur og Einars Ágústs Víðissonar, við lag Örlygs Smára og texta Sigurðar Arnar Jónssonar, Segðu mér einnig eftir Örlyg Smára og Sigurð Örn en sá fyrrnefndi flutti, Sta sta stam í flutningi Höllu Vilhjálmsdóttur eftir Sverri Stormsker og Söknuður sungið af Páli Rósinkrans en samið af Valgeiri Skagfjörð.
Höfundar laganna fimm voru því þrír talsins (fjórir ef höfundur texta er talinn) en þeir félagar Örlygur Smári og Sigurður Örn Jónsson höfðu ekki komið við sögu Eurovision undankeppninnar áður.

Lyktir urðu þær þetta laugardagskvöld að lagið Hvert sem er eftir Örlyg Smára sigraði eftir símakosningu en flytjendur lagsins voru þau Telma og Einar Ágúst. Einar Ágúst hafði verið þekktur um árabil sem annar söngvari hljómsveitarinnar Skítamórals en Telma var öllu óþekktari, söngkona Spur, dóttir Ágústs Atlasonar í Ríó tríó og náfrænka Írisar Kristinsdóttur söngkonu. Söknuður eftir Valgeir Skagfjörð var í öðru sæti og Sta sta stam eftir Sverri Stormsker í því þriðja.

Hvert sem er var töluvert endurunnið eftir keppnina og þegar smáskífa kom út hét lagið orðið Tell me! og var sungið á ensku. Einnig var að finna ósungna útgáfu af laginu á plötunni auk hins lags Örlygs úr keppninni, Segðu mér/Simple man í tveimur útgáfum.

Lagið kom aukinheldur út á safnplötunum Eurovision: Iceland’s entries in the ESC – and then some… 1986-2000 og Pottþétt 20 strax um sumarið.
Hin lögin í undankeppninni þetta árið fóru ekki hátt, Sta sta stam kom út á plötu Sverris Stormskers Best af því besta (2001), Barnagæla sem Guðrún Gunnarsdóttir söng í keppninni kom út nokkrum árum síðar á plötunni Eins og vindurinn, hitt lag Valgeirs, Söknuður hefur aldrei komið út.

Tell me! varð strax vinsælt og stemmingin fyrir Eurovision hér heima hafði greinilega aukist í kjölfar góðs gengis Selmu árið áður.

13. maí var Eurovision keppnin haldin í Stokkhólmi og íslenska þjóðin var nokkuð bjartsýn eins og oftast áður. Lagið hafnaði í tólfta sæti sem hlýtur að telja viðunandi árangur þótt ekki skákaði hann árangri Selmu. Það voru hins vegar hini dönsku Olsen bræður sem stálu senunni og fluttu hið vinsæla Fly on the wings of love sem hljómaði að minnsta kosti um alla norðanverða álfuna næstu mánuðina.

Efni á plötum