
Gunnar og Kristján á sviðinu í Parken
Stemmingin fyrir undankeppni hér heima hafði verið með ágætum árið 2000 og snemma árs 2001 var gert heyrinkunnugt hvaða lög myndu keppa til úrslita en þeim hafði verið fjölgað um þrjú frá árinu áður og voru nú alls átta.
Lögin sem voru kynnt í skemmtiþættinum Milli himins og jarðar voru; Aftur heim, flutt af Birgittu Haukdal og Eyjólfi Kristjánssyni við lag og texta Eyjólfs, Allt sem ég á í flutningi Ingunnar Gylfadóttur, eftir þau Ingunni og Tómas Hermannsson, Birta sem þeir Kristján Gíslason og Gunnar Ólason sungu, eftir Einar Bárðarson, Enginn eins og þú sungið af Ruth Reginalds við lag og texta Inga Gunnar Jóhannssonar, Í villtan dans með Rúnu Stefánsdóttur eftir Einar Oddsson, Komdu til mín í flutningi Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur en lag og texti voru eftir Grétar Sigurbergsson, Mín æskuást með Páli Rósinkrans, eftir Grétar einnig og Röddin þín flutt af Margréti Kristínu Sigurðardóttur (Fabúlu) en hún samdi jafnframt lag og texta.
Þegar undankeppnin fór fram um miðjan febrúar urðu úrslit þau að Birta sigraði, Enginn eins og þú varð í öðru sæti og Röddin þín í því þriðja.
Það vakti athygli í lok þáttarins að Steinunn Ólína umsjónarmaður Milli himins og jarðar hvatti sigurvegarana til að syngja á því tungumáli sem þeir vildu á sama tíma og útvarpsráð gaf út að lagið yrði sungið á íslensku.
Í kjölfarið hófst mikill sirkus þar sem Mörður Árnason í útvarpsráði fór mikinn, reyndar svo mjög að um tíma virtist sem lagið færi ekki til Danmerkur. Þeim deilum lyktaði þó með þeirri niðurstöðu að lagið var sungið á ensku.
Áður en til Kaupmannahafnar var haldið fór lagið í yfirhalningu og dúett þeirra Kristjáns og Gunnars hlaut nafnið Two tricky, þeir félagar voru ýmsu vanir og áttu sér rætur í ballgeiranum, Kristján með sveitum eins og Herramönnum og Gunnar með Skítamóral.
Eins og venjulega kom út smáskífa með laginu í þremur útgáfum (og hét nú orðið Angel á enska tungu), Angel var einnig að finna á safnplötunni Pottþétt Eurovision um vorið en lagið kom líka út órafmagnað á íslensku á safnplötunni Popp-frelsi um mitt sumar.
Af öðrum lögum undankeppninnar er það að frétta að lagið Aftur heim kom út í breyttri útgáfu á tónleikaplötu Eyjólfs Kristjánssonar höfundar þess, Eyfi: Engan jazz hér (2002), Í villtan dans kom út á plötu Rúnu sem var samnefnd henni og kom út 2004 og Röddin þín kom út síðar þetta sama ár undir enska titlinum Your voice á plötu Fabúlu, Kossafar á ilinni. Önnur lög úr keppninni 2001 hafa aldrei komið út á plötum.
12. maí stigu Two tricky aðrir á stokk eftir Hollendingum á Parken í Kaupmannahöfn en ekki er hægt að segja að þeir hafi riðið feitum hesti frá keppninni, niðurstaðan varð sú að Íslendingar deildu síðasta sætinu með Norðmönnum af þeim tuttugu og þremur þjóðum sem tók þátt. Menn leituðu eftir skýringum eins og svo oft áður og fundu nú út að fyrstu tíu flytjendurnir sem komu fram hefðu fengið miklu færri stig, þ.e. að áhorfendur hefðu verið búnir að gleyma hvernig lögin voru þegar símakosningin hófst.
Íslendingar furðuðu sig á úrslitunum en illar raddir sögðu að eflaust hefði hlakkað í Merði Árnasyni, sjálfsagt hefur annað útvarpsráðarfólk einnig varpað öndinni léttar þar sem ljóst var í ljósi árangursins að Íslendingar yrðu ekki með að ári í Eurovision, og heilmikill kostnaður myndi þ.a.l. sparast í rekstri Ríkissjónvarpsins.
Lagið Birta heyrðist lítið eftir þetta sumar en fréttir bárust af því afríkanskur listamaður, Andreas Georgiades hefði tekið lagið upp á sína arma árið 2003 og gert vinsælt.