Söngvakeppni Sjónvarpsins 2004 – Heaven

Jónsi1

Jónsi á sviðinu í Istanbul

Þrátt fyrir um margt skemmtilega og spennandi undankeppni 2003 var ákveðið að Ríkissjónvarpið héldi ekki slíka keppni vorið 2004, ekki voru allir tónlistarmenn á eitt sáttir um það og deildu Félag íslenskra hljómlistarmanna og forsvarsmenn undankeppninnar hjá Ríkissjónvarpinu um málið. Það skilaði engri niðurstöðu og ákveðið var að senda lag Sveins Rúnars Sigurðssonar við texta Magnúsar Þór Sigmundssonar, Heaven í flutningi Jóns Jóseps Snæbjörnssonar (Jónsa) söngvara hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, einnar vinsælustu hljómsveitar landsins.

Lagið var frumflutt í skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar, Laugardagskvöld með Gísla Marteini.

Lagið kom út á smáskífu eins og vera ber og um svipað leyti á safnplötunni Pottþétt 35. Það kom ennfremur út á plötunni Valentine lost, safnplötu með Eurovisionlögum Sveins Rúnars árið 2009.

Keppnin fór fram í Istanbul í Tyrklandi 15. dag maímánaðar og varð engin frægðarför þótt útlitið hafi svosem verið svartara, Jónsi þurfti ekki að taka þátt í forkeppninni þar sem árangur Birgittu hafði verið með ágætum árið áður en nítjánda sætið varð hlutskipti hans og því ljóst að Íslendingar þyrftu að taka þátt í forkeppni Eurovision árið eftir. Úkraínska stúlkan Ruslana sigraði að þessu sinni.

Annar Íslendingur stóð á sviðinu í Istanbul tveimur kvöldum áður þegar forkeppnin fór fram, það var Tómas Þórðarson og keppti hann fyrir hönd Danmerkur en komst ekki áfram á úrslitakvöldið.

Efni á plötum