
Selma flytur If I had your love
Síðla árs 2004 var tilkynnt að Ríkissjónvarpið myndi ekki blása til undankeppni Eurovision og annað árið í röð myndu menn innan stofnunarinnar sjá um að velja lag og flytjanda, var þetta gert í sparnaðarskyni eins og svo oft áður.
Það var svo í byrjun mars að gert var opinbert að Selma Björnsdóttir myndi syngja framlag Íslendinga að þessu sinni, lagið sem var eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson og Vigni Snæ Vigfússon við texta Selmu og Lindu Thompson hét If I had your love.
Selma hafði einmitt náð bestum árangri íslenskra keppenda með lagið All out of luck vorið 1999.
Ráðist var í gerð smáskífu með tveimur útgáfum af laginu en auk þess kom lagið út á safnplötunni Pottþétt 38 um svipað leyti.
Lagið og myndbandið við það var frumflutt í þættinum Laugardagskvöld með Gísla Marteini um miðjan mars og þar við sat þar til stóri dagurinn rann upp í Kíev í Úkraínu 19. maí en þá var forkeppnin fyrir úrslitin haldin.
Þrátt fyrir ágæta frammistöðu náði Selma ekki að heilla sjónvarpsáhorfendur álfunnar og komst lagið því ekki áfram á úrslitakvöldið, hún lenti í sextánda sæti forkeppninnar.
Fjörtíu þjóðir tóku þátt í Eurovision að þessu sinni sem var met, en einnig var haldið upp á fimmtíu ára afmæli keppninnar. Grikkir sigruðu og voru því gestgjafar næstu keppni.