Söngvakeppni Sjónvarpsins 2007 – Ég les í lófa þínum / Valentine lost

Eiríkur Hauksson - Valentine lost

Eiríkur Hauksson

Fyrirkomulagið 2007 var með svipuðu sniði og árið áður, tuttugu og fjögur lög kepptu í þremur undanþáttum um níu sæti í úrslitunum en árið á undan höfðu þau sæti reyndar verið fimmtán eins og áður er getið.

Lögin níu í úrslitunum voru þessi: Áfram með Sigurjóni Brink eftir hann og Bryndísi Sunnu Valdimarsdóttur en textinn var eftir Jóhannes Ásbjörnsson, Bjarta brosið í flutningi Andra Bergmann en lagið var eftir Torfa Ólafsson við texta Kristjáns Hreinssonar, Blómabörn sungið af áðurnefndri Bryndísi Sunnu, lag Trausta Bjarnasonar við texta Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Eldur með Friðriki Ómari Hjörleifssyni eftir feðgana Grétar Örvarsson og Kristján Grétarsson en textinn var eftir Ingibjörgu Gunnarsdóttur eiginkonu Grétars, Ég les í lófa þínum flutt af Eiríki Haukssyni en lagið var eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Kristjáns Hreinssonar, Ég og heilinn minn sungið af Ragnheiði Eiríksdóttur (Heiðu í Unun) en lag og texti voru eftir hana og Gunnar L. Hjálmarsson (Dr. Gunna), Húsin hafa augu með Matthíasi Matthíassyni, lag Þormars Ingimarssonar við texta Kristjáns Hreinssonar, Segðu mér sungið af Jóni Jósepi Snæbjörnssyni (Jónsa) við lag Trausta Bjarnasonar við texta Ragnheiðar Bjarnsdóttur og Þú tryllir mig með Hafsteini Þórólfssyni sem flutti lag og texta sem hann samdi sjálfur ásamt Hannesi Páli Pálssyni.

Hin lögin fimmtán (af tuttugu og fjórum) voru Allt eða ekki neitt sungið af Finni Jóhannssyni, lagið var eftir Torfa Ólafsson, Eðvarð Lárusson og Þorkel Olgeirsson en sá síðastnefndi samdi einnig textann, Dásamleg raun með Richard Scobie við lag og texta Bergsteins Björgúlfssonar, Draumur í flutningi Hreims Arnar Heimissonar eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Kristjáns Hreinssonar, Eitt símtal í burtu með Guðrúnu Lísu Einarsdóttur við lag Roland Hartwell og texta Kristjáns Hreinssonar, Enginn eins og þú með Aðalheiði Ólafsdóttur (Heiðu) en lagið var eftir Roland Hartwell við texta Kristjáns Hreinssonar, Ég hef fengið nóg með hljómsveitinni Von en þeir félagar Ellert H. Jóhannsson, Gunnar I. Sigurðsson, Sigurður Björnsson, Sigurpáll Aðalsteinsson og Sorin M. Lazar sömdu lagið við texta Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Fyrir þig sungið af Hjalta Ómari Ágústssyni við lag Torfa Ólafssonar og texta Þorkels Olgeirssonar, Júnínótt sungið af Soffíu Karlsdóttur við lag og texta Ómars Ragnarssonar, Leiðin liggur heim með Davíð Smára Harðarsonar eftir Elvar Gottskálksson við texta Kristján Hreinsson, Mig dreymdi í flutningi Heru Bjarkar Þórhallsdóttur en lagið var eftir Óskar Guðnason, textinn eftir Ingólf Steinsson, Orðin komu aldrei flutt af Snorra Snorrasyni, lag Óskars Guðnasonar við texta Kristjáns Hreinssonar, Vetur með Helga Rafni Ingvarssyni við lag og texta Magnúsar Guðmanns Jónssonar, Villtir skuggar sungið af Alexander Aroni Guðbjartssyni en Ingi Gunnar Jóhannsson samdi lag við texta Kristjáns Hreinssonar, Þú gafst mér allt með Bergþóri Smára sem söng eigið lag og texta og Örlagadís með Ernu Hrönn Ólafsdóttur, lag Roland Hartwell og texti Kristján Hreinsson.

Það er athyglisvert að sjá þátt Kristjáns Hreinssonar í þessum tveimur síðustu undankeppnum, 2006 á hann fimm af tuttugu og fjórum textum og 2007 á hann tíu af tuttugu og fjórum, samtals fimmtán texta af þeim fjörtíu og átta sem kepptu í undankeppnum Eurovision á tveimur árum.

Úrslitin voru haldin laugardagskvöldið 17. febrúar og það var greinilegt að taka átti allt annan pól í hæðina hvað tónlistina snerti, frá árinu áður. Menn voru vel samstíga í því að kjósa kraftballöðuna Ég les í lófa þínum í flutningi Eiríks Haukssonar sem Eurovision framlag okkar Íslendinga árið 2007, lagið sigraði með yfirburðum, Eldur í flutningi Friðriks Ómars varð í öðru sæti og Hafsteinn Þórólfsson náði því þriðja með lagið Þú tryllir mig.

Eiríkur var eldri en tvævetur þegar að Eurovisionreynslu kom en hann var í Icy-hópnum sem fyrstur Íslendinga keppti í Eurovision, einnig hafði hann keppt fyrir hönd Noregs nokkrum árum síðar.

Undirbúningur fyrir aðalkeppnina, sem halda átti í Helsinki í Finnlandi, hófst og gefin var út smáskífa með laginu eins og títt er, það hlaut þá enska heitið Valentine lost og kom einnig út á safnplötunni Pottþétt 43 og plötu sem höfundurinn Sveinn Rúnar Sigurðsson gaf út undir titli lagsins, á þeirri plötu var einnig að finna fleiri lög sem Sveinn hafði átt í Eurovision keppnunum hér heima, og vísað er í hér nokkrum sinnum að ofan. Lagið var einnig að finna á safnplötunni Söngvakeppni Sjónvarpsins 2007 sem gefin var út með öllum lögunum tuttugu og fjórum sem kepptu í undankeppninni.

Lögin í öðru og þriðja sæti Eldur og Þú tryllir mig komu út á safnplötunni Pottþétt 43 en önnur lög hafa ekki komið út annars staðar en á Söngvakeppni Sjónvarpsins 2007.

Ég les í lófa þínum/Valentine lost naut mikilla vinsælda og var síðar mest sótta lagið á vefsetri Tónlistar.is, lagið var ennfremur mest spilaða lagið á útvarpsstöðinni Bylgjunni en þegar Eiríkur og félagar höfðu lokið sér af á sviðinu í Helsinki í forkeppninni og tilkynnt hafði verið hvaða þjóðir kæmust í úrslitin var ljóst að Ísland væri ekki meðal þeirra, síðar kom í ljós að lagið hafði lent í 13. sæti forkeppninnar og í þriðja skiptið í röð þurfti þjóðin að sætta sig við það hlutskipti. Serbar sigruðu Eurovision að þessu sinni.