Rangárbræður (um 1975-)

Rangárbræður

Rangárbræður

Rangárbræður voru og eru þekktir söngmenn norðan heiða og einkum í Þingeyjasýslum, þeir gáfu út plötu 1986 og koma reglulega fram ennþá.

Þeir bræður, Baldur (f. 1948) og Baldvin Kristinn Baldvinssynir (f. 1950) voru frá bænum Rangá í Köldukinn í Suður-Þingeyjasýslu. Mikið var sungið á þeirra æskuheimili og út hafði komið sex laga plata með móður þeirra, Sigrúnu Jónsdóttur á Rangá, árið 1972, auk þess sem systkini þeirra bræðra sungu einnig í kórum sveitarinnar rétt eins og þeir sjálfir.

Þegar þeir Baldur og Baldvin fóru að koma fram opinberlega og syngja einsöng og tvísöng, ýmist með kórum eða á þorrablótum, árshátíðum, hestamannamótum og annars konar mannamótum og skemmtunum á heimaslóðum og víðar á Norðurlandi, kenndu þeir sig við heimabæinn og kölluðu sig Rangárbræður. Það var um miðjan áttunda áratuginn en það var árið 1978 sem hægt er að tala um að einhver alvara hafi verið að baki því.

Rangárbræður sungu með ýmsum kórum á þessum tíma, karlakórunum Hreimi, Goða og Þrymi og kirkjukórum Reykjahlíðar, Húsavíkur, Þóroddsstaðar og fleiri kórum, og einnig var söng þeirra að finna á plötum Goða og Hreims, Baldurs á plötu Aðalsteins Ísfjörð og Baldvins á plötu með lögum Kristjáns frá Gilhaga.

Svo kom að því að Rangárbræður gáfu sjálfir út plötu árið 1986, upptökur fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði og fékk platan ágætar viðtökur, reyndar svo ágætar að fyrsta upplagið seldist upp fljótlega svo annað upplag þurfti til. Platan fékk líka ágæta dóma í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum.

Á þessum tíma var Úlrik Ólason undirleikari þeirra bræðra en áður hafði Katrín Sigurðardóttir leikið með þeim. Eftir að Úlrik fluttist suður til Reykjavíkur átti Juliet Faulkner eftir að verða samstarfsmaður þeirra.

Þrátt fyrir að Rangárbræður hefðu komið margs sinnis fram opinberlega á hinum ýmsum skemmtunum, héldu þeir ekki sjálfstæða opinberlega tónleika sjálfir fyrr en árið 2002, fram að því höfðu þeir sungið sem skemmtiatriði á ýmsum samkomum ásamt öðrum söngvurum og skemmtikröftum.

Í seinni tíð hefur Baldur meira dregið sig í hlé sem söngmaður en Baldvin verið þeim meira áberandi. Hann hefur til að mynda gefið út tvær sólóplötur á síðustu árum.

Efni á plötum