Afmælisbörn 28. september 2015

Haffi Haff

Haffi Haff

Að þessu sinni eru tvö tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Haffi Haff (Hafsteinn Þór Guðjónsson) tónlistarmaður er þrjátíu og eins árs gamall á þessum degi. Haffi fæddist í Bandaríkjunum og hefur búið þar nánast alla sína ævi en kom til Íslands 2006 og hefur verið hérlendis með annan fótinn síðan. Fljótlega fór hann að vekja athygli fyrir tónlist sína, m.a. í undankeppni Eurovision en 2010 kom úr sólóplata hans, Freak.

Ragnar H. Ragnar kórstjóri og tónlistarfrömuður á Vestfjörðum hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann lést 1987. Ragnar fæddist 1898 og flutti ungur til Kanada og síðar Bandaríkjanna þar sem hann bjó og nam píanóleik, hljómfræði og fleira en hann stýrði kórum Íslendinga þar vestra. Um miðja síðustu öld fluttist hann aftur til Íslands og tók við nýstofnuðum tónlistarskóla á Ísafirði en auk þess gegndi hann lykilhlutverki í tónlistarlífinu á Vestfjörðum í framhaldinu, gerðist organisti og stjórnaði kórum þar s.s. Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar.