Demo (1979-81)

Demo

Upphafleg útgáfa Demo

Hljómsveitin Demo (Demó) var nokkuð áberandi á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins um það leyti sem pönk- og nýbylgjuæðið reið yfir, sveitin var þó á allt annarri línu en hún lék danstónlist með fusion ívafi.

Sveitin mun hafa verið stofnuð haustið 1979 en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hana við stofnun. Í ársbyrjun 1980 voru hins vegar Einar Jónsson gítarleikari, Ólafur Örn Þórðarson hljómborðleikari, Ólafur Árni Bjarnason söngvari, Sigurður Reynisson trommuleikari og Hávarður Tryggvason bassaleikari í henni.

Tíðar mannabreytingar einkenndu Demo og í lok ársins 1980 voru þeir Gunnar Jónsson píanóleikari, Lárus G. Brandsson hornleikari og Þorleifur Jónsson trompetleikari komnir í sveitina en Ólafur Örn hljómborðsleikari horfinn á braut.

1981 leysti Grétar Jóhannesson bassaleikari Hávarð af um tíma, en einnig bættist annar gítarleikari í Demo, Gylfi Már Hilmisson um mitt ár.

Demo starfaði líklega fram á haustið 1981 en svo virðist sem hún hafi þá hætt störfum.

Liðsmenn sveitarinnar áttu síðar eftir að poppa upp á ólíklegustu stöðum, Ólafur söngvari gerðist t.a.m. óperusöngvari en söng einnig í hljómsveitinni Trössunum um tíma, og einhverjir meðlima sveitarinnar störfuðu með Tívolí / Þrumuvagninum. Hávarður hefur í seinni tíð orðið kunnur kontrabassaleikari.