Hljómsveit/ir Karls Jónatanssonar (1943-2003)

Hljómsveit Karls Jónatanssonar 1947

Hljómsveit Karls Jónatansson 1947

Þegar talað er um Hljómsveit Karls Jónatanssonar má segja að um margar sveitir sé að ræða og frá ýmsum tímum, reyndar ganga þær einnig undir mismunandi nöfnum eins og Hljómsveit Karls Jónatanssonar, Kvintett Karls Jónatanssonar, Stórsveit Karls Jónatanssonar o.s.frv. en eiga það sammerkt að vera allar kenndar við hann.

Fyrsta útgáfa hljómsveitar Karls var starfrækt sumarið 1943 á Akureyri en Karl var þá einungis nítján ára gamall með hljómsveit sem starfaði á Hótel Norðurlandi en það var þá nýopnað. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu þessa fyrstu sveit Karls en þeir voru allir ungir að árum og var Karl sá eini þeirra er hélt áfram í tónlist. Hann lék sjálfur á harmonikku og saxófón í hljómsveitum sínum.

Karl var með aðra hljómsveit á Akureyri tveim árum síðar (sumarið 1945), meðlimir þeirrar sveitar auk hans voru Arnljótur Sigurðsson trommuleikari, Karl Adolfsson harmonikkuleikari og Hrönn Kristjánsdóttir píanóleikari en það var fremur sjaldgæft að konu störfuðu í danshljómsveitum á þeim tíma.

Haustið 1945 flutti Karl suður til Reykjavíkur og starfrækti hljómsveitir undir eigin nafni, með mislöngum hléum. Erfitt er þó að henda nákvæmlega reiður á hvernig hljómsveitarmálum var háttað í framhaldinu, sveitir Karls voru til að mynda afar misstórar og störfuðu stundum sem tríó, t.d. um tíma árið 1950 og kvintett 1954 og 1957, síðarnefnda árið var sveitin einnig auglýst sem kvartett og ári síðar var talað um níu manna sveit Karls. Og enn ári síðar (1959) var sveitin ýmist sextett eða tólf manna, þá lék hún reyndar undir í kabarett sýningu í Vetrargarðinum í tívolíinu í Vatnsmýrinni þar sem hún lék um árabil. Af þessu er ljóst að mannabreytingar og –skipan sveitanna verða hér ekki skráð nákvæmlega heldur einungis eftir því sem völ er á.

Hljómsveitir Karls Jónatanssonar virðast hafa starfað frá 1943 til 2003 en þó er ljóst að einhverjar eyður voru í starfseminni, t.d. á árunum 1950-54 og 1967-77 en einnig nokkur styttri hlé. Því er langt frá því að hægt sé að tala um samfleyta sögu sveitarinnar.

Fyrsta útgáfa sveitarinnar sunnanlands við stríðslok síðsumars 1945 hafði að geyma fimm meðlimi en þeir voru Karl á harmonikku, nafni hans Karl Adolfsson saxófón- og klarinettuleikari og Arnljótur Sigurðsson trommuleikari sem báðir höfðu starfað með Karli fyrir norðan, en aðrir í sveitinni voru þá Páll Ólafsson fiðlu- og bassaleikari og Jón Óskar skáld (Ásmundsson) sem lék á píanó. Þessi útgáfa sveitarinnar var að öllum líkindum fyrst hljómsveita til að spila í tívolíinu í Vatnsmýrinni en það opnaði sumarið 1946. Á þessum árum söng Guðrún Jakobsen eitthvað með hljómsveitinni, að minnsta kosti 1947.

Sem fyrr segir er óljóst um mannabreytingar í sveit Karls, Árni Ísleifs kom þó í sveitina í stað Jóns Óskars 1948 og Þorkell Jóhannesson trompetleikari kom inn í sveitina á þessum árum.

Fjölmargir söngvarar sungu með sveitinni en yfirleitt stóðu söngvarar utan við hljómsveitir á þessum tíma, Jóhanna Daníelsdóttir, Sigrún Jónsdóttir og Svavar Lárusson eru dæmi um söngvara sem störfuðu með Karli á þessum árum í kringum 1950 en undir það síðasta bjó hann og starfrækti sveitina í Keflavík. Þá voru einnig í hljómsveitinni Alfreð Haraldsson trommuleikari, Páll Ólafsson bassaleikari og Baldur Júlíusson harmonikkuleikari. Sveitin var tríó um einhvern tíma um þetta leyti.

Sveitin virðist ekki hafa verið starfandi á árunum 1950-54 en 1954 gaf hún út tveggja laga 78 snúninga plötu undir nafninu Harmonikku-kvintett Karls Jónatanssonar, hjá Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur. Í þeim kvintett voru auk Karls, Sigurður Alfonsson bassa- og gítarleikari, Sighvatur Sveinsson gítarleikari, Árni Scheving víbrafónleikari og Karl O. Karlsson trommuleikari. Þessi plata var síðan endurútgefin og aukin að efni í síðari útgáfum.

Hljómsveit Karls Jónatanssonar1958

Hljómsveit Karls Jónatansson 1958

1954 fór Hljómsveit Karls Jónatanssonar á fullt skrið á nýjan leik en Karl var þá fluttur á höfuðborgarsvæðið, óljóst er hverjir skipuðu sveitina þá en hún var þá fastráðin í Vetrargarðinum í Tívolíinu við Vatnsmýrina.

Meðal söngvara sem sungu með sveitinni á þessum árum voru Sigurður Ólafsson, Erla Bára [?], Skapti Ólafsson (hann gæti einnig hafa leikið á trommur í sveitinni), Lilly Björgvins, Birna Pétursdóttir, Ingibjörg Þorbergs, Rósa Sigurðardóttir og Einar Júlíusson frá Keflavík en hann var þá kornungur, aðeins þrettán ára gamall (1957).

Magnús Ingimarsson píanóleikari starfaði um tíma með sveitinni en 1958 var hún níu manna band í Vetrargarðinum, Höskuldur Þórhallsson trompetleikari, Guðmundur Finnbjörnsson saxófónleikari, Kristján Hjálmarsson saxófón- og klarinettuleikari, Sigurður Jónsson píanóleikari, Haukur Gíslason kontrabassaleikari (og söngvari), Gunnar Páll Ingólfsson gítarleikari (og söngvari), Ásgeir Egilsson saxófón- og klarinettuleikari og Sigvaldi Þorgilsson trommuleikari (sem síðar starfrækti Dansskóla Sigvalda). Margrét Ólafsdóttir söng þá með sveitinni.

Ári síðar (1959) var sveit Karls enn fjölmennari, skipuð tólf manns á kabarettsýningu í Vetrargarðinum og því svokölluð stórsveit, það sama ár var hún einnig sextett svo augljóslega gat hún verið æði misjöfn að stærð.

Um og eftir 1960 virðist sveitin ekki vera eins áberandi í skemmtanalífinu, söngvarar með sveitinni á þeim árum voru til að mynda Haukur Eiríksson og Anna María Jóhannsdóttir en einu hljóðfæraleikararnir sem nafngreindir eru í fjölmiðlum á þessum árum eru Þórarinn Óskarsson básúnuleikari en hann var í sveitinni 1962, og Jón Sigurðsson (bankamaður) en ekki liggur fyrir hvenær hann var í sveit Karls frekar en Davíð Guðbjartsson píanóleikari.

Hljómsveit Karls Jónatanssonar virðist hafa verið starfandi í einhverri mynd til ársins 1967 en undir það síðasta er um að ræða fimmtán manna stórsveit á vegum tónlistarklúbbsins Léttra tóna sem Karl stofnaði einmitt um þetta leyti. Síðar starfrækti hann hljómsveit undir því sama nafni.

Ekkert spyrst til hljómsveitar Karls næstu árin enda flutti hann til Danmerku 1967 þar sem hann veitti tónlistarskóla forstöðu í nokkur ár, þegar hann kom aftur heim til Íslands flutti hann norður til Raufarhafnar og var þar skólastjóri tónlistarskólans á staðnum, og er það því ekki fyrr en hann fluttist til Akureyrar að hljómsveit í hans nafni tók aftur til starfa. Það var á kabarettsýningu á Akureyri 1981. Í þeirri sveit voru auk Karls, Sigvaldi Þorgilsson trommuleikari, Eiríkur Rósberg trompetleikari, Gunnar H. Jónsson gítar-, saxófón- og fiðluleikari, Haukur Sigurðsson saxófónleikari, Bjarni Ólafsson saxófón-, flautu og gítarleikari, Hannes Arason saxófón-, túbu- og bassaleikari og Einar Guðmundsson bassa- og harmonikkuleikari. Söngvari þeirrar sveitar var Ragnar Einarsson.

Hljómsveit Karls Jónatanssonar 1989

Hljómsveit Karls Jónatanssonar 1989

1982 kom út tveggja laga plata með Karlakór Akureyrar og Hljómsveit Karls Jónatanssonar, þar var sveitin skipuð þeim Karli, Eiríki, Hannesi, Gunnari og Sigvalda en einnig voru í henni Atli Guðlaugsson trompetleikari, Gréta Baldursdóttir fiðluleikari, Ólöf Jónsdóttir fiðluleikari, Paula Parker fiðlu- og rafpíanóleikari, Margrét Sverrisdóttir lágfiðluleikari, Roar Kvam hornleikari, Þorsteinn Kjartansson saxófónleikari og Jónatan Karlsson trommuleikari en sá síðast taldi er sonur Karls. Ekki liggur fyrir hvort allur mannskapurinn var hluti af hljómsveitinni eða til kallaðir hljóðfæraleikarar sérstaklega fyrir upptökurnar. Lög plötunnar komu síðar út á sólóplötu Karls, auk laganna sem áður höfðu komið út með sveitinni.

Næstu árin virðist sem svo að Karl hafi kallað saman menn í hljómsveit með reglulegu millibili, 1984 flutti hann aftur suður til Reykjavíkur en hljómsveitir undir hans nafni skutu upp kollinum 1983 og svo aftur 1988-90.

Í blaðagrein í DV sagði frá því að fimmtán manna sveit Karls með Mjöll Hólm í sönghlutverkinu hefði leikið á afar fámennum dansleik á Hótel Selfossi vorið 1989, ballgestir voru einungis átta og því væri þetta líklega stærsta hljómsveit sem hefði spilað fyrir fæsta á Íslandi, því væri þarna um einhvers konar met að ræða. Þrátt fyrir eindregnar óskir ballgesta var ballinu ekki framlengt.

Sveitin virðist hafa verið starfandi 1993 og 96 og var þá Kristbjörg Löve söngkona hennar, engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi hennar.

Eitthvað virðist Hljómsveit Karls Jónatanssonar starfa stopult eftir 1996, þó er sveit með því nafni með efni á safnplötunni Harmonikuhátíð Reykjavíkur 2003, þá voru í sveitinni með Karli, Jóna Einarsdóttir, Sveinn Rúnar Björnsson og Örn Arason, öll harmonikkuleikarar.

Ekki liggja fyrir heimildir um að Hljómsveit Karls Jónatanssonar hafi starfað eftir 2003 og því liggur beinast við að skrá endalok sveitarinnar við það ártal.

Þrátt fyrir að augljóslega sé um margar hljómsveitir að ræða, má til gamans geta að miðað við upptalninguna hér að ofan hafa á sjöunda tug hljóðfæraleikara og söngvara komið við sögu hljómsveita sem bera nafn Karls Jónatanssonar, og þá er jafn ljóst að miklu fleiri vantar í þessa upptalningu.

Aðrar hljómsveitir Karls (sem ekki eru kenndar við hann) fá sérumfjöllun.

Efni á plötum