Jóhann Gestsson (1934-98)

Jóhann Gestsson

Jóhann Gestsson

Söngvarinn Jóhann Ásberg Gestsson (fæddur 1934) var einn af fjölmörgum söngvurum sem kom fram um það leyti sem rokkið var að hefja innreið sína, hann hefði án efa orðið mun þekktari ef hann hefði ekki flutt úr landi og starfað erlendis.

Nafn Jóhanns birtist fyrst í tengslum við söng vorið 1954 en hann var þá rétt að verða tvítugur. Hann söng þá með Hljómsveit Svavars Gests og stuttu síðar með Hljómsveit Gunnars Ormslev. Það sama sumar var hann kynntur sem negrasöngvarinn Jóhann Gestsson en þá makaði hann sig í skósvertu og söng lög í gervi Als Jolson sem lék aðalhlutverkið í The Jazz singer, fyrstu talmyndinni í fullri lengd. Jóhann varð þekktastur fyrir það framlag sitt en Vetrargarðurinn í tívolíinu í Vatnsmýrinni var aðalvettvangur hans á því sviði.

Jóhann söng í tívolíinu fram á haust en hvarf þá af landinu og næst spurðist til hans hérlendis vorið 1959. Þá hafði hann alið manninn í Bretlandi og hafði m.a. lagt stund á söngnám í London. Í kjölfarið söng hann töluvert hér heima, aðallega með Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar og Stratos kvartettnum.

Um haustið 1960 fór Jóhann aftur á vit ævintýra erlendis og nú var ferðinni heitið til Noregs og söng hann þar m.a. með Hljómsveit Kjell Karlsen en sú hljómsveit lék einmitt um þetta leyti á nokkrum plötum íslenskra söngvara s.s. Guðbergs Auðunssonar og Sigrúnar Jónsdóttur en sú síðarnefnda söng einnig með sveitinni á þeim tíma sem Jóhann var með henni.

Næsta vor (1961) kom Jóhann aftur heim og söng um sumarið með Hljómsveit Kristjáns Magnússonar og Taboo kvintettnum en eftir það fluttist hann til Bandaríkjanna þar sem hann bjó og starfaði það sem eftir var, fyrir utan að hann kom í stutta heimsókn til Íslands 1967 og söng þá með Hljómsveit Hauks Morthens.

Jóhann starfaði þó ekki sem söngvari í Bandaríkjunum nema að litlu leyti, hann bjó bæði á vestur- og austurströndinni og reyndi fyrir sér framan af í sönglistinni, söng þá m.a. á skemmtistöðum og fínni hótelum en mestmegnis starfaði hann sem hárskeri vestanhafs en hann hafði menntað sig í iðngreininni hér heima.

Jóhann sem iðulega gekk undir nafninu Bobbi þegar hann starfaði í Bandaríkjunum, lést 1998 þar í landi. Ekkert bendir til að hann hafi sungið inn á plötu/r erlendis þann tíma sem hann bjó þar.