Þorsteinn Eiríksson (1927-2004)

Þorsteinn Eiríksson (Steini Krúpa)

Trommuleikarinn Þorsteinn Eiríksson var einn af fyrstu djasstrommuleikurum Íslands og lék með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum samtímans um miðja síðustu öld.

Þorsteinn fæddist 1927 á Bakkafirði og ólst þar upp fyrstu árin áður en hann fluttist suður til Reykjavíkur. Hann fiktaði eitthvað við önnur hljóðfæri sem unglingur áður en trommurnar tóku hug hans allan. Fljótlega fékk hann viðurnefnið Steini Krúpa (Krupa) en hann þótti hafa svipaðan spilastíl og trommuleikarinn Gene Krupa sem þá var ásamt Buddy Rich fyrirmynd flestra trommuleikara en trommuleikur var þá að verða smám saman almennari í léttari tónlist.

Þorsteinn hóf að spila á trommur um fimmtán ára aldur og varð fljótlega meðal þeirra fremstu, fyrsta sveitin sem hann lék með var á skemmtistaðnum Röðli en hann var síðan miklu víðar með hljómsveitum Steinþórs Steingrímssonar, Árna Ísleifs, Jan Morávek, Braga Hlíðberg, Jónatans Ólafssonar, Jónasar Dagbjartssonar og Axels Kristjánssonar svo dæmi séu tekin en starfrækti einnig sjálfur sveit um tíma. Hann lék mestmegnis á skemmtistöðum bæjarins fram til 1964 en eftir það tóku við harmonikkubönd með árshátíðum, þorrablótum og þess konar samkomum, þá starfrækti Þorsteinn band undir eigin nafni til 1969 en eftir það hætti hann spilamennsku og hóf að starfa við bílasprautun, fram að því hafði tónlistin verið hans aðalstarf.

Tíminn leið og Þorsteinn kom ekkert nálægt tónlist fyrr en árið 1988 og þá hófst síðara tímabilið í tónlistinni hjá honum. Hann lék með ýmsum böndum næstu árin, slagverkstríóið Slagbítar, Krúpatríóið, Kvartett Ómars Axelssonar, Kombó Ellenar Kristjánsdóttur og Sveiflukvartettinn eru dæmi um sveitir sem hann spilaði með en hann lék á trommurnar nánast fram í andlátið, Þorsteinn lést vorið 2004 og voru haldnir tónleikar í minningu hans.

Nokkuð er til af upptökum með trommuleik Þorsteins frá ýmsum tímum. Hann lék m.a. á plötu Kvartetts Ómars Axelssonar (1996) en á fyrra „skeiðinu“ lék hann inn á nokkrar plötur, þar af nokkrar sem hafa að geyma þekkt lög.  Hann lék t.a.m. með hljómsveitum Jan Morávek og Árna Ísleifs á plötum með Ingibjörgu Þorbergs og Marz bræðrum (1955), Jóhanni Möller og Tónasystrum (1955), Soffíu Karls og Tígulkvartettnum  (1952), Alfreð Clausen og Sigrúnu Ragnarsdóttur (1962) og SAS tríóinu (1959) svo dæmi séu nefnd.