Þorvaldur Steingrímsson (1918-2009)

Þorvaldur Steingrímsson

Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari var mikilvirtur hljóðfæraleikari sem var bæði fjölhæfur og mikill fagmaður en hann kom nálægt flestum stóru hljómsveitum landsins í þeirri grósku sem átti sér stað í kringum miðja síðustu öld.

Þorvaldur fæddist á Akureyri 1918 og bjó þar framan af unglingsaldri en þá fór hann suður til Reykjavíkur og lærði þar á fiðlu, m.a. hjá Þórarni Guðmundssyni sem yfirleitt er talinn fyrsti fiðluleikari Íslands, Karl O. Runólfsson var einnig meðal kennara hans. Sagan segir að Þorvaldur hafi fyrst heyrt Björn Ólafsson leika á fiðlu og hafi þá einsett sér að læra sjálfur á hljóðfærið en hann fékk síðan fiðlu í jólagjöf og þá hafi boltinn byrjað að rúlla.

Þorvaldur lauk fullnaðarprófi í fiðluleik hér heima 1937 og stundaði í kjölfarið framhaldsnám í London. Hann keypti sér síðan saxófón og kenndi sér sjálfur á hann en naut síðan leiðsagnar Sveins Ólafssonar á hljóðfærið, einnig lærði hann á klarinett upp á eigin spýtur.

Þorvaldur lék með ýmsum hljómsveitum sem spiluðu bæði léttari og „æðri“ tónlist. Meðal léttari sveita má nefna hljómsveitir Bjarna Böðvarssonar, Poul Dalman, Poul Bernburg, Aage Lorange, Árna Björnssonar og Karls O. Runólfssonar, auk þess að starfrækja sveit undir eigin nafni. Þá lék hann með Hljómsveit Akureyrar á yngri árum, Hljómsveit Reykjavíkur, Kvartett Tónlistarskólans í Reykjavík, kvartettnum Fjarkanum, Lúðrasveit Reykjavíkur, Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands frá formlegri stofnun hennar 1950 en einnig forverum hennar, Symfóníuhljómsveit FÍH og Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur. Þá var hann aðstoðar-konsertmeistari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og konsertmeistari við Þjóðleikhúsið síðar. Þá er ógetið ýmissa hljómsveita sem Þorvaldur lék með í Bandaríkjunum en þar bjó hann um nokkurra ára skeið, fyrst á fyrri hluta sjöunda áratugarins og svo aftur í upphafi níunda áratugarins.

Þorvaldur með klarinettuna

Þorvaldur fékkst við tónlistarkennslu um árabil, m.a. við Tónlistarskólann í Reykjavík en einnig í Kópavogi og Hafnarfirði en hann var um tíma skólastjóri Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hann átti ennfremur þátt í stofnun Tónlistarskóla FÍH og var fyrstur skólastjóra þar.

Hann var aukinheldur öflugur í félagsstörfum tónlistarmanna, var m.a. formaður FÍH um tíma og gegndi ýmsum störfum og embættum innan félagsins, Þorvaldur gegndi ennfremur stöðu formanns Lúðrasveitar Reykjavíkur og var formaður Félags íslenskra tónlistarskólastjóra. Hann var heiðraður 1976 af FÍH fyrir störf sín.

Þorvaldur lék með Lúðrasveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands inn á nokkrar plötur en einnig má heyra leik hans á plötum hljómsveita og listamanna eins og Vilhjálms Vilhjálmssonar, Spilverks þjóðanna, Svanhildar Jakobsdóttur, Randvers, Silfurkórsins, Mannakorna, Árna Johnsen, Áhafnarinnar á Halastjörnunni og Guðmundar Jónssonar svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þorvaldur Steingrímsson lést árið 2009, þá ríflega níræður að aldri. Þess má geta að hann er tengdur fjöldanum öllum af þekktu tónlistarfólki og reyndar listafólki, hann var þannig náskyldur Gunnari og Birni Thoroddsen, var mágur Árna Kristjánssonar tónskálds, tengdafaðir Lárusar Sveinssonar sem var giftur dóttur Þorvaldar, leikkonunni Sigríði Þorvaldsdóttur og eru dætur þeirra, Þórunn, Dísella og Ingibjörg því barnabörn Þorvaldar. Þá var Matthías Jochumsson skáld afi Þorvaldar.