Óðinn Valdimarsson (1937-2001)

Óðinn Valdimarsson

Nafn Óðins Valdimarssonar hefur á allra síðustu árum tengst laginu Er völlur grær (Ég er kominn heim) en þessi magnaði söngvari söng mun fleiri lög sem náðu miklum vinsældum og segja má að flest það sem hann kom nálægt á yngri árum hafi orðið sígilt og heyrist reglulega á öldum ljósvakans. Ævi Óðins var hins vegar þyrnum stráð og alkóhólismi dró hann að lokum til dauða.

Óðinn (iðulega kallaður Ódi) skilgreindi sig alltaf sem Akureyring en hann fæddist þar í bæ snemma árs 1937. Það benti ekkert til á yngri árum að hann yrði þekktur söngvari, hann hafði að vísu verið í kór Barnaskóla Akureyrar, en það var síðan um það leyti sem hann varð sautján ára gamall að hann kom fram og söng opinberlega fyrir hálfgerða tilviljun en þá komu nokkrir ungir og efnilegir söngvarar fram með Hljómsveit Karls Adolfssonar á Hótel Norðurlandi og var Óðinn meðal þeirra.

Hann fór að læra prentiðn og var í einhverjum hljómsveitum samhliða því, t.d. var hann trommuleikari, og síðan söngvari, í Rúbín kvartett veturinn 1957-58. Eitthvað söng Óðinn einnig með Karlakórnum Geysi norðan heiða.

Það var síðan um sumarið 1958 að Atlantic kvartettinn tók til starfa á Akureyri og fljótlega gekk Óðinn til liðs við sveitina en hann varð söngvari þar ásamt Helenu Eyjólfsdóttur, sveitin var reyndar stundum nefnd Hljómsveit Ingimars Eydal (en hann var hljómsveitarstjóri) en sú sveit kom síðar til sögunnar.

Þarna hófst hið eiginlega blómaskeið Óðins sem söngvari því á næstu þremur árum komu út fjöldinn allur af plötum sem flestar innihéldu vinsæla slagara og gerðu hann að einum vinsælasta söngvara landsins. En um leið hófst það sem kalla mætti upphafið að endalokunum því samhliða skyndilegri athygli og landsfrægð sem Óðinn fékk missti hann tök á drykkju sinni.

Fyrsta útgáfan kom út á þessum gullaldarárum rokksins, árið 1958 og var fjögurra laga 45 snúninga plata (sem þá höfðu nokkru fyrr tekið við af 78 snúninga plötunum) þar sem þau Óðinn og Helena skiptu með sér lögunum við undirleik Atlantic kvartettsins. Platan vakti ekki neina sérstaka athygli en næsta plata gerði það hins vegar svo um munaði. Hún kom út haustið 1959 og á henni var að finna tvö lög, Ég skemmti mér og Segðu nei, og naut sérstaklega fyrra lagið mikilla vinsælda og þau Óðinn og Helena urðu landsfræg fyrir vikið. Þess má geta að Guðrún Gunnarsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson endurgerðu lagið löngu síðar.

Óðinn árið 1960

Og áður en árið 1959 var úti höfðu tvær plötur til viðbótar komið út á vegum Íslenzkra tóna, sem einnig höfðu gefið út hinar plöturnar tvær. Plöturnar innihéldu alls átta lög og höfðu eingöngu að geyma lög sem Óðinn söng, aðrar plötur voru gefnar út með Helenu einni. Meðal laganna átta voru hin klassísku lög Útlaginn (Upp undir Eiríksjökli), Magga, Einsi kaldi úr Eyjunum og síðast en ekki síst Í litlum dal, sem margir reyndar muna eftir í flutningi Ladda í hlutverki Saxa læknis undir titlinum Ég er í svaka stuði. Á annarri plötu hafði Laddi reyndar einnig sungið lagið Upp undir Eiríksjökli ásamt Halla bróður sínum undir lagaheitinu Upp undir Laugarásnum.

Það má því segja að flest allt sem Óðinn kom nálægt hafi orðið að gulli, hann varð nú orðinn einn þekktasti söngvari landsins en höndlaði illa áfengi með allri athyglinni og ekki hjálpaði heldur til að hann hafði miklar tekjur og lifði hátt á Akureyri. Það var eðlilegt að hugur Óðins stefndi suður og þegar honum bauðst haustið 1959 að syngja með KK-sextettnum undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar sló hann samstundis til, þar tók hann við af Guðbergi Auðunssyni sem var að hætta.

Óðinn söng í eitt ár með KK-sextett og á þeim tíma gaf hann út tvær tveggja laga plötur, með þeim má segja að hápunkti frægðar hans hafi verið náð með lögunum Í kjallaranum og Er völlur grær (Ég er kominn heim) en bæði lögin hafa löngu öðlast sess meðal klassíkera í íslenskri dægurlagasögu. Reyndar hefur síðar nefnda lagið, sem ku vera ungverskt að uppruna, vaxið í vinsældum á síðari árum, fyrst með öðrum söngvurum sem reyndar hafa gert því misgóð skil, en síðan í tengslum við íslenska landsliðið í knattspyrnu þar sem lagið hefur verið notað til að skapa stemmingu meðal áhorfenda á landsleikjum. Svo öflugt hefur lagið reynst (í útgáfu Óðins að sjálfsögðu) að segja má að þjóðin hafi sameinast í söng og hinu svokallaða víkingaklappi, sem náði hámarki á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016. Víst er að fleiri en nokkru sinni fyrr þekkja lag og texta betur en nokkru sinni og margir hafa viljað kalla lagið hinn nýja íslenska þjóðsöng.

Þó Óðinn hafi þarna verið á hátindi söngferils síns var einkalífið ekki með eins glæsilegum hætti þar sem hann var smám saman að missa stjórn á drykkju sinni. Hann hætti í KK-sextettnum haustið 1960 og tók Þorsteinn Eggertsson sæti hans, Óðinn fór sjálfur að syngja með Hljómsveit Karls Lilliendahl á skemmtistaðnum Lídó. Þar var hann um veturinn en hætti vorið 1961, flutti þá aftur norður á heimaslóðir á Akureyri og hóf að syngja aftur um haustið með Atlantic kvartettnum sem reyndar um þetta leyti var að breyta nafni sínu í Hljómsveit Finns Eydal, Finnur var þá að taka við stjórn hljómsveitarinnar af Ingimari bróður sínum sem var að hætta í sveitinni.

Óðinn Valdimarsson

Óðinn var ekki lengi í sveitinni í þetta skipti en á þeim tíma náði hann samt sem áður að syngja inn á eina plötu með henni, fjögurra laga plötu þar sem þau Helena Eyjólfsdóttir sungu lög úr söngleiknum Allra meina bót eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni.

Hann stofnaði nú eigin sveit, Hljómsveit Óðins Valdimarssonar, og starfaði sú sveit líklega fram á vorið 1962 en síðar segir lítið af ferðum söngvarans fyrr en um ári síðar er hann var farinn að syngja með Hljómsveit Ingimars Eydal.

Á þeim tíma hallaði enn undan fæti hjá Óðni og hann var látinn fara vorið 1964, hann fór þá aftur suður til Reykjavíkur hvar hann söng með Hljómsveit Guðjóns Pálssonar á Hótel Borg fram á sumarið 1966, um það leyti kom hann við sögu á plötu sem bar yfirskriftina Úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins en á þeirri plötu var að finna lög sem kepptu til úrslita í sönglagakeppni sem fram fór í útvarpsþættinum Á góðri stundu. Þetta varð síðasta lagið sem hann söng inn á plötu í bili en þá urðu þau tímamót í lífi hans að hann hætti að syngja. Í blaðaviðtali síðar sagðist hann hafa tengt drykkju sína beint við söngstarfið og félagsskapinn tengdan honum, og því hefði lausnin verið að hætta að syngja.

Óðinn fluttist frá Íslandi, söng reyndar um átta mánaða skeið á norska skemmtiferðaskipinu Oslofjord, bæði með norskum kvartett og eins sænsku tríói, en eftir að hann hætti öllum söng starfaði hann sem kokkur á flutninga- og olíuskipum um heim allan með búsetu í Noregi.

Segja má að þannig hafi þessi vinsæli söngvari horfið skyndilega og sporlaust, og gleymst þótt lögin lifðu að sjálfsögðu góðu lífi í óskalagaþáttum útvarps allra landsmanna, Ríkisútvarpinu.

Óðinn í sjónvarpssal 1973

Nokkur ár liðu án þess að nokkuð spyrðist opinberlega til Óðins en það var svo vorið 1973 sem hann birtist skyndilega í sjónvarpsþætti og söng þar lagið Á Akureyri sem skömmu síðar kom út á tveggja laga plötu við undirleik hljómsveitarinnar Svanfríðar og Rúnars Georgssonar saxófónleikara. Í Svanfríði var m.a. Pétur Kristjánsson sonur Kristjáns Kristjánssonar forsprakka KK-sextettsins sem Óðinn hafði sungið með á árum áður. Platan fékk ágætar viðtökur (góða dóma t.d. í Alþýðublaðinu) og Akureyrarlagið varð nokkuð vinsælt, minna fór fyrir hinu laginu (Einn ég hugsa) sem ungur Siglfirðingur, Gylfi Ægisson, samdi.

Óðinn var þar með kominn heim eftir sjö ára útlegð en var fremur hart leikinn af drykkju. Hann varð aldrei jafn stórt nafn í íslenskri dægurlagasögu og hann hafði verið áður en fékkst þó nokkuð við söng. Tvö lög komu út með honum á safnplötunni Eitt með öðru en þar lék Hljómsveit Ingimars Eydal með honum.

Líklega söng Óðinn einnig um tíma með BG flokknum á Ísafirði en bjó þó á höfuðborgarsvæðinu, og fékkst við ýmis störf s.s. pípulagnir og prentiðnina.

Hann fór síðan norður til Akureyrar og tók þar upp breiðskífa í upphafi árs 1978, sem kom út undir merkjum Tónaútgáfunnar og fékk titilinn Blátt oní blátt. Lögin voru öll gamlir erlendir slagarar en við íslenska texta, flesta eftir Birgi Marinósson. Fyrrum félagar hans úr Hljómsveit Ingimars Eydal voru honum innan handar við hljóðfæraleik og útsetningar.

Lítið fór fyrir Óðni eftir útgáfu plötunnar og smám saman fjaraði undan söngferli hans, hann kom fram í opinskáu viðtali 1984 og ræddi þar um alkóhólismann en það var í fyrsta skipti sem hann talaði opinberlega um vandamálið. Hann söng með hljómsveitinni Ljósbrá um það leyti og hafði áður tekið þátt í tónlistarsýningum á veitingahúsinu Broadway en kom að öðru leyti lítið fram opinberlega næstu árin. Hann vakti þó nokkra athygli þegar hann söng á tónleikum árið 1995 til styrktar barnabarni sínu sem var með hjartasjúkdóm og barðist fyrir lífi sínu.

Óðinn við kynningu á plötu sinni Blátt oní blátt

Það var svo sumarið 2001 sem Óðinn lést, hann hafði fengið krabbamein í hálsinn sem að lokum varð til að hann missti röddina og þá gafst hann endanlega upp, drakk sig í hel.

Fáir munu hafa fylgt Óðni til grafar og hann hafði drukkið frá sér allt og alla en hann fékk síðar þá virðingu sem hann átti skilið, í formi minningartónleika og útgáfu ferilssafnplötunnar Er völlur grær, og nafn hans hefur á síðustu árum aftur hlotið sess meðal þeirra bestu í kjölfar stemmingarinnar sem hefur myndast í tengslum við lagið sem flestir kalla Ég er kominn heim.

Eftirmælin um  Óðin eru undantekningalaust jákvæð, talað er um hann sem góðan, brosmildan og kátan söngvara með afburða skýran textaframburð sem hafði þann djöful að draga að þurfa að kljást við þann illvíga sjúkdóm sem alkóhólismi er, og tapa fyrir honum að lokum.

Óðinn myndi miklu fremur teljast dægurlagasöngvari en rokksöngvari  þótt hann hafi verið öflugastur á þeim tíma sem rokkið var að berast hingað til lands, en hann hafði bjarta og góða rödd sem höfðaði til flestra kynslóða og það er e.t.v. þess vegna sem lögin hans hafa elst og lifað svo góðu lífi.

Eins og gefur að skilja hafa mörg laga Óðins ratað inn á safnplötur í gegnum tíðina, hér eru nokkrar þeirra nefndar: 100 bestu lög…-serían, Í sól og sumaryl (1995), Manstu gamla daga (2007), Óskalög sjómanna (2007), Lög Jóns Múla Árnasonar (1993), Óskalögin 2 (1998), Stóra bílakassettan-serían, Melónur og vínber fín (1998), Svona var…-serían, Rokklokkar (1995), KK sextettinn: gullárin (1984), Strákarnir okkar (1994), Óskalögin (1997), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977), Óskastundin 2 (2003), Perlur Gylfa Ægissonar í flutningi landsþekktra tónlistarmanna (2008), Aftur til fortíðar-serían og Það gefur á bátinn (1981).

Efni á plötum