Ólafur Magnússon frá Mosfelli (1910-91)

Ólafur Magnússon frá Mosfelli

Ólafur Magnússon var kunnur söngvari ættaður úr Mosfellsdalnum en hann var orðinn sjötíu og fimm ára gamall þegar hann gaf loks út plötu.

Ólafur fæddist á nýársdag 1910 að Mosfelli í Mosfellsdal, ólst þar upp og kenndi sig ávallt við þann stað. Hann var menntaður búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri en nam söng hjá Sigurði Birkis söngmálastjóra og síðar einnig hjá Gunnari Pálssyni, Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara og Victor Urbancic.

Hann hóf að syngja með Karlakór Reykjavíkur 1934 og söng samfleytt með honum nánast til æviloka, síðast með eldri kórfélögum. Hann söng margsinnis einsöng í útvarpssal sem og á tónleikum en hann hélt þó ekki sjálfstæða einsöngstónleika fyrr en á sjötugasta og sjötta aldursári þegar hann hafði gefið út plötuna Ég lít í anda liðna tíð en hana gaf Örn og Örlygur út 1985. Sú plata var hljóðrituð af Halldóri Víkingssyni í Hlégarði í Mosfellssveit og hlaut hún góða dóma í Morgunblaðinu og DV, platan hafði að geyma tuttugu og þrjú einsöngslög, íslensk og erlend, úr ýmsum áttum og annaðist Jónas Ingimundarson undirleik á píanó.

Ólafur hafði á þeim tíma flust aftur upp í Mosfellssveit, eftir að hafa búið og starfað í Reykjavík í áratugi, fyrst við verslunarstörf og bústörf (í Viðey) en lengst af sem húsvörður við Heilsuverndarstöðina í Reykjavík.

Ólafur sem var baritón og bassi, söng einnig með Kór Tónlistarfélagsins og síðar karlakórnum Stefni í Mosfellssveit en söng ennfremur nokkur einsöngshlutverk í óperum og óratoríum, hann kom aukinheldur oft fram sem einsöngvari á hvers kyns skemmtunum og vel þekktur var hann í hlutverki jólasveina á barnaskemmtunum hér áður sem og sem álfakonungur á áramóta- og þrettándabrennum. Söng og leik hans má heyra á jólaplötunum Jólaljós (1982) og Jólin hennar ömmu (1969).

Ólafur lést snemma árs 1991 á áttugasta og öðru aldursári.

Efni á plötum