Tony Cook (1954-)

Tony Cook

Tony Cook starfaði við upptökur í hljóðverum á Íslandi í um áratug, frá 1975 og fram á miðjan níunda áratuginn, handbragð hans má heyra á hundruð platna sem komu út hér á landi á því tímabili.

Bretinn Tony (Anthony Malcolm Cook) fæddist 1954 og bjó framan af í London. Hann hlaut litla tónlistarmenntun, lærði reyndar lítillega á píanó en það var í raun eina tenging hans við tónlist þegar hann hóf að vinna hjá Polydor útgáfufyrirtækinu við hljóðritun, átján ára gamall.

Þegar honum bauðst starf á Íslandi vorið 1975 sló hann til og hóf að taka upp í Hljóðrita í Hafnarfirði sem þá var tiltölulega nýlega tekinn til starfa, og hann tók þátt í þróun og stækkun hljóðversins sem þá stóð fyrir dyrum. Tony var hér minna og minna fram á miðjan níunda áratuginn og kom að upptökum á hundruðum platna enda varð hann fljótlega kunnur fyrir vönduð vinnubrögð. Um var að ræða upptökur, upptökustjórnun, hljóðritun og annað sem fylgir slíkum störfum í hljóðveri en einnig hljóðblöndun á lifandi tónlist á tónleikum. Margir þeirra er síðar störfuðu við hljóðritun nutu leiðsagnar Tony og voru sem lærlingar hjá honum.

Margar af þeim plötum sem Tony Cook kom að voru meðal vinsælustu og söluhæstu platna íslenskrar tónlistarsögu, og meðal annarra má þar nefna plötur með Megasi, Mannakornum, Björgvini Gíslasyni, Tappa Tíkarrass, Axeli Einarssyni, Björgvini Halldórssyni, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Björk, Hauki Morthens, Kukl og Áhöfninni á Halastjörnunni.

Tony Cook býr í Bretlandi og starfar ennþá við upptökur.