Tónalín [annað] (1952)

Tónalín – úr Tímanum

Snemma á sjötta áratug síðustu aldar var gerð tilraun hér á landi til að smíða harmonikku, af fjöldaframleiðslu varð þó aldrei.

Það var Jóhannes G. Jóhannesson harmonikkuleikari og hljóðfæraviðgerðamaður sem átti hugmyndina af því að smíða harmonikku sem átti að vera á milli þess að vera hnappa- og píanóharmonikka en slíkt hefði þá verið nýjung. Hann fékk við smíðina til liðs við sig bræðurna Sigurð H. og Jón Þórðarsyni sem störfuðu hjá plastverksmiðjunni Plastik hf. og Færeyinginn Guðmund Hansen en þeir höfðu allir leikið á nikkur einnig.

Harmonikkan hlaut nafnið Tónalín og var að mestu smíðuð úr plasti sem var óvenjulegt en sérstæði nikkunnar var einkum takkaborðið, innvolsið var fengið erlendis frá og var líklega ástæða þess að aldrei var farið í framleiðslu á hljóðfærinu en tollar voru þá mjög háir á slíkt. Tónalín vakti nokkra athygli á iðnsýningu sem haldin var í Iðnskólanum á Skólavörðuholti haustið 1952.

Jóhannes G. Jóhannesson með Tónalín harmonikkuna

Þeir félagar byrjuðu einnig á smíði annarrar nikku, með hnappaborði, en luku þeirri smíði aldrei þótt hægt væri að leika á hana, sú hlaut nafnið Tónalín 2. Einnig stóð til að smíða píanónikku en fjórmenningarnir komust aldrei svo langt.

Norski harmonikkuleikarinn Torald Tollefsen, sem kom hingað til lands og hélt hér tónleika auk þess að gefa út plötur hérlendis, pantaði hnappanikku hjá þeim félögum en sem fyrr segir varð aldrei úr fjöldaframleiðslu og því fékk hann aldrei pöntun sína afgreidda. Nikkurnar tvær eru enn varðveittar.