Tímaritið Tónamál kom út um árabil, reyndar óreglulega en alls komu út nítján tölublöð af blaðinu frá árinu 1970, síðasta tölublaðið kom að öllum líkindum út 1998.
Það var Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) sem stóð fyrir útgáfu tímaritsins en nafn þess (Tónamál) mun hafa komið frá Ólafi Gauki Þórhallssyni. Framan af (til ársins 1975) var ritnefnd sem annaðist blaðið, skipuð áðurnefndum Ólafi Gauki en auk þess Gunnari Ingólfssyni, Hirti Blöndal, Magnúsi Ingimarssyni, Skafta Sigþórssyni, Gunnari Egilson, Braga Einarssyni og Hrafni Pálssyni en síðar var það formaður FÍH sem var ábyrgðarmaður, fyrst Sverrir Garðarsson og síðan Björn Th. Árnason. Hrafn Pálsson var þó iðulega skammt undan og kom mikið að Tónamálum.
Tónamál voru fyrst og fremst tengd stétta- og baráttumálum FÍH, en hafði einnig að geyma fréttir og tónlistartengdar greinar.