Tríó Finns Eydal (1962-63)

Tríó Finns Eydal og Helena Eyjólfsdóttir

Finnur Eydal starfrækti nokkrar hljómsveitir á sínum tíma og um tíma var hann með tríó sem starfaði á höfuðborgarsvæðinu.

Tríó Finns Eydal var stofnað haustið 1962 og voru meðlimir þess í upphafi auk hans sjálfs þeir Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari og Edwin Kaaber gítarleikari. Þessi útgáfa lék í Leikhúskjallaranum um veturinn og haustið eftir (1963) var tríóið húshljómsveit á Hótel Borg, þá voru í henni Finnur og Gunnar en Gunnar Guðjónsson gítar- og bassaleikari hafði þá tekið við af Edwin. Helena Eyjólfsdóttir var söngkona tríósins.

Tríó Finns Eydal starfaði fram að áramótum 1963-64.