Tríó Jan Morávek (1951-55)

Jan Morávek var mikilsvirtur tónlistarmaður sem starfaði hér á landi frá 1948 til andláts 1970. Hann starfrækti margar hljómsveitir sem flestar voru skammtíma verkefni, léku inn á plötur eða á skemmtunum hvers kyns. Tríó kennt við hann var ein þeirra en að öllum líkindum var ekki um að ræða fasta skipan meðlima hennar, aukinheldur er líklegt að tríó, kvartett og hljómsveit Jan Morávek hafi að einhverju leyti verið sömu sveitirnar.

Fyrst segir af tríóinu árið 1951 í fjölmiðlum en ekki liggur fyrir hverjir voru í þeirri útgáfu, Árni Ísleifs píanóleikari var þó einn þeirra sem lék með sveitinni 1952 en tríóið lék undir hjá Hauki Morthens á dansleikjum í borginni 1953.

1953 kom tríóið fyrst við sögu á hljómplötu en það var tveggja laga plata með Tígulkvartettnum, samkvæmt plötumiða voru þeir Eyþór Þorláksson gítarleikari og Erwin Koeppen bassaleikari meðlimir tríósins auk Morávek, sem lék á píanó.

Næstu tvö árin, 1954 og 55 var tríóið töluvert áberandi á útgefnum hljómplötum en þá kom það við sögu á sex plötum á vegum Íslenzkra tóna. Tvær þeirra voru í nafni tríósins sjálfs 1954 undir yfirskriftinni Við syngjum og dönsum, og innihélt eins konar syrpur, tríóið var þá skipað þeim þremur og höfðu leikið á plötu Tígulkvartettsins, en einnig kom út plata sem hafði að geyma söng Sigurðar Ólafssonar og Soffíu Karlsdóttur en þa eru lögin Ég bíð þér upp í dans og Síldarvalsinn, sem bæði nutu mikilla vinsælda og heyrast enn reglulega spiluð.

1955 kom út plata sem flytjendur eru sagðir vera Tríó Jan Morávek annars vegar og Kvartett Jan Morávek hins vegar, hljóðfæraleikarar eru þar sagðir vera Stefán Edelstein píanóleikari, Pétur Urbancic bassaleikari, Axel Kristjánsson gítarleikari auk Morávek en þar hlýtur að miðast við kvartett-útgáfuna. Á annarri plötu með Tríói Jan Morávek eru flytjendur ekki tilgreindir, og ekki heldur á plötu Tóna systra sem kom út síðar sama ár en tríóið lék þar undir. 1955 er líklega síðasta árið sem Tríó Jan Morávek starfaði.

Syrpuplöturnar tvær (Við syngjum og dönsum) voru endurútgefnar 1957 á 45 snúninga plötu sem þá höfðu verið að taka við af 78 snúninga plötunum sem hinar tvær plöturnar höfðu verið. Ári síðar var ein platnanna frá 1955 endurútgefin á 45 snúninga plötu ásamt tveimur lögum með Harmonikutríói Jóns Sigurðssonar, og á umslagi þeirrar plötu gengur tríó Jan Morávek undir nafninu Harmonikutríó Jan Morávek. Titill þeirrar plötu er Gömlu dansarnir.

Efni á plötum