Tríó Magnúsar Péturssonar (1954 / 1960-66)

Saga Tríós Magnúsar Péturssonar píanóleikara er nokkuð óljós en svo virðist sem um að minnsta kosti tvær, ef ekki þrjár sveitir sé um að ræða.

Tríóið kemst fyrst á blað 1954 en þá leikur það undir söng Leikbræðra á 78 snúninga plötu sem Tónika gaf út. Með Magnúsi voru Eyþór Þorláksson gítarleikari og Erwin Koeppen bassaleikari. Líkur eru á að þessi útgáfa tríósins hafi ekki verið starfandi en einvörðungu verið sett saman fyrir þessa upptöku.

Næst spyrst til tríós í nafni Magnúsar í upphafi sjöunda áratugarins og aftur er um plötuupptöku að ræða, að þessu sinni var það plöturöðin Boðið upp í dans, sem Íslenskir tónar gáfu út haustið 1960 í samvinnu við Dansskóla Hermanns Ragnars Stefánssonar. Alls urðu plöturnar fjórar og lék Magnús ásamt hljómsveit á þeim öllum en á þeirri fyrstu í röðinni, Boðið upp í dans: 1 Barnadansar, var það tríó hans sem lék undir söng stúlknakórs úr Melaskóla. Engra meðlima tríósins er getið með nafni á plötuumslagi.

Ári síðar, 1961 lék Tríó Magnúsar Péturssonar í Leikhúskjallaranum en engar upplýsingar finnast um skipan þess. Sumarið 1963 höfðu þeir Magnús og Karl Lilliendahl gítarleikari verið í Neo tríóinu ásamt hljómsveitarstjóranum Kristni Vilhelmssyni bassaleikara en þegar sá síðast taldi lagði tríóið niður héldu þeir Magnús og Karl áfram samstarfinu við þriðja mann (hugsanlega Hrafn Pálsson) undir nafni Magnúsar.

Tríóið starfaði þarna líklega í ein þrjú ár (1966) með sömu skipan og komu ýmsar söngkonur við sögu þess en heimavöllur tríósins var í Klúbbnum, danska söngkonan Solveig Björnsson söng með þeim um tíma og þegar hún hætti tók Hrafn við söngnum, fleiri söngkonur komu síðar við sögu tríósins, japanska söngkonan Grage Chong (sem einnig var sögð vera kínversk), Otella Dallas, Mjöll Hólm, Bertha Biering og Valgerður Bára Guðmundsdóttir.

Efni á plötum