Bernardel kvartettinn (1993-98)

Bernardel kvartettinn

Bernardel strengjakvartettinn starfaði í lok síðustu aldar og vakti nokkra athygli enda höfðu strengjakvartettar ekki beinlínis verið á hverju strái hér á landi til þess tíma.

Kvartettinn var stofnaður af nokkrum félögum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem voru Pólverjinn Zbigniew Dubik og Greta Guðnadóttir sem léku fyrstu og aðra fiðlu, Guðmundur Kristmundsson lágfiðluleikari og Guðrún Th. Sigurðardóttir sellóleikari.

Kvartettinn fór fljótlega af stað með tónleikahald víða um land og lék þá mestmegnis yfirleitt hefðbundna strengjakvartetta, eitthvað stóð til að flytja frumsamið efni en af því varð líklega aldrei. Að mestu komu fjórmenningarnir fram á sjálfstæðum tónleikum en einnig eitthvað með öðrum s.s. Selkórnum.

Bernardel-kvartettinn starfaði í um fimm ár og átti Reykjavíkur-borg nokkurn þátt í því enda styrkti borgin þau um starfslaun um tíma. Til stóð að nýta launin að einhverju leyti til að taka upp plötu en það gerðist ekki, hægt er þó að heyra í kvartettnum á plötu Borgardætra, Bitte nú sem kom út 1995.

Kvartettinn vakti nokkra athygli þegar hann lék á tónleikum með hljóðfærum eingöngu smíðuðum af Hans Jóhannssyni fiðlusmið en tryggingafélagið Sjóvá Almennar hafði kostað verkefnið og gaf Tónlistarskólanum í Reykjavík síðan hljóðfærin til notkunar.

Í upphafi árs 1998 urðu þær breytingar á skipan Bernardel-kvartettsins að Sigrún Eðvaldsdóttir tók sæti Zbigniew Dubik og Bryndís Halla Gylfadóttir kom í stað Guðrúnar Th. Sigurðardóttur. Kvartettinn starfaði ekki lengi eftir það og var lagður niður þá um sumarið.