Bragi Hlíðberg (1923-2019)

Bragi Hlíðberg fremstur fyrir miðju í hópi harmonikkuleikara árið 1939

Harmonikkuleikarinn Bragi Hlíðberg er líkast til þekktasti tónlistarmaður sinnar tegundar á Íslandi, eftir hann liggja fjórar plötur og fjölmörg frumsamin harmonikkulög. Hann er almennt talinn hafa verið fyrstur harmonikkuleikara hérlendis til að leika klassísk verk á hljóðfæri sitt.

Jón Bragi Hlíðberg Jónsson fæddist 1923 í Reykjavík og bjó á höfuðborgarsvæðinu alla tíð. Það var snemma ljóst að hann var músíkalskur en hann ólst upp við harmonikkutónlist þar sem faðir hans lék á harmonikku. Hann hafði því aðgang að harmonikku og mun hafa verið um tíu ára gamall þegar hann prófaði hljóðfærið í fyrsta skipti og ellefu ára hafði hann eignast sína fyrstu hnappaharmonikku.

Hann hóf að læra á harmonikku hjá Sigurði Briem fiðluleikara en sá hafði enga undirstöðu í hljóðfærinu sjálfur, það kom þó ekki í veg fyrir að Bragi tók strax miklum framförum á harmonikkuna og hann kom fram opinberlega í fyrsta skipti aðeins tólf ára gamall.

Það var síðan í haustið 1938 þegar Bragi var á fimmtánda ári að hann bókaði Gamla bíó, lét prenta efnisskrá og hélt sjálfstæða tónleika á eigin vegum sem vöktu mikla athygli og aðdáun og þá var ljóst að hann hafði þegar skipað sér meðal fremstu harmonikkuleikara landsins, á þeim tónleikum lék hann líklega klassísk verk í bland við annað efni.

Bragi Hlíðberg ungur að árum

Fáeinum vikum síðar var hann kominn á fullt með að leika á dansleikjum og annars konar skemmtunum og naut mikilla vinsælda, oft lék hann ásamt Halldóri Einarssyni á böllum víða um land þar sem þeir voru tveir á ferð með nikkurnar. Hann hélt ekki marga sjálfstæða tónleika en lék iðulega ásamt fleirum. Einnig lék Bragi oftsinnis í Ríkisútvarpinu sem hafði tekið til starfa nokkrum árum fyrr og naut mikillar og almennrar hylli.

Bragi hafði verið einn af stofnfélögum í Félagi harmonikuleikara sem stofnað var haustið 1936 og í mars 1939 var haldin samkeppni innan félagsskaparins um besta harmonikkuleikarann. Hann sigraði með yfirburðum og þótti skara langt fram úr þeim fimm öðrum keppendum sem þar kepptu en keppnin fór fram með þeim hætti að dómnefndin hlustaði á leik keppendanna úr öðru herbergi án þess að sjá hver léki hverju sinni. Bragi var þar einungis sextán ára gamall.

Bragi var duglegur að afla sér efnis svo sem nótna sem lítið framboð var af á Íslandi og hann varð sér stundum úti um nótur frá útlöndum. Á styrjaldarárunum komst hann í kynni við Dave Ferrari, bandarískan liðforingja sem hér þjónaði í setuliðinu en sá lék á harmonikku. Eftir stríð bauð hann Braga að koma til sín og nema sig frekar í harmonikkuleik sem hann þáði. Bragi fór utan til San Fransiskó 1947 þar sem hann dvaldi í tæplega ár hjá Ferrari og lærði hjá þekktum harmonikkukennara ytra en það var eina kennslan sem Bragi hlaut um ævina fyrir utan það sem hann nam hjá Sigurði Briem. Hann kom einnig fram í nokkur skipti opinberlega í Ameríku og meðal annars fyrir framan hundrað og fimmtíu þúsund manns eftir því sem sagan segir. Þegar Bragi kom aftur heim til Íslands hélt hann tónleika fyrir troðfullu Austurbæjarbíói og mikil fagnaðarlæti.

Um þetta leyti færði Bragi sig yfir á svonefnda píanóharmonikku en til þess tíma hafði hann leikið á hnappaharmonikkur, reyndar tvenns konar eðlis þannig að píanóharmonikkan var í raun þriðja tegundin sem hann reyndi sig við, fáir ef nokkrir hér á Íslandi höfðu þá tileinkað sér þá tækni sem fylgdi þeirri tegund harmonikka.

Haustið 1949 stofnuðu þeir Bragi og Svavar Gests Nótnafyrirtækið Tempó sem sérhæfði sig í útgáfu nótna, hann ritaði ennfremur harmonikkuþátt í Jazzblaðinu um tíma og löngu síðar ritaði hann í rit Félags harmonikuunnenda, Harmoníkuna.

Upp úr 1950 var Bragi Hlíðberg kominn með eigin hljómsveit í Góðtemplarahúsinu (Gúttó) sem hann starfrækti með hléum næstu árin, sú sveit fór m.a. út á land með dansleikjaprógram sumarið 1951 þar sem söngvarinn Haukur Morthens var með í för. Á þessum árum lék hann einnig með hljómsveit Gunnars Ormslev, sem og kvartett Jan Morávek og lék með þeirri sveit inn á plötu með Svavari Lárussyni (1952), og síðar með Hljómsveit Carls Billich á plötur undir söng Alfreðs Clausen (1952), Sigurðar Ólafssonar og Sigurveigar Hjaltested (1953), Ólafs Briem og Öddu Örnólfs (1954), og Ingibjargar Þorbergs (1954).

Bragi ásamt Ólafi Magnússyni frá Mosfelli

Bragi lék með fjölmörgum öðrum hljómsveitum á sjötta áratugnum um skemmri tíma, hann var til að mynda í hljómsveitum Árna Ísleifs og Eriks Hubner, auk þess að stjórna hljómsveitum í danslagakeppnum SKT (Skemmtiklúbbs templara) en slíkar keppnir nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Þá lék Bragi oftsinnis einn á sviði, á böllum, í revíum og tónleikum víðs vegar um land. Árið 1953 stóð til að Bragi færi utan um sumarið til að taka þátt í heimsmeistaramóti harmonikkuleikara en ekki mun hafa orðið af því hver svo sem ástæðan kann að vera.

Árið 1955 var stofnaður svokallaður Hljómlistarskóli FÍH innan Félags íslenskra hljómlistarmanna og varð Bragi meðal kennara við skólann, hann var reyndar um tíma einnig í stjórn FÍH. Síðar átti hann eftir að kenna á harmonikku um árabil, mestmegnis við einkakennslu.

Um miðjan sjötta áratuginn barst rokkið til Íslands frá Bandaríkjunum og bítlatónlistin síðar frá Bretlandi, og segja má að þá hafi orðið stórar breytingar í íslenskri tónlist, gítarinn tók yfirhöndina í hljómsveitum og harmonikkan varð ekki eins vinsælt hljóðfæri hjá yngri kynslóðunum sem þá voru að koma upp.

Upp frá því má segja að Bragi hafi dregið sig í hlé frá hljómsveitaleik og raunar hvarf hann nær alveg af sjónarsviðinu um tveggja áratuga skeið, hann lék reyndar með Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar og Krummakvartettnum í byrjun sjöunda áratugarins og um það leyti lék hann einnig inn á plötu Hljómsveitar Jan Morávek en þar var um jólaplötu að ræða og því sérstakt verkefni. Bragi var farinn að starfa hjá vátryggingafélaginu Sjóvá og þar starfaði hann í ríflega hálfa öld, en sinnti tónlistinni þá utan dagvinnutíma ef um slíkt var að ræða en hann var lítið í sviðsljósinu. Það var helst að honum brygði fyrir í dagblöðum í kringum jólahátíðirnar þegar hann tróð upp ásamt Kertasníki (Ólafi Magnússyni frá Mosfelli) á jólatrésskemmtunum víða um land, þannig skemmtu þeir félagarnir m.a. á Ráðhústorginu á Akureyri á einni aðventunni fyrir um þrjú þúsund mannsm sem þá var met þar í bæ.

Bragi Hlíðberg

Það var síðan árið 1976 sem Bragi birtist á nýjan leik aftur en þá gaf Svavar Gests hjá SG-hljómplötum út tólf laga plötu samnefnda Braga. Platan var tekin upp í Tóntækni, hljóðveri SG-hljómplatna af Sigurði Árnasyni en með honum á plötunni léku Árni Scheving, Guðmundur R. Einarsson og Reynir Sigurðsson. Platan hafði að geyma lög úr ýmsum áttum en engar sögur fara af móttökum.  Þær hljóta þó að hafa verið þokkalegar því þremur árum síðar kom út önnur plata á vegum SG, sú hét Dansað á þorranum og innihélt eingöngu frumsamin lög eftir Braga, tólf talsins. Þeir Guðmundur R. Einarsson, Jón Sigurðsson og Þórður Árnason léku með Braga í þetta skipti og Sigurður Árnason var við takkana sem fyrr.

Bragi fór nú í kjölfarið að sjást meira með nikkuna, honum brá stöku sinnum fyrir í skemmtiþáttum í sjónvarpi og lék einnig á skemmtunum, m.a. á þjóðhátíð Vestmannaeyinga 1979. Þá starfaði hann svolítið í leikhúsi og varð virkur í Félagi harmonikuunnenda sem hann hafði átt þátt í að stofna árið 1977, kom oft fram á skemmtifundum og landsmótum félagsins. Hann lék m.a. á plötu þeirra, Meira fjör með harmonikuunnendum sem kom út 1984.

Bragi var ennfremur kallaður til þegar FÍH hélt upp á 50 ára afmæli sitt 1982 en þá var sett saman harmonikkuhljómsveit í hans nafni sem lék á afmælistónleikunum á Broadway en úrval af herlegheitunum rataði síðan á plötu, þ.m.t. lag með Braga og félögum. Þá hóf hann að leika á harmonikku fyrir eldri borgara en hann varð síðar ómissandi hluti af félagsstarfi þeirra víða um borg.

Haustið 1994 gaf Bragi út sína þriðju plötu en á hann hafði verið skorað með fjárframlagi þegar hann varð sjötugur að aldri. Hann gat ekki skorast undan þeirri áskorun og fékk Ólaf Gauk Þórhallsson til að útsetja með sér og stjórna upptökum sem fóru fram í Hljóðsmiðjunni í Hafnarfirði en platan hlaut titilinn Í léttum leik og innihélt þrettán lög úr ýmsum áttum, þar af tvö eftir hann sjálfan. Bragi gaf plötuna sjálfur út og hlaut hún mjög góða dóma í DV, það var í fyrsta og líklega eina skipti sem plötugagnrýni birtist um plötu hans en Svavar Gests hafði ekki viljað að fjallað væri um útgefnar plötur SG-hljómplatna á sínum tíma.

Bragi á forsíðu Harmoníkunnar

Frá og með sjötugs afmælinu hefði mátt halda að Bragi drægi sig í hlé frá spilamennsku en svo varð ekki, hann varð enn öflugri í félagsstarfi eldri borgara og lék þar oft en einnig við önnur tækifæri s.s. hjá Félagi harmonikuunnenda og víðar. Reyndar hefur hann verið að koma opinberlega fram með nikkuna allt til ársins 2016 að minnsta kosti en þá var hann orðin níutíu og þriggja ára gamall. Árið 2008 gaf hann út sína fjórðu plötu en hún var gefin út í tilefni af áttatíu og fimm ára afmæli hans, því miður finnast litlar sem engar upplýsingar um þá plötu og óskar Glatkistan eftir þeim hér með.

Bragi hlaut fjöldann allan af viðurkenningum fyrir ævistarf sitt í þágu íslenskrar tónlistar. Það má segja að tónninn hafi verið gefinn þegar hann var kjörinn vinsælasti hljóðfæraleikarinn í könnun sem Útvarpstíðindi stóðu fyrir á fimmta áratugnum en síðar hlaut hann margvíslegar viðurkenningar, hann var gerður að heiðursfélaga Félags harmonikuunnenda í Reykjavík (FHUR), Harmonikuunnenda Húnavatnssýslna (HUH) og Sambands íslenskra harmonikuunnenda (SIHU). Bragi var kjörinn harmonikkuleikari aldarinnar á vegum Harmoníkunnar, blaðs Félags harmonikuunnenda og hlaut einnig viðurkenningu frá Garðabæ fyrir framlag sitt til menningarmála en þar hafði hann búið frá því á sjötta áratugnum.

Leik Braga má heyra á fleiri plötum en hér hafa verið nefndar, hann kom t.d. við sögu sem undirleikari með Álafosskórnum á plötunni Í Mosfellsbæ (1999), einnig með Maíkórnum og plötu þess kórs, Við erum fólkið (1982) og á plötunni Óskalög sjómanna (1997) sem hafði að geyma sjómannalög. Þá má einnig nefna safnkassetturnar Stóra

bílakassettan III og V (1979 og 80). Lög eftir hann hafa aukinheldur verið gefin út á nótum, sbr. Ellefu einleikslög fyrir harmoniku (1980).

Sagt hefur verið um Braga að hann hafi verið jafnvígur á klassík, danstónlist og djasstónlist, og að hann hafi alla tíð verið fremstur meðal íslenskra harmonikkuleikara, allt frá því að hann hélt sína fyrstu einleikstónleika í Gamla bíói aðeins fjórtán ára gamall.

Bragi Hlíðberg lést vorið 2019, á nítugasta og sjötta aldursári.

Efni á plötum