Hljómsveit/ir Villa Valla (1950-2014)

V.V. kvartett 1958

Vilberg Vilbergsson (Villi Valli) rakari á Ísafirði starfrækti fjölda hljómsveita frá því um miðja síðustu öld og allt fram á annan áratug þessarar aldar, og skipta meðspilarar hans tugum í þeim sveitum. Sveitir Villa Valla hafa verið allt frá tríóum og upp í sjö manna bönd en oftast var um kvartetta að ræða, ekki er um alveg samfleytt hljómsveitastarf að ræða en það verður nánar tilgreint eftir bestu vitund hverju sinni hér að neðan.

Vilberg sem var aðeins um tvítugt, var nýfluttur til Ísafjarðar og var þar farinn að læra hárskeraiðn þegar hann stofnaði fyrstu hljómsveit sína árið 1950. Hann hafði leikið með M.G. tríóinu tveim árum áður og þá hafði þýskur trommuleikari, Erich Hübner leikið með honum, Villi Valli fékk hann til liðs við sig en auk þess voru þeir Finnbjörn Finnbjörnsson píanóleikari og Haukur Sigurðsson trompetleikari í þessari fyrstu útgáfu hljómsveitarinnar sem gekk yfirleitt undir nafninu V.V. kvartett eða Kvartett Villa Valla (Vilbergs Vilbergssonar), sjálfur lék Villi Valli á harmonikku og saxófón.

Þeir félagar útsettu tónlist sína mestmegnis sjálfir og léku bæði gömlu og nýju dansana, framan af var sveitin söngvaralaus og þar var ekki fyrr en löngu síðar sem þeir fengu söngvara, en stöku sinnum komu þó söngvarar og sungu fáein lög á dansleikjum sveitarinnar.

Fyrstu breytingarnar á V.V. kvartett urðu líklega árið 1952, þá var Finnbjörn farinn suður til Reykjavíkur og tók Ólafur Kristjánsson píanó- og víbrafónleikari við hans stöðu, Hörður Þorsteinsson trommu-, básúnu- og altsaxófónleikari var kominn í stað Erichs en auk þess var Bragi Þorsteinsson klarinettuleikari (og bróðir Harðar) í sveitinni með Villa Valla.

V.V. og Barði

1957 kemur líklega ný sveit til sögunnar, þá voru auk Villa Valla í sveitinni þeir Gunnar Hólm Sumarliðason trommuleikari (sem einnig söng eitthvað), Haukur Sigurðsson sem þá lék orðið á kontrabassa, Finnbjörn píanóleikari sem þarna var aftur kominn til sögunnar, og Pétur Pálsson gítarleikari en hann var fyrstur til að leika á það hljóðfæri í sveitinni, Pétur mun einnig eitthvað hafa sungið. Á þessu tímaskeiði er hljómsveitin í fyrsta skipti fimm manna og gekk undir nafninu V.V. kvintett eða Kvintett Villa Valla (Vilbergs Vilbergssonar).

Þetta sama ár, 1957 mun sveitin m.a. hafa leikið í söngvarakeppni sem haldin var á Ísafirði en aðalvígi hennar var auðvitað alltaf heimaslóðir á þessum árum þegar samgöngur voru ekki betri. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem sveitin lék meira að sér kveða í öðrum landshlutum.

Ekki liggur fyrir hversu lengi fyrrgreind skipan sveitarinnar starfaði en árið 1962 var hún orðin sjö manna, sextett ásamt söngvara, þá voru í henni Villi Valli (sem lék nú orðið einnig á gítar) og Ólafur Kristjánsson en nýrri liðsmenn voru Magnús Reynir Guðmundsson bassaleikari, Þórarinn Gíslason píanóleikari sem þá var einungis fjórtán ára gamall (sem einnig lék á tenór saxófón), Guðmundur Marinósson trommuleikari, Ólafur Karvel Pálsson alto saxófónleikari og Barði Ólafsson söngvari.

Þessi útgáfa varð sú fyrsta af sveitinni sem hafði á að skipa föstum söngvara en að öðru leyti var hún sambærileg KK-sextett að stærð og skipan. Sveitin gekk nú gjarnan undir nafninu V.V. sextett og Barði, og þannig mönnuð lék hún til ársins 1964. Þá um vorið kom Samúel Einarsson bassaleikari inn í hljómsveitina í stað Magnúsar en um haustið hætti sjálfur hljómsveitarstjórinn og gekk þá sveitin um eins árs skeið undir nafninu Blossar og Barði.

Villi, Gunnar og Haukur

Baldur Ólafsson gítarleikari (bróðir Barða söngvara) lék með Blossum en ekki liggur fyrir hvort hann lék einhverju sinni með hljómsveit Villa Valla. Þá er ógetið nokkurra meðlima í viðbót sem léku um tíma með sveitinni, Árni Ísleifsson píanóleikari lék með Villa Valla í einn vetur en engar upplýsingar er að finna um ártal í því samhengi, einnig mun trommuleikarinn Hallgrímur Sigurðsson hafa leikið með einhverri útgáfu sveitarinnar á einhverjum tímapunkti, þá gætu þeir bræður, Baldur og Karl Geirmundssynir ennfremur hafa leikið með henni. Upplýsingar þ.a.l. óskast sendar Glatkistunni sem og um fleiri sem kunna að hafa leikið með sveitinni.

Kjarni Blossa lék einnig í Sexmönnum árið 1967 og var Villi Valli jafnframt í þeirri sveit, það mun þó hafa verið sjálfstætt starfandi sveit og ekki undir stjórn hans. Ekki er þó loku fyrir skotið að sveitin hafi síðan orðið að hljómsveit Villa Valla, að minnsta kosti starfrækti hann sveit það sama ár í eigin nafni en ekki finnast upplýsingar um meðlimaskipan hennar.

Starfsemi hljómsveita Villa Valla var nú stopulli og einungis finnast upplýsingar um sveit undir hans stjórn 1967 og 69, Villi Valli var þá fremur upptekinn með Lúðrasveit Ísafjarðar sem hann stýrði um áratugar skeið.

Vilberg birtist með nýja sveit árið 1972 og var það oftast tríó sem lék blandaða danstónlist og þá einnig gömlu dansana, það tríó gekk iðulega undir nafninu Villi, Gunnar og Haukur en með honum í þeirri sveit voru að öllum líkindum Gunnar Hólm og Haukur Sigurðsson.

Tríó Villa starfaði í áratug, – frá 1972 til 82 og var sveitin til langs tíma húshljómsveit í Gúttó (Góðtemplarahúsinu) á Ísafirði. Villi, Gunnar og Haukur fóru í fræga ferð með Sunnukórnum á Ísafirði til Noregs sem meðleikarar á tónleikum en á leiðinni lék sveitin um borð í Gullfossi, sem hópurinn sigldi með. Tríóið breytti lítillega um svip þegar Baldur Ólafsson kom í stað Harðar árið 1977 og þannig var sveitin skipuð til ársins 1982 þegar hún hætti störfum. Barði Ólafsson söngvari söng stöku sinnum með tríóinu.

Villi Valli og félagar leika djass

Þrjú ár liðu uns Villi Valli birtist næst með hljómsveit, árið 1985 var hann með hljómsveit og síðan 1986 hefur hann eingöngu starfrækt djass- og harmonikkubönd (tengd starfi harmonikkufélaganna), sem hafa komið fram við ýmis tækifæri en langt því frá reglulega. Skipan þeirra sveita hafa verið með mismunandi hætti og eftir hæfi hverju sinni. Þeir Ólafur Kristjánsson, Baldur Geirmundsson, Magnús Reynir Guðmundsson og Gunnar Hólm hafa lengst af starfað með honum hin síðari ár. Einnig hefur Önundur Pálsson trommuleikari verið með þeim.

Hljómsveitir Villa Valla hafa leikið stopulla síðustu árin og þegar þetta er ritað er þó nokkuð liðið síðan sveit í hans nafni kom fram, það var líklega árið 2014 en hljómsveitarstjórinn var þá á áttugasta og fimmta aldursári.