X-tríóið (1986-92)

X-tríóið

X-tríóið (X-tríó) starfaði í Eyjafirðinum um nokkurra ára skeið á síðari hluta síðustu aldar, flutti blöndu af frumsömdu og blönduðu efni í anda Ríó tríósins og annarra álíka sveita, og lagði áherslu á léttleika á skemmtunum sínum.

Tríóið af stofnað haustið 1986 og voru meðlimir þess í upphafi Gunnar Þórisson bassaleikari, Sigurður Þórisson gítar- og munnhörpuleikari og Erlingur Bergvinsson gítarleikari en þeir sungu allir einnig, Gunnar og Sigurður eru bræður. Gunnar og Erlingur höfðu unnið saman við revíu sem sett hefði verið á svið í sveitinni og í framhaldi af því fengu þeir Sigurð með sér og stofnuðu tríóið.

X-tríóið kom fyrst fram í ársbyrjun 1987 og komu oftsinnis fram á þorrablótum, árshátíðum og þess konar samkomum með skemmtidagskrá sína en síðar héldu þeir einnig sjálfstæða tónleika og fóru reyndar víða um norðanvert landið með dagskrána. Oft löguðu þeir textana við lögin að viðfangsefninu og staðsetningu hverju sinni. Erlingur samdi lögin að mestu, Sigurður einnig að einhverju leyti en hann var aðaltextahöfundur tríósins.

Birgir Arason tók við bassaleikarahlutverinu af Gunnari á einhverjum tímapunkti, líklega 1991 eða 92, og þannig var X-tríóið skipað þar til þeir hættu störfum vorið 1992.

Í upphafi árs 1995 kom X-tríóið saman á nýjan leik og skemmti á styrktartónleikum, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu það á þeim tímapunkti.