María Helena Haraldsdóttir (1960-)

María Helena Haraldsdóttir

Söngkonan María Helena Haraldsdóttir var nokkuð áberandi í íslenskri tónlist um tíma í kringum 1980 en lítið hefur farið fyrir henni hin síðari ár, en hana þekkja flestir sem eiginkonu Bjartmars Guðlaugssonar.

María Helena er fædd 1960 og var aðeins fjórtán ára gömul komin í Kór Langholtskirkju, hún var þar ennþá nítján ára gamall nemandi við Söngskólann í Reykjavík þegar henni bauðst að syngja inn á plötu hljómsveitar sem bar nafnið Íslensk kjötsúpa en platan Kysstu mig kom út um vorið 1979. Á þeirri plötu söng hún vinsælasta lagið, Íslensk kjötsúpa ásamt Sigurði Sigurðssyni en tónlistin þótti bera nokkurn keim af plötu Meat loaf, Bat out of hell.

Um haustið 1979 hóf María að syngja með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu og starfaði með þeirri sveit næstu þrjú árin, um það leyti söng hún einnig með Áhöfninni á Halastjörnunni sem gaf út nokkrar plötur á fyrri hluta níunda áratugarins.

María Helena kynntist árið 1983 Bjartmari Guðlaugssyni og þau felldu hugi saman, bjuggu um tíma í Vestmannaeyjum og þar söng hún eitthvað með Hljómsveit Guðjóns Pálssonar og Nýja bandinu, auk þess að koma við sögu á smáskífu Ágústs Stefánssonar úr Vestmannaeyjum þar sem hann kyrjaði „Nú meikarðu það Gústi“.

Síðar söng hún einnig á plötum Bjartmars eiginmanns síns, Einars Vilberg og Sumargleðinnar en hefur lítið sem sungið síðustu áratugina nema með Bjartmari, hún hefur hins vegar alltaf verið hans hægri hönd í skipulagningu tónleika o.þ.h. Þau hjónin hafa búið og starfað víða, um nokkurra ára skeið í Danmörku en mest heima á Íslandi þar sem þau hafa bæði verið á höfuðborgarsvæðinu og á Eiðum.