Þessi þungu högg

GG blús – Punch
GCD 006, 2019

Blúsrokkdúettinn GG blús kom opinberlega fram á sjónarsviðið í byrjun þessa árs en hefur þó starfað frá árinu 2017 og þróað tónlist sína í bílskúr á Álftanesinu. Dúettinn er skipaður gamalreyndum póstum og nöfnum úr íslenskri popp- og rokktónlist, þeim Guðmundum Jónssyni margþekktum gítarleikara og lagahöfundi úr sveitum eins og Sálinni hans Jóns míns, Kikk, Nykri og Vestanáttinni auk þess að eiga sólóferil að baki, og Guðmundi Gunnlaugssyni trymbli úr Centaur, Sixties, X-izt, Audio nation, Money og fleiri sveitum en sá síðarnefndi hefur verið meira viðloðandi blúsinn hingað til. GG blús vakti nokkra athygli á Blúshátíð í Reykjavík fyrr á þessu ári og hefur reyndar verið nokkuð öflug í tónleikahaldi síðustu mánuðina þar sem þeir félagararnir hafa mætt fáskipaðir en þungvopnaðir gítar og trommum. Dúettinn sendir nú frá sér sína fyrstu plötu undir titlinum Punch sem hæfir efninu reyndar prýðilega.

Þó svo að GG blús skilgreini tónlist sína sem blúsrokk má segja að rætur þeirra liggi e.t.v. nær rokkinu, kannski eins og þeir hafa sjálfir bent á eru þeir undir mestum áhrifum frá Black keys, White stripes og þá auðvitað Jack White.

Punch sem er tíu laga plata skartar sjö frumsömdum lögum sem flest eru eftir Jónsson gítarleikara en Gunnlaugsson kemur við sögu í þremur þeirra sem og Mike Pollock í laginu Lost and found sem er eina lag plötunnar sem skilgreina mætti sem hreinan blús en í því er jafnvel nettur KK-fílingur, þar ljær gamli Utangarðsmaðurinn þeim líka rödd sína.

Upphafslag plötunnar, Broken dreams gefur kraftmikinn tóninn og í kjölfarið kemur Touching the void sem einhvern veginn hefur allt, dramatísk og hæfilega marglungin lagasmíð. Áðurnefnt Lost and found sker sig nokkuð úr sem fyrr segir og svo skellur rokkið aftur á með heimsósómaívafi lagsins Everything is wrong with the world today en segja má að sá rauði þráður sé nokkuð áberandi í tónlistinni enda auðvitað við hæfi. Lady luck (Just give me a change) og I wanna tell you a story eru bæði fínustu ópusar skreyttir gítarfrösum og taktbreytingum reyndar eins og platan öll, auðvitað er ekki um að ræða neitt nýtt í þeim efnum en þeir félagar gera þetta algjörlega að sínu. Loka- og titillagið Punch er síðan kennslubókardæmi um það kraftmikla og gamaldags rokk sem platan hefur að geyma og er besta lag hennar ásamt Touching the void að mati undirritaðs.

Þrjú laganna eru ábreiður og þeirra þekktust er væntanlega Money sem allir þekkja auðvitað í meðförum Pink Floyd, sú útgáfa GG blús virkar á mann nokkuð fersk í byrjun en verður pínulítið þreytt við frekari spilun, í því lagi má reyndar heyra Sigurð Sigurðsson blása listavel í munnhörpu. Þarna er einnig að finna Spoonful eftir Willie Dixon og Rory Gallagher lagið Cradle rock sem er ívið hægari og þyngri en orginallinn en um leið best tökulaganna þriggja.

Söngur tvímenninganna er með ágætum, Guðmundur gítarleikari hefur auðvitað sungið heilmikið í gegnum tíðina, þrjár sólóplötur, bakraddir með Nykri og Sálinni ættu að gefa heilmikla reynslu í þeim efnum og nafni hans trommuleikarinn kemur á óvart en hann er fyrirtaks rokksöngvari með rifna rödd sem smellpassar við tónlistina. Raddsetningar eru líka vel heppnaðar sem og allur hljóðfæraleikur, rokkfíkillinn fær heilmikið fyrir sinn snúð – fjölbreytta gítarfrasa og hugmyndaríkan trommuleik og bassaleysið er síður en svo til að trufla, fyrirfram hefði maður haldið að einhverja fyllingu vantaði en þeir Guðmundar fara hamförum á fetlabrettinu, nota bjaganir og effekta óspart bæði í hljóðfæraleik og söng og reyndar hljómar platan frábærlega. Cover plötunnar er jafnframt vel unnið, stílhreint, smekklegt og læsilegt.

Án þess að ætla að taka Jónsson út fyrir sviga í þessari umfjöllun vil ég nefna að mér finnst nánast allt sem hann hefur komið nálægt í gegnum tíðina hafið yfir meðalmennskuna og þá skiptir litlu hversu ólík verkefnin eru, sannkallað kamelljón í tónlistarlegum skilningi. Og heilt yfir mega þeir GG blúsarar því vera stoltir af þessari frumraun sinni og ég hlakka til að heyra meira frá þeim félögum. Fjórar af fimm.