Maus (1993-)

Maus

Hljómsveitin Maus er án nokkurs vafa ein af þekktustu rokksveitum íslenskrar tónlistarsögu og þá um leið ein af þeim langlífari en hún er jafnframt í hópi fjölmargra sveita sem hafa nýtt sér sigur í Músíktilraunum Tónabæjar til að koma sér almennilega á framfæri. Sveitin hefur sent frá sér fjölda platna.

Maus kemur upphaflega úr Árbænum en sveitin var stofnuð í apríl 1993. Frá upphafi og til dagsins í dag hefur hún verið skipuð sömu fjórum einstaklingunum en þeir eru Birgir Örn Steinarsson söngvari og gítarleikari, Páll Ragnar Pálsson gítarleikari, Eggert Gíslason bassaleikari og Daníel Þorsteinsson trommuleikari, og má því segja að þar sé á ferðinni vinahópur sem staðið hefur saman í gegnum súrt og sætt en þeir voru þarna á menntaskólaaldri. Nafn sveitarinnar kemur úr myndasögugeiranum, úr ranni Art Spiegelman og hafði sem íslenskt orð og með íslenskan framburð nokkuð víðari skírskotun og merkingu.

Sveitin sem gekk fyrst um sinn undir nafninu Slip, lét lítið fara fyrir sér fyrsta árið, þeir félagar léku í nokkur skipti á opinberum vettvangi haustið 1993 en það var síðan vorið 1994 sem þeir skráðu sig til leiks í Músíktilraunum, og fóru þar með sigur af hólmi en þá hafnaði í öðru sæti hljómsveitin Wool sem var skipuð meðlimum sem síðar urðu einnig þekktir tónlistarmenn. Maus hlaut jafnframt verðlaun fyrir besta gítarleikarann (Birgi) og besta trommuleikarann (Daníel).

Músíktilraunir urðu Maus gríðarlega mikill stökkpallur, tónlistin var eins konar nýbylgjurokk með íslenskum textum og létu meðlimir hafa eftir sér að ein fyrirmynda þeirra í tónlistinni væri hljómsveitin Þeyr en margir þóttust heyra ýmis líkindi með sveitunum tveimur. Sveitin fór strax á fullt í spilamennsku að loknum tilraunum, og tók fljótlega upp lagið Skjár sem fór á safnplötuna Smekkleysa í hálfa öld en hún kom út á vegum Smekkleysu í tilefni af hálfrar aldar afmæli íslenska lýðveldisins í júní 1994. Gert var myndband við lagið sem fékkst svo ekki spilað í Ríkissjónvarpinu þar sem það þótti ekki við hæfi af einhverjum ástæðum, því þurfti að gera nýtt myndband.

Sveitin stefndi að því að gefa út plötu um haustið og því nýttu þeir hljóðverstímana sem þeir hlutu í verðlaun í Músíktilraunum til að taka upp fjögur lög, þegar Smekkleysu-útgáfan gekk til liðs við sveitina var fimm lögum bætt við og þannig kom platan út í september 1994 undir titlinum Allar kenningar heimsins… …og ögn meira, hljómsveitin samdi lögin í sameiningu en Birgir söngvari annaðist textagerð og þannig hafa laga- og textasmíðar sveitarinnar gengið fyrir sig æ síðan. Platan hlaut prýðilegar viðtökur gagnrýnenda, mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum, ágæta í DV og þokkalega í Æskunni, hún var jafnframt framarlega í kjöri poppspekúlanta í kjöri á plötu ársins. Þrátt fyrir þetta seldist platan fremur illa.

Maus 1994

Mausverjar fylgdu plötunni nokkuð eftir með spilamennsku og voru nokkuð öflugir fram eftir árinu 1995 á því sviði, minna fór fyrir þeim um sumarið en þá fóru þeir að vinna nýtt efni í hljóðveri. Þeir gáfu sér þó tíma til að fara stuttan tónleikatúr um Frakkland, Þýskaland og Tékkland auka þess að leika á Rykkrokki og á óháðri listahátíð í Reykjavík. Áherslurnar voru nú nokkuð öðruvísi við gerð nýrrar plötu en sveitin hafði þarna ákveðið að keyra á erlendan markað og var Evróputúrinn liður í því, lögin á henni voru því mestmegnis á ensku og meðal þeirra var eitt coverlag – Girls on films sem Duran Duran hafði gert ódauðlegt um áratug fyrr. Líkindi með útgáfunum tveimur voru nánast engin enda höfðu þeir Mausliðar haft sína útgáfu öllu rokkaðri. Platan hlaut titilinn Ghostsongs og var gefin út af Spori en hún fékk eins og fyrri platan mjög góða dóma í Morgunblaðinu en önnur gagnrýni virðist ekki hafa birst um hana, í seinni tíð hefur stundum verið talað um þessa plötu sem „týndu plötuna“ þar sem hún fékk ekki eins mikla athygli og hinar plötur sveitarinnar. Hluti af skýringunni kann að vera að sama dag og stóð til að útgáfutónleikarnir yrðu féllu snjóflóð á Flateyri þar sem fjöldi manns lést og voru því allir fjölmiðlar meira og minna undirlagðir af þeim hræðilegu atburðum næstu dagana. Auk Girls on films naut Deepnightwalk nokkurra vinsælda meðal útvarpshlustenda en aðeins eitt laganna, Þinn viðhlæjandi og vinur, var á íslensku og hafði það að geyma skírskotanir úr Hávamálum.

Liður í því að vekja athygli erlendra fjölmiðlamanna á sveitinni var að efna til tónleika í Laugardalshöll ásamt Jet Black Joe og Ash en ekki er að sjá að sú viðleitni hafi borið árangur, engar upplýsingar er heldur að finna um að platan hafi komið út fyrir erlendan markað eins og gert var ráð fyrir.

Sveitin hafði fylgt plötunni nokkuð eftir fyrir jólin 1995 en þeir voru fremur rólegir í tíðinni framan af árinu 1996, þeir frumfluttu þó nokkuð af nýju efni um sumarið en um haustið lifnaði heldur yfir Maus þegar sveitin hitaði upp fyrir Super furry animals, þar munu hafa verið útsendarar fyrir erlend útgáfufyrirtæki en engar sögur fara af samskiptum þeirra við sveitina og reyndar virðast útrásartilraunir hennar að mestu hafa mistekist. Um þetta leyti voru tveir meðlimir hennar (Eggert og Daníel) viðloðandi brimbrettasveitina Brim sem gaf út plötu fyrir jólin 1996, og því þurftu þeir að sinna því verkefni samhliða Maus sem fyrir vikið varð pínu út undan.

Maus

Framan af árinu 1997 var Maus að mestu í fríi frá tónleikahaldi en voru þá á sama tíma að semja og frumvinna nýtt efni, sveitin fór þó á fullt um vorið og sumarið og léku þá m.a.s. á sveitaballi sem þeir gerðu síðan stöku sinnum, það var þó iðulega með öðrum sveitum en Maus var auðvitað að langmestu leyti tónleikamegin í sviðsljósinu. Forsmekkurinn að nýja efninu heyrðist í kvikmyndinni Blossi 810551 sem frumsýnd var um sumarið, þetta var lagið Égímeilaðig sem naut strax mikilla almennra vinsælda og má segja að hafi verið fyrsti stórsmellur sveitarinnar. Þarna kvað við nokkuð nýjan tón en tónlistin var orðin ívið aðgengilegri, léttari og melódískari án þess þó að sérkenni sveitarinnar glötuðust, ágengur gítarhljómurinn og sérstæður söngstíll Birgis sem var alls ekki allra. Sveitin fékk nú einnig nokkuð almennari útvarpsspilun en hafði að mestu til þess tíma verið leikin á X-inu og þess háttar útvarpsstöðum.

Það vakti óneitanlega athygli þegar spurðist út að Roger O‘Donnel hljómborðsleikari bresku sveitarinnar The Cure léki á væntanlegri plötu en hann hafði sett sig í samband við Maus eftir að hafa heyrt Ghostsongs. Nýja platan, Lof mér að falla að þínu eyra kom síðan út í október 1997 og hlaut góðar viðtökur, mjög góða dóma í DV og Degi og frábæra í Morgunblaðinu, sem reyndar urðu mönnum tilefni til blaðaskrifa í kjölfarið. Platan skipaði sér með allra bestu plötum ársins að mati þeirra fjölmiðla sem fjalla á annað borð um tónlist. Lof mér að falla… var töluvert frábrugðin fyrri plötunum tveimur eins og Égímeilaðig hafði gefið til kynna um sumarið enda hafði hún verið unnin á mun lengri tíma en hinar plöturnar tvær, reyndar þóttu allar plöturnar þrjár vera ólíkar innbyrðis og tónlistin hafði þróast mikið hjá sveitinni sem þótti hafa tekið stór tónlistarleg stökk með hverri plötunni. Lög eins og Síðasta ástin fyrir pólskiptin, Poppaldin, Ungfrú Orðadrepir, Kristalnótt og 90 króna perla nutu vinsælda og fengu heilmikla spilun á útvarpsstöðvunum.

Fljótlega á nýju ári (1998) var söngurinn á nýju plötunni tekinn upp aftur en nú á ensku enda voru Maus-verjar síður en svo búnir að gefa meikdrauminn upp á bátinn, platan var líklega aldrei gefin út opinberlega þannig en þegar sveitin lék erlendis eftir það höfðu þeir félagar iðulega nokkur eintök með sér til dreifingar.

Maus 1997

Maus var nokkuð áberandi á Íslensku tónlistarverðlaununum sem haldin voru snemma á árinu og unnu þar titilinn hljómsveit ársins, alls fékk sveitin níu tilnefningar s.s. Daníel sem trommari ársins, Birgir sem textahöfundur ársins, Lof mér að falla… sem plata ársins, Égímeilaðig sem lag ársins og þannig mætti áfram telja. Sveitin var þannig séð komin á stóra sviðið í íslenska tónlistarheiminum og um sumarið var hún meðal tónlistarmanna sem komu fram á tónleikum sem báru yfirskriftina Popp í Reykjavík, og komu þ.a.l. fram í samnefndri kvikmynd sem var frumsýnd um haustið og átti að verða sams konar heimild um reykvískt popplíf og Rokk í Reykjavík var á sínum tíma um íslenskt pönk. Annars var Maus nokkuð áberandi þetta árið í tónleikahaldi, sveitin vakti t.d. athygli þegar hún lék á útihátíðinni Hæ Akureyri sem var eins konar mótvægi gegn Halló Akureyri en hljómsveitum og hátíðarhöldurum bárust hótanir vegna þess, þá lék sveitin í Norðurkjallara Menntaskólans í Hamrahlíð um haustið en þeir tónleikar voru lengi árlegir viðburðir hjá henni.

Vorið 1999 fór sveitin utan og lék á tónleikum í Danmörku og Svíþjóð en þá voru þeir komnir á fullt við að kynna nýtt væntanlegt efni sem þeir höfðu verið að vinna um veturinn á undan. Meðlimir sveitarinnar höfðu alltaf verið tæknilega sinnaðir og voru reyndar meðal allra fyrstu hljómsveita hérlendis til að halda úti vefsíðu, einhverjir þeirra störfuðu við tölvur og internetið sem þarna var að ryðja sér til rúms og því ætti ekki að koma á óvart að Maus varð fyrst íslenskra hljómsveita til að senda frá sér smáskífu á netinu, það var gert í samstarfi við Fókus og Vísi.is og var lagið Strengir en það var síðan upphafslag breiðskífunnar sem kom út nokkrum vikum síðar og bar heitið Í þessi sekúndubrot sem ég flýt. Birgir hafði stundum hlotið fremur neikvæða gagnrýni fyrir söngstíl sinn og reyndar vildu sumir meina að hann syngi hreinlega falskt þannig að fyrir þessa plötu höfðu Maus-verjar fengið söngvarann Daníel Ágúst Haraldsson til liðs við sig til að segja Birgi til og slípa hann til í söngnum, menn voru því sammála að söngur hans væri mun betri á nýju plötunni og hún hlaut yfirleitt frábærar viðtökur gagnrýnenda, mjög góða dóma í Morgunblaðinu, DV og Degi sem og í tímaritunum Sándi og Undirtónum. Umslag plötunnar fékk ennfremur almennt jákvæða athygli og heilmikið var lagt í smáu atriðin, t.a.m. var fjöldi strengjaleikara og blásara þeim til aðstoðar á plötunni. Mörg laganna fengu útvarpsspilun en segja má að lögin Allt sem þú lest er lygi og Kerfisbundin þrá séu stórsmellir plötunnar en einnig heyrðust lög eins og Dramafíkill. Í þessi sekúndubrot sem ég flýt varð með öðrum orðum stærsta plata sveitarinnar og var af öllum fjölmiðlum ein af ef ekki besta plata ársins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum eftir áramótin fékk vann sveitin til verðlauna í flokki trommuleikari ársins og textahöfundur ársins en alls hlaut hún sex tilnefningar.

Eftir áramótin 1999-2000 tók Maus lífinu tiltölulega rólega í bili, sveitin birtist þó um sumarið á tónlistarhátíðinni Reykjavik Music Festival og svo á samnorrænum tónleikum í Laugardalshöll en einnig munu þeir félagar hafa farið vestur um haf og spilað í Bandaríkjunum. Það er eftirtektarvert að Maus fór aldrei mikinn í yfirlýsingum um landvinninga erlendis heldur léku endrum og eins utan landsteinanna og höfðu ekkert endilega hátt um það, enda var það engin ávísun á frægð og frama í útlöndum þótt þeir léku þar stöku sinnum. Það er e.t.v. markverðast í sögu sveitarinnar aldamótaárið 2000 að hún sleit samstarfi sínu við Sprota (Skífuna) sem hafði gefið út þrjár síðustu plötur Maus.

Maus árið 1998

Í upphafi árs 2001 voru þeir Maus-liðar farnir að semja nýtt efni en engar fyrirætlanir voru þá um nýja plötu enda var sveitin án útgefanda. Í mars lék sveitin á sínum tvö hundruðustu tónleikum en þeir höfðu alltaf haldið nákvæmt bókhald yfir tónleikahald. Annars var sveitin nokkuð róleg í tíðinni, léku reyndar á Reykjavík mini festival og einnig kynntu þeir eitthvað af nýju efni á tónleikum. Maus hitaði síðan upp fyrir bresku sveitina Coldplay og lék á Iceland Airwaves um haustið en það höfðu þeir einnig gert haustið 2000. Sveitin kom því nokkuð reglulega fram þótt ekki færi hún endilega mikinn í þeim efnum.

Fljótlega á árinu 2002 var gefið út að heilmikið væri í gangi framundan hjá sveitinni, þeir áttu nýtt lag (Nánast ólöglegt) í kvikmyndinni Gemsum en það unnu þeir í samstarfi við Birgi Thoroddsen (Curver). Hugmyndin var að gefa lagið út á smáskífu í litlu upplagi ásamt aukaefni sem var í formi endurhljóðblandana, og coverlaginu Bás 12 sem hljómsveitin Þeyr hafði gefið út á sinni fyrstu plötu 1980. Hún kom svo út í febrúar, var gefin út í 199 tölusettum eintökum og seldist þ.a.l. upp á skömmum tíma. Reyndar var Maus þegar hér var komið sögu með efni tilbúið á heila breiðskífu en þar sem þeir voru án útgefanda voru þeir að vandræðast með það. Meðlimir sveitarinnar voru eitthvað að sinna öðrum verkefnum samhliða Maus, Birgir samdi t.a.m. tónlist fyrir leikritið Upprisu holdsins sem Stúdentaleikhúsið setti á svið um þær mundir.

Þar kom að Maus komst í samstarf við Þjóðverja sem vildu gefa nýja efnið út og svo fór að sveitin fór út til Dortmund til að taka upp næstu plötu sem var á ensku. Vinnubrögðin voru töluvert ólík því sem þeir voru vanir hér úr íslenska umhverfinu en í Þýskalandi gátu þeir einbeitt sér að fullu að verkefninu í þrjár vikur án utanaðkomandi truflana sem einkennir daglega rútínu hérlendis. Platan var að mestu tekin upp í þeirri törn en afgangurinn var síðan hljóðritaður í London. Sveitin hafði lítið spilað opinberlega framan af árinu 2002 en þeir bættu nokkuð úr því um haustið, léku hér heima á tónleikum en munu einnig hafa leikið í Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi.

Ráðgert hafði verið að nýja platan kæmi út um haustið en útgáfu hennar seinkaði af einhverjum ástæðum og því var ákveðið að hún kæmi út um vorið 2003 í staðinn. Framan af árinu 2003 lék Maus reglubundið, m.a. í London ásamt Botnleðju og þegar platan kom loksins út (í júní) var sveitin í ágætu spilaformi. Platan fékk nafnið Musick og þótti tónlistin enn hafa þróast en nú með þeim hætti að hún var orðin pínulítið pönkaðri en áður og ekki eins aðgengileg, Musick fékk þó ágæta dóma í tímaritinu Orðlaus og DV og frábæra í Morgunblaðinu, þokkalega í tímaritinu Sándi. Á henni var að finna lagið Kerfisbundin þrá í enskri útgáfu en platan var öll sungin á ensku eins og fyrr en getið. Smekkleysa gaf plötuna út hér heima en hún var einnig gefin út í Þýskalandi, á þessum tíma var Maus orðin tíu ára gömul sveit en meðlimir hennar voru engu að síður ekki nema um tuttugu og fimm ára gamlir, hoknir af reynslu í spilamennsku og hljóðversvinnu. Og eins og fyrri plötur hlaut Musick tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki plötu ársins auk tilnefningar fyrir myndband ársins (My favourite excuse ásamt Ragnari Hanssyni) en hlaut þó engin verðlaun þar að þessu sinni, platan var aukinheldur framarlega í ársuppgjörum fjölmiðla.

Maus

Árið 2004 var Maus nokkuð virk á tónlistarsviðinu, boðað var að safnplata kæmi út um haustið á vegum Skífunnar en þegar sveitin hafi sagt skilið við útgáfuna höfðu þeir gert samning sín á milli um plötuna. Platan kom svo út og var tvöföld, fyrri platan bar heitið Tónlyst 1994 – 2004 en sú síðari Lystaukar 1994 – 2004 en þær höfðu að geyma auk safn eldri laga sveitarinnar áður óútgefið aukaefni í formi endurhljóðblandana, demó-upptaka og tónleikaupptaka, meðal annars frá Músíktilraununum 1994, auk þess voru þar tilbúin lög sem ekki höfðu passað inn á fyrri plötur sveitarinnar og eitt nýtt lag, Over me, under me. Sveitin hélt upp á útgáfuna með tónleikum í Austurbæ en platan fékk ágæta dóma í DV og tímaritunum Orðlaus og Vamm.

Segja má að frá árinu 2004 hafi Maus smám saman farið að draga sig í hlé, sveitin var þarna farin að semja og vinna nýtt efni sem átti að birtast á næstu plötu en lengra hefur sú vinna líklega aldrei farið. Þeir Maus-verjar spiluðu lítið þetta árið en hituðu þó upp fyrir Placebo í Laugardalshöll um sumarið og léku á Iceland Airwaves um haustið, Birgir hafði þá flust um það leyti til London og var það hluti ástæðu þess að lítið fór fyrir sveitinni.

Meðlimir Maus voru ennfremur að vinna í öðrum verkefnum, Birgir og Daníel voru báðir að vinna að sólóverkefnum, Páll var á kafi í listaháskólanámi hér heima og erlendis, og Eggert flutti til San Fransisco þar sem hann bjó og starfaði um tíma þannig að frá og með vorinu 2005 má segja að sveitin hafi lagst í dvala um ófyrirséðan tíma án þess þó að vera hætt.

Þannig var hljótt um sveitina næstu árin en árið 2008 mun Maus hafa sent frá sér smáskífuna Cover my eyes í tilefni af fimmtán ára afmæli sveitarinnar, hins vegar finnast litlar sem engar heimildir um þessa skífu en í blaðaviðtali kváðust þeir félagar myndu gefa út lagið sem tekið hafði verið upp 2004, ásamt órafmögnuðum útgáfum af eldri Mauslögum. Engin opinber spilamennska var samhliða þessari útgáfu, einungis platan.

Fimm ár liðu uns næst heyrðist frá sveitinni en hún birtist um haustið 2013, þá stóð til að hún kæmi fram á afmælishátíð X-ins en ekkert varð úr því en hins vegar var Maus meðal sveita á tónlistarhátíðunum Secret solstice, Aldrei fór ég suður og Eistnaflugi vorið og sumarið 2014. Ári síðar steig sveitin á svið í fáein skipti, m.a. á Innipúkanum og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Haustið 2017 birtist sveitin enn eftir nokkurt hlé er hún spilaði á Iceland Airwaves og um svipað leyti kom út endurútgáfa á vínyl af plötunni Lof mér að falla að þínu eyra, í kjölfarið lék sveitin á einum tónleikum. 2018 lék sveitin á minningartónleikum og þannig hefur það verið síðustu árin, að hún birtist með reglulegum hætti til þess að minna á að hún er ekki hætt störfum en margir Maus aðdáendur munu vera langeygir eftir nýju efni frá sveitinni.

Maus er því í dag eins konar vinahópur sem hittist stöku sinnum til að vinna saman, þar er enginn leiðtogi og allir starfa þar á jafnréttisgrundvelli, semja tónlistina saman og koma fram þegar þeim hentar. Hún er klárlega ein af þeim sveitum sem eiga Músíktilraunum Tónabæjar mikið að þakka fyrir að koma þeim fram á sjónarsviðið, þó verður vinna þeirra sjálfra, tónlistin og textarnir sem halda munu nafni sveitarinnar á lofti.

Efni á plötum