Guðlaugur Falk (1959-2017)

Guðlaugur Falk

Gítarleikarinn Guðlaugur Falk (Gulli Falk) var nokkuð áberandi í íslensku rokki um tíma, vakti athygli með nokkrum hljómsveitum sínum og sendi frá sér sólóefni. Hann lést langt fyrir aldur fram eftir erfið veikindi.

Guðlaugur Auðunn Falk fæddist í Bandaríkjunum haustið 1959, hann átti íslenska móður en bandarískan föður. Fljótlega fluttist fjölskyldan til Ítalíu og var þar í þrjú ár en þá fluttist hann með móður sinni til Íslands og ólst að mestu leyti upp í Reykjavík. Guðlaugur fór aftur til Bandaríkjanna sextán ára gamall og bjó á árinum 1975 til 84 í Florida, þar hófst tónlistarferill hans en hann starfaði þar með sveitum eins og Oscar Wild og Black market.

Þegar Guðlaugur fluttist aftur heim til Íslands árið 1984 hóf hann fljótlega að starfa með hljómsveitum sem hann var sjálfur oftast í fararbroddi fyrir, fyrst er að telja hljómsveitina Áhrif en nafni þeirrar sveitar var fljótlega breytt í Fist – sú sveit flutti efni sem var að einhverju leyti samið af Gulla en hann hafði verið að semja tónlist frá sautján ára aldri. Fist varð síðan að hljómsveitinni C.o.t. (Chariot of thunder) sem gaf út eina smáskífu og var í raun ein útgáfa Þrumuvagnsins sem þá var verið að endurlífga með misheppnuðum árangri. Guðlaugur var þarna farinn að vekja nokkra athygli fyrir gítarfimi sína, hann hafði t.d. tekið þátt í hæfileikakeppni í skemmtistaðnum Safarí svo eftir var tekið. Kjarni sveitarinnar stofnaði síðan Exizt (X-izt) sem átti eftir að starfa næstu árin og senda frá sér tvær skífur.

Árið 1990 gekk Guðlaugur til liðs við mosfellsku sveitina Gildruna sem þá var að gefa út sína fjórðu breiðskífu, Ljósvakaleysingjarnir en hann hafði þá komið við sögu á henni, Guðlaugur starfaði þó ekki lengi með Gildrunni.

Exizt sendi frá sér tvær plötur sem fyrr segir, 1992 og 94 en Guðlaugur samdi megnið af efninu, frægðarsól sveitarinnar skein líklega hæst þegar hún hitaði upp fyrir Iron Maiden og síðan Black sabbath en sveitin reyndi einnig fyrir sér í Bandaríkjunum. Um miðjan tíunda áratuginn starfaði Guðlaugur með fleiri sveitum, Stálfélaginu, Tin og Volt en allar þessar sveitir léku rokk í þyngri kantinum.

Það var svo árið 1998 að Guðlaugur gaf út sólóplötuna Going to Paris undir merkinu Weird records. Hann naut á henni aðstoðar hljómsveitarinnar Dead sea apple og fékk platan ágæta dóma í Morgunblaðinu en hún þótti ekki eins þung og menn reiknuðu með. Ekki liður nema tvö ár uns önnur plata hans kom út, hún bar heitið Falk og var mun þyngri en fyrri platan. Falk hlaut einnig góða dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins. Í blaðaviðtali um þetta leyti kvaðst hann eiga um hundrað og fimmtíu samin lög. Um það leyti sem síðari platan kom út hélt Gulli tónleika þar sem hann lék efni af báðum plötunum og við það tækifæri kom Exizt fram á nýjan leik eftir nokkurt hlé.

Guðlaugur Falk

Á nýrri öld starfaði Guðlaugur með Fjandakorninu sem stofnuð hafði verið upp úr Exizt en síðan stofnaði hann hljómsveitina Dark harvest sem gaf út plötu samnefnda sveitinni árið 2006, á þeirri plötu samdi Guðlaugur allt efni og stjórnaði upptökum. Sú sveit starfaði næsta áratuginn við ágætan orðstír og samhliða henni starfaði Guðlaugur með annarri sveit, Audio nation sem gaf út eina plötu (2014), Dark harvest starfaði áfram og spilaði m.a. í Noregi en árið 2016 þegar sveitin kom fram á Eistnaflugi í Neskaupstað var Guðlaugur orðinn veikur af krabbameini og þá var orðið ljóst hvert stefndi. Rokksamfélagið tók vel við sér og haldnir voru styrktartónleikar fyrir Guðlaug á skemmtistaðnum Spot undir yfirskriftinni Falkfest en hann lést síðan sumarið 2017 fimmtíu og sjö ára gamall. Jarðarförin var all sérstök en hún var í formi eins konar rokktónleika í Háteigskirkju, fjöldi mótorhjóla mynduðu síðan líkfylgdina.

Guðlaugur hafði verið að vinna að þriðju sólóplötu sinni en hún kom síðan út vorið 2019 um einu og hálfu ári efti andlát hans, hinsta ósk Guðlaugs hafði verið sú að platan kæmi út en hún bar titilinn Kaffi Olé og var þrettán laga, Guðlaugur samdi lögin en textarnir eru eftir Gísla Brynjar Kristinsson. Upplýsingar um þessa plötu eru afar takmarkaðar en hún var einungis seld í gegnum Facebook.

Eftir Guðlaug Falk liggja því þrjár sólóbreiðskífur auk nokkurra platna hljómsveita sem hann starfaði með, Exizt, C.o.t., Audio nation og Dark harvest en á þeim öllum var Gulli fyrirferðamestur allra hvað tónlistina áhrærir.

Efni á plötum