Guðmundur Gauti (1928-77)

Guðmundur Óli Þorláksson

Guðmundur Óli Þorláksson, oft nefndur Guðmundur Gauti er líklega einn þekktasti Siglfirðingurinn í íslenskri tónlistarsögu þótt ekki væri hann reyndar innfæddur Siglfirðingur, það var hann sem söng upphaflega lagið Sem lindin tær sem naut mikilla vinsælda hér fyrrum og hefur síðan verið endurgert í nokkur skipti. Guðmundur var einnig þekktur hljómsveitamaður með Gautum og einsöngvari með Karlakórnum Vísi.

Guðmundur Óli fæddist á Gautastöðum í Austur-Fljótum sumarið 1928 en þegar megnið af þeirri jörð fór undir vatn vegna virkjanaframkvæmda fluttist fjölskyldan að Vestur-Fljótum og nefndu bæ sinn þar Gautlönd, það var því eðlilegt þegar Guðmundur og Þórhallur bróðir hans fóru að spila á dansleikjum þrettán og fjórtán ára gamlir í sveitinni á harmonikkur sínar, að þeir kölluðu sig Gautlandsræður. Foreldrar þeirra bræðra voru bæði músíkölsk, móðir þeirra þótti góð söngkona og faðirinn var organisti í sveitinni og því var ekki nema eðlilegt að þeir yrðu músíkantar, reyndar voru fleiri systkini þeirra músíkölsk en alls munu þau hafa verið tíu talsins.

Guðmundur nam trésmíðar, varð síðar trésmíðameistari og rak verkstæði um tíma en gerðist síðan forstöðumaður Sjúkrahússins á Siglufirði og gegndi því starfi frá 1968, þá hafði hann löngu fyrr flutt inn á Siglufjörð og bjó þar og starfaði til æviloka.

Þeir Gautlandsbræður Guðmundur og Þórhallur nutu nokkurra vinsælda í heimahéraði og svo fór að þeir bættu við sig manni og urðu að tríói, síðar bættist enn í hópinn og þá tóku þeir upp nafnið Gautar árið 1955 og störfuðu lengi undir því nafni þótt Gautlandsbræðra-nafnið loddi lengi við sveitina, þaðan kemur nafnið Guðmundur Gauti en hann kenndi sig þannig við hljómsveit sína og um leið við átthagana, Guðmundur lék á harmonikku og saxófón með Gautum og hann söng einnig með sveitinni en hann þótti hafa fallega og bjarta tenórrödd.

Guðmundur Gauti á bakhlið umslags sólóplötunnar

Gautar gáfu út smáskífu árið 1967 en áður hafði komið út breiðskífa með Karlakórnum Vísi þar sem sveitin kom allnokkuð við sögu. Guðmundur hafði starfað með Vísi um árabil og verið þar einsöngvari en á þessari plötu var hann einnig hluti af kvartett innan kórsins sem söng lagið Kveiktu ljós og naut nokkurra vinsælda, sá kvartett sendi frá sér árið 1968 fjögurra laga plötu undir nafninu Blandaður kvartett frá Siglufirði. Vísir varð landsþekktur karlakór undir stjórn Geirharðs Valtýssonar (Gerhard Schmidt) sem einnig var um tíma í Gautum, en kórinn fór m.a. í fræga söngferðir til Danmerkur og Frakklands.

Það var svo árið 1969 sem Vísir sendi frá sér breiðskífuna Okkar glaða söngvamál og á henni var stórsmellurinn Sem lindin tær eftir Bjarka Árnason, lag sem Guðmundur söng einsöng með kórfélögum sínum við undirleik nokkurra strengjaleikara úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og Gauta. Lagið er löngu orðið sígilt í meðförum Guðmundar en fleiri hafa spreytt sig á því og viðhaldið vinsældum þess s.s. Guðrún Gunnarsdóttir, Helgi Björnsson og ýmsir aðrir.

Guðmundur starfaði áfram með Gautum og Vísi en árið 1975 sendi hann frá sér tólf laga sólóplötu sem hlaut einfaldlega titilinn Guðmundur Gauti. Tónaútgáfan á Akureyri gaf þessa plötu út en enskir hljóðfæraleikarar önnuðust undirleikinn á lögunum sem öll voru erlend, höfðu notið vinsælda í flutningi Engelbert Humperdinck og Tom Jones eins og segir aftan á plötuumslaginu. Textarnir voru íslenskir og flestir eftir Herdísi Guðmundsdóttur, Bjarka Árnason og Iðunni Steinsdóttur.

Guðmundur náði ekki fimmtugs aldri, hann hlaut heilablæðingu og lést síðan eftir nokkur veikindi haustið 1977 aðeins fjörutíu og níu ára gamall. Lagið Sem lindin tær hefur þó haldið minningu hans nokkuð á lofti og nafn hans hefur síður en svo gleymst norðan heiða þar sem Gautar störfuðu langt fram eftir tíunda áratugnum. Fjórtán laga safnplata með söng Guðmundar var gefin út árið 2008 en þá hefði hann orðið áttræður, því miður er afar takmarkaðar upplýsingar að finna um þá plötuútgáfu og er hér með óskað eftir þeim.

Efni á plötum