Guðmundur R. Einarsson (1925-2014)

Guðmundur R. Einarsson

Tónlistarmaðurinn Guðmundur R. Einarsson á sér merkilega sögu í íslenskri tónlist, ekki aðeins var hann af fyrstu kynslóð trommuleikara hér á landi heldur var hann einnig básúnuleikari í fremstu röð og lék því jöfnum djass og klassík á ferli sínum.

Guðmundur Rósinkranz Einarsson fæddist í Reykjavík 1925, hann var yngri bróðir Björns R. Einarssonar sem einnig var þekktur tónlistarmaður og af Birni eru komnir fjölmargir þekktir tónlistarmenn, þá voru foreldrar þeirra bræðra tónlistarfólk einnig þótt þau störfuðu ekki við fagið. Guðmundur fékk snemma áhuga á tónlist og lærði sem barn á píanó, síðar lék hann á básúnu, klarinettu og flautur og raunar var sagt um hann að hann gæti leikið á flest öll hljóðfæri, trommuleikur varð þó aðal hljóðfæri hans framan af ævinni.

Guðmundur hóf ungur að safna plötum og hlustaði mikið á þær, einkum djass – þaðan kom trommuáhuginn en hann trommaði á stóla í fyrstu áður en hann eignaðist sitt fyrsta sett, hann var óskólagenginn í listinni enda varla um margs konar trommuleiðsögn að velja á árunum í kringum heimsstyrjöldina síðari. Heimildir eru um að Guðmundur hafi trommað með einhverri sveit tengt sunddeild Ármanns mjög ungur að árum en elstu haldbæru upplýsingarnar tengjast samstarfi hans við Björn bróður sinn en þeir voru farnir að spila saman haustið 1944, ekki liggur fyrir hverjir aðrir voru með þeim eða hvort um var að ræða sömu sveit og nefnd er hér að ofan, líklega var það eins konar harmonikkuband en Björn lék á nikku í því bandi, básúna var þó alltaf hans aðal hljóðfæri.

Það var svo í stríðslok haustið 1945 sem Björn stofnaði sveit í eigin nafni sem Guðmundur trommaði með í áratugi en hún lék í Listamannaskálanum fyrsta veturinn en svo víðar í bænum við miklar vinsældar, sveitin var gríðarlega vinsæl danshljómsveit en hefur einnig verið nefnd sem fyrsta alíslenska djasshljómsveitin því aðrar slíkar sveitir um þær mundir hérlendis höfðu að geyma erlenda hljóðfæraleikara einnig, hljómsveit Björns R. Einarssonar gekk einnig undir nafninu Dixielandhljómsveit Íslands. Samhliða spilamennsku með sveitinni starfræktu þrír meðlimir hennar (m.a. Guðmundur) um tíma GÁG tríóið sem var eins konar pásuband hinnar sveitarinnar en varðveittar eru upptökur með henni og komu þær út á plötu sem gefin var út í minningu Gunnars Ormslev árið 1983. Guðmundur hafði þá þegar mótað sér sinn eigin stíl sem hann nam og tileinkaði sér af plötum sem hann hlustaði á en hann þótti hafa nokkuð „svartan“ spilastíl og var fyrstur til að tileinka sér þann stíl hér á landi. Þess má geta að hann var margoft kjörinn besti trommuleikari landsins á þessum árum en slíkar kosningar voru langtum algengari hér áður en síðar varð.

Guðmundur við settið á sínum yngri árum

Guðmundur lék með ýmsum fleiri sveitum á þessum árum þótt hljómsveit Björns hafi verið aðalsveit hans, margar þeirra sveita voru skammlífar og sumar jafnvel settar saman af einhverju sérstöku tilefni fyrir eina eða fáar uppákomur, þannig spilaði hann t.d. á tónleikum með djassleikurunum Tyree Glenn básúnuleikara og Lee Konitz saxófónleikara sem komu til landsins árið 1951 en það var í fyrsta sinn sem hljómsveit var sett sérstaklega saman til að leika með erlendum tónlistarmönnum af þessu tagi. Upptökur frá þeim tónleikum voru gefnar út á sömu plötu og nefnd er hér að ofan. Í kringum 1950 lék Guðmundur með Kvintett Gunnars Ormslev og einnig með fleiri sveitum, sumarið 1953 var hann með eigin sveit um tíma og árið 1954 lék hann t.d. með BG kvintettnum en sú sveit var eitthvað tengd hljómsveit Björns R. bróður hans, leik hennar má heyra á einni tveggja laga plötu með Öddu Örnólfs (1955), áður hafði hljómsveit Björns R. leikið á plötu með Alfreð Clausen og Gunnari Ormslev og annarri skráða á Björn R. sjálfan það sama ár (1952). Í lok sjötta áratugarins lék Guðmundur með Neo sem var til í nokkrum misstórum útgáfum, tríó undir því nafni lék með Helenu Eyjólfsdóttur á plötu árið 1959 en á þeirri plötu syngur hann bakraddir, en Guðmundur þótti liðtækur söngvari einnig. Þá lék hann um svipað leyti einnig með Hljómsveit Jose Riba á einhverjum tímapunkti og einnig Hljómsveit Magnús Péturssonar um tíma.

Guðmundur lék með hljómsveit Ólafs Gauks á plötu með Ómari Ragnarssyni árið 1963 og síðar átti hann eftir að ganga til liðs við Gaukinn sem þá nefndi sveit sína Sextett Ólafs Gauks, þá lék Guðmundur einnig inn á plötu með þeirri sveit. Um svipað leyti (1966) lék hann einnig á lítilli plötu með harmonikkuleikaranum Gretti Björnssyni en eftir það dró hann sig nokkuð í hlé frá hljómsveitaspilamennsku, hann var á hinn bóginn þá farinn að kenna við Tónskóla Sigursveins og þótti framúrskarandi kennari.

Næstu árin fór minna fyrir Guðmundi í poppinu en þess í stað helgaði hann sig starfi sínu sem básúnuleikari við hlið Björns bróður síns í Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem hann lék mestmegnis klassík, í á þriðja áratug. Með sinfóníuhljómsveitinni lék hann á fjölda tónleika og platna af ýmsu tagi en hann var þar út sinn starfsaldur. Samhliða starfi sínu í Sinfóníuhljómsveit Íslands lék hann lengi vel með Lúðrasveit Reykjavíkur og vann einnig nokkuð við session trommuspilamennsku einkum á áttunda áratugnum en þá lék hann t.a.m. inn á plötur með áðurnefndum Gretti Björnssyni, Braga Hlíðberg, Gísla Rúnari Jónssyni, Diddú og Agli, Ása í Bæ og Mannakornum en með síðast töldu sveitinni spilaði hann Braggablús með nokkrum „gömlum hundum“. Meðal annarra platna síðar má nefna flytjendur eins og Ellen Kristjánsdóttur, Tómas R. Einarsson, KK og Magnús Eiríksson, Bjarna Sigurðsson frá Geysi, Gus gus og Ríkarð Örn Pálsson en Guðmundur lék inn á plötur til ársins 2007 að minnsta kosti, einnig má nefna plötur eins og þá sem hafði að geyma tónlistina úr svokallaðri Dægurlagakeppni á Hótel Borg og aðra með Félagi harmonikuunnendum.

Á forsíðu Jazzblaðsins

Það var svo í kringum 1980 sem trommuleikarinn Guðmundur birtist á nýjan leik með hljómsveitum en það var þá mestmegnis djasstengt enda hafði félagsskapur eins og Jazzvakning verið stofnaður nokkrum árum áður með tilheyrandi vakningu og tónleikahaldi í kjölfarið næstu áratugina. Guðmundur starfaði með fjölmörgum misstórum djasssveitum og hér má nefna Bigband ´81, djasssveitir Kristjáns Magnússonar, Sveifluvaktina, Sunnan sex, hljómsveit Friðriks Theódóssonar, Básúnukvartettinn, Tradkompaníið, Tríó Egils B. Hreinssonar og síðast en ekki síst Tríó Ólafs Stephensen sem starfaði á árunum 1989 til 2005, sendi frá sér þrjár plötur og lék á um fimm hundruð tónleikum hér á landi sem erlendis.

Á árunum eftir 2000 var nokkuð farið að hægjast á spilamennskunni hjá Guðmundi enda var hann þá kominn á áttræðis aldur, hann var þó lengi vel öflugur í félagsstarfi eldri borgara í Garðabæ þar sem hann bjó en lagði þar meiri rækt við blásturshljóðfærin en trommusettið. Hann lést haustið 2014 rétt tæplega níræður að aldri.

Guðmundur var sem fyrr segir einn allra fyrsti trommuleikari landsins og sá alfyrsti sem tileinkaði sér þann nýja stíl sem þá var að ryðja sér til rúms og varð síðar allsráðandi, en í honum má segja að hafi búið tveir tónlistarmenn, trommuleikarinn og básúnuleikarinn. En Guðmundur hafði listhæfileika á öðrum sviðum einnig, hann málaði t.a.m. myndir og tók ljósmyndir þannig að listfengi hans lá víðar en í tónlistinni einni.