Gunnar Óskarsson [2] (1959-)

Gunnar Óskarsson

Gunnar Óskarsson var nær algjörlega óþekktur tónlistarmaður búsettur í Þorlákshöfn þegar hann sendi frá sér plötuna Blankalogn árið 1986 en eitt laga hennar náði miklum vinsældum.

Gunnar (f. 1959) mun hafa leikið eitthvað með danshljómsveitum áður en platan kom út en upplýsingar um tónlistarferil hans eru afar takmarkaðar. Hann hafði samið lög og texta um árabil þegar hann ákvað að fá Ólaf Þórarinsson (Labba í Mánum) til að hljóðrita plötuna Blankalogn með lögum sínum en Ólafur rak þá hljóðver í Glóru í Hraungerðishreppi. Það var svo líklega fyrir tilstuðlan hans að nokkrir þekktir tónlistarmenn komu við sögu plötunnar, þeirra á meðal voru söngvararnir Pálmi Gunnarsson og Eiríkur Hauksson en einnig sungu Ólafur Backmann og Sigurður Dagbjartsson á plötunni auk Gunnars sjálfs sem söng tvö lög.

Platan kom út sumarið 1986 og vakti ekki mikla athygli en eitt laga hennar, upphafslagið Götustelpan sungið af Pálma Gunnarssyni varð óvæntur vinsældarsmellur þetta sumar og var í margar vikur á vinsældarlista Rásar 2, og heyrist enn stöku sinnum leikið í útvarpi. Einn dómur birtist um plötuna en hún hlaut þokkalega krítik í Þjóðviljanum, textasmíðar Gunnars þóttu þó fremur ódýrar.

Engar heimildir finnast um frekari tilraunir Gunnars til að slá í gegn og hann virðist heldur ekki hafa leikið með hljómsveitum eftir þessa fimmtán mínútna frægð um miðbik níunda áratugarins.

Efni á plötum