Gunnar Thoroddsen (1910-83)

Gunnar Thoroddsen

Stjórnmálaskörungurinn Gunnar Thoroddsen kom víða við í heimi stjórnmálanna á sínum tíma en hann var jafnframt áhugamaður um tónlist og aðra menningu, og samdi tónlist sjálfur sem komið hefur út á plötum.

Gunnar Sigurðsson Thoroddsen fæddist í Reykjavík 1910, hann lauk lögfræðinámi, starfaði sem lögfræðingur og síðar hæstaréttardómari og gegndi um tíma prófessastöðu við Háskóla Íslands eftir að hafa lokið doktorsnámi. Hann fór síðan út í stjórnmálin, var sjálfstæðismaður og naut vinsælda en var umdeildur í þeim heimi, þar var hann m.a. forsætisráðherra í eigin ríkisstjórn, starfaði sem fjármálaráðherra og iðnaðar- og félagsmálaráðherra einnig, gegndi borgarstjóraembættinu lengi og bauð sig fram til embættis forseta Íslands þar sem hann þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Kristjáni Eldjárn. Þá var hann einnig um tíma sendiherra Íslands í Danmörku. Gunnar lést haustið 1983 eftir veikindi, á sjötugasta og þriðja aldursári.

Gunnar var mikill áhugamaður um tónlist, lék sjálfur á píanó og samdi fjölmörg sönglög um ævina. Hann var ekki beinlínis þekktur fyrir þetta áhugamál sitt en um það leyti sem hann veiktist hóf hann að vinna plötu með tónlist eftir sjálfan sig. Honum auðnaðist ekki að ljúka henni áður en hann lést en hún var síðan kláruð og gefin út af Fálkanum að honum látnum fyrir jólin 1983. Platan bar titilinn Tónlist Gunnars Thoroddsen og á henni fluttu ýmsir þekktir tónlistarmenn tónlist hans, þeirra á meðal voru Gísli Magnússon píanóleikari, Karlakórinn Stefnir, Lúðrasveit Reykjavíkur, Dómkórinn í Reykjavík og söngvararnir Kristinn Sigmundsson og Sigríður Ella Magnúsdóttir svo nokkur dæmi séu nefnd, alls sextán lög. Aftan á plötumslaginu ritaði Ólafur Ragnarsson nokkur orð en hann hafði einmitt skrifað samtalsbók um Gunnar fáeinum árum áður, Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur (og síðar forseti Íslands) ritaði aðra bók um hann sem kom út 2020, platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Mörgum árum síðar, 1999 gaf frændi Gunnars, gítarleikarinn Björn Thoroddsen út aðra plötu með tónlist hans sem hann útsetti sjálfur og stjórnaði upptökum á. Hún hét Hvar sem sólin skín: Björn Thoroddsen leikur lög Gunnars Thoroddsen og var gefin út af Vöku-Helgafelli, sú plata hlaut einnig ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Fáein lög eftir Gunnar hafa komið út á öðrum útgáfum, m.a. með Karlakórnum Heimi á plötunni Dísir vorsins (1995), á plötunni Guitar Islancio II með samnefndri sveit (2000) og með Friðbirni Jónssyni á kórasafnplötunni Hvar söngur ómar (1984).

Þess má geta að sjóður var á sínum tíma stofnaður í minningu Gunnars Thoroddsen og hafa tónlistarmenn fengið úthlutað styrkjum úr honum, þeirra á meðal má nefna Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara og Gunnar Guðbjörnsson söngvara.

Efni á plötum