Fálkinn [útgáfufyrirtæki] (1930-86)

Hljómplötudeild Fálkans við Laugaveg

Hljómplötuútgáfan Fálkinn á sér langa og merka sögu í íslenskri tónlist og hefur gefið út flesta plötutitla allra útgáfufyrirtækja á Íslandi. Fyrirtækið er enn starfandi þótt hljómplötuútgáfa hafi verið fyrir löngu síðan verið lögð af hjá því.

Það var trésmiðurinn Ólafur Magnússon sem stofnaði fyrirtækið árið 1904 en hann hóf þá reiðhjólaviðgerðir gegn greiðslu á heimili sínu við Skólavörðustíg. Fyrirtækið varð smám saman stærra í sniðum, hann hóf innflutning á reiðhjólum, skellinöðrum og bílum og fleiri deildir bættust við. Árið 1924 keypti Ólafur reiðhjólaverkstæðið Fálkann og sameinaði sínu fyrirtæki og gekk það síðan undir því nafni. Heimilistækja-, leikfanga- og véladeildir bættust við fyrirtækið sem stækkaði óðum, lengi vel með bækistöðvar á Laugaveginum á nokkrum stöðum og síðan í stórhýsi sem fyrirtækið lét reisa á Suðurlandsbraut og var tekið í notkun laust fyrir 1970. Fálkinn er í dag staðsettur á Dalvegi í Kópavogi.

Börn Ólafs hófu störf í Fálkanum eftir því sem þeir eltust og fyrirtækið dafnaði, og þegar Haraldur (næst elsta systkinið af níu talsins) kom til sögunnar var hljómplötudeild stofnuð innan þess árið 1925 en hann hafði verið við nám í Þýskalandi og kynnst þar hljómplötum og grammófónum og hafði mikinn áhuga á tónlist, hann var t.d. meðal stofnenda Lúðrasveitar Reykjavíkur. Hljómplötudeildin varð strax öflug deild enda nutu plöturnar mikilla vinsælda en mest var flutt inn af klassískri tónlist lengi vel. Haraldur hafði í upphafi keypt um sex hundruð plötur frá Þýskalandi og svo kom hann á samböndum við Columbia fyrirtækið og keypti plötur frá Bretlandi, samhliða því flutti hann einnig inn grammófóna.

Á stríðsárunum

Það var svo árið 1930 sem hin eiginlega hljómplötuútgáfa hófst en Haraldur fékk þá tvo tæknimenn frá Columbia til að koma hingað til lands til að hljóðrita tónlist í tilefni af Alþingishátíðinni sem haldin var á Þingvöllum um sumarið. Upphaflega hafði verið ætlunin að taka tónlistina upp á Þingvöllum en veður og aðstæður leyfðu það engan veginn og því var ákveðið að upptökur færu fram í samkomuhúsinu Bárunni við Tjörnina (þar sem Ráðhús Reykjavíkur stendur í dag). Þar flutti fjöldi íslenskra listamanna, kórar, einsöngvarar og hljóðfæraleikararar tónlist sína sem síðan var gefin út á milli sextíu og sjötíu 78 snúninga hljómplötum. Sigurður Skagfield, Hljómsveit Reykjavíkur, Hreinn Pálsson, Sigurður Markan, Marta Kalman og fleiri voru meðal flytjenda. Þetta voru fyrstu hljómplöturnar sem voru hljóðritaðar og gefnar út hér á landi og lengi vel var Fálkinn eini hljómplötuútgefandinn hérlendis.

Fálkinn varð árið 1931 umboðsaðili EMI (sem Columbia og Gramophone höfðu þá sameinast undir) en Odeon, HMW (His masters voice) og Parlophone höfðu fyrir verið hluti af EMI, plötur Fálkans báru því fyrrgreind merki á plötumiðum sínum og -umslögum allt til ársins 1976 þegar merki Fálkans sjálfs tók við.

Ríkisútvarpið hafði verið sett á laggirnar 1930 og fljótlega eftir það var ljóst að skortur væri á íslensku tónlistarefni á hljómplötum, það varð því úr að leitað var eftir því til Fálkans að fá aftur upptökumenn til landsins frá Columbia. Það varð út að þeir komu sumarið 1933 og í kjölfarið komu út um hundrað plötur á vegum Fálkans, mestmegnis kórsöngur og klassík, þær plötur voru hljóðritaðar í Reykjavík, Akureyri og Siglufirði. Plötusala var því mikil hjá Fálkanum á þessum árum þrátt fyrir kreppuna en þegar styrjaldarárin gengu í garð má segja að plötuútgáfa hafi að mestu legið niðri, mestmegnis vegna hráefnisskorts.

Fálkinn við Suðurlandsbraut

Fálkinn hafði byggt stórt húsnæði við Laugaveg sem tekið var í notkun árið 1948 (sama ár og fyrirtækið varð hlutafélag) og þar var langstærsta plötuverslun landsins þar sem m.a. var hægt að hlusta á plötur í einangruðum hlustunarklefum. Plöturnar nutu sem fyrr segir mikilla vinsælda og í fyrstu var algengt upplag platnanna um fimm hundruð eintök en síðar urðu þau mun stærri og stundum um tvö þúsund eintaka upplög sem jafnvel seldust upp á skömmum tíma. Einhverjar plötur Fálkans fóru jafnframt í dreifingu erlendis og þegar 45 snúninga plöturnar birtust um miðjan sjötta áratuginn voru sumar plöturnar beinlínis gefnar út til dreifingar í útlöndum.

45 snúninga plöturnar (svonefndar sjö tommur) breyttu miklu þegar þær komu til sögunnar og þá fóru að fylgja með áprentuð plötuumslög sem ekki höfðu verið með 78 snúninga plötunum. Með sjö tommu plötunum hófst útgáfa Fálkans á dægurtónlist þess tíma og tónlistarfólk eins og Erla Þorsteins, Haukur Morthens, Guðmundur Jónsson og Guðrún Á. Símonar komu til sögunnar. Árið 1956 keypti Fálkinn svo útgáfuréttinn af Tóniku sem Svavar Gests og Kristján Kristjánsson (KK) höfðu þá starfrækt um þriggja ára skeið. Síðar eignaðist Fálkinn einnig útgáfuréttinn af efni SG-hljómplatna og Íslenzkra tóna.

Breiðskífurnar (33 snúninga plötur) voru þá einnig að ryðja sér til rúms og fyrir jólin 1952 varð Fálkinn fyrstur til að flytja slíkar plötur inn, fimm ár liðu hins vegar uns fyrsta íslenska 33 snúninga platan leit dagsins ljós en það var plata með píanóleik Gísla Magnússonar. Sú plata var reyndar tíu tomma að stærð eins og 78 snúninga plöturnar höfðu verið en yfirleitt voru breiðskífurnar tólf tommur.

Frá 1976 var Fálkinn með eigin plötumiða

Með breiðskífunum komu út plötur með ólíkum listamönnum eins og Ríó tríó, Trúbrot, Engel Lund, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Heimi & Jónas, Fræbbblunum, Óðmönnum og Karlakór Reykjavíkur en Fálkinn var einnig alla tíð öflugt í útgáfu óhefðbundinna hljómplatna s.s. með leikritum, barnaefni, stjórnmálaskörungum og þjóðskáldunum þar sem þeir lásu ljóð sín og verk.

Sem fyrr segir gaf Fálkinn út plötur á eigin merki frá árinu 1976 og þar til síðasta platan kom út áratug síðar, það var tvöfalda safnplatan Rökkurtónar og sama vor (1986) kom síðasta smáskífan (45 sn. platan) út, það var Gleðibankinn/Bank of fun með Icy hópnum – fyrsta framlag Íslands í Eurovision.

Árið 1986 eignuðust erfingjar Haraldar Ólafssonar (sem hafði lést 1984) hljómtækja- og hljómplötudeildir Fálkans og um leið útgáfuréttinn á katalóg fyritækisins (og þar með megnið af útgáfurétti íslenskrar tónlistar), og stofnuðu í kjölfarið hljómplötuútgáfuna Takt sem starfaði um tíma. Skífan eignaðist réttinn síðar, svo Sena og þegar þetta er ritað á Alda music útgáfuréttinn af allri þeirri tónlist.

Þar með lauk ríflega hálfrar aldar útgáfusögu Fálkans, ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir titlar komu út undir merkjum fyrirtækisins en þeir skiptu mörg hundruðum.