Félag harmonikuunnenda Norðfirði [félagsskapur] (1980-)

Merki félagsins

Félag harmonikuunnenda Norðfirði var eitt af fjölmörgum harmonikkufélögum sem stofnuð voru í þeirri vakningu sem varð í kringum 1980 en félagið var stofnað um vorið 1980.

Félagið starfar að öllum líkindum ennþá og hefur haft nokkra fasta punkta í dagskrá sinni yfir árið en félagar úr hópnum hafa leikið opinberlega fyrir jólin, á 1. maí-hátíðarhöldum og um sjómannadagshelgina svo nokkur dæmi séu nefnd, og hefur haldið landsmót harmonikkuleikara í eitt skipti – árið 2005, á tuttugu og fimm ára afmæli félagsins. Félagið hefur jafnframt tvívegis staðið fyrir skemmtiferðum til Færeyja.

Ómar Skarphéðinsson, Guðmundur Skúlason, Sigurður Rúnar Ragnarsson og Ólafía Elín Ólafsdóttir hafa öll gegnt formannsembætti í Félagi harmonikuunnenda Norðfirði en þau eru hugsanlega fleiri sem gegnt hafa því starfi, upplýsingar þess efnis má gjarnan senda Glatkistunni.