Finnur Eydal (1940-96)

Finnur Eydal

Tónlistarmaðurinn Finnur Eydal er ásamt eldri bróður sínum Ingimari meðal þekktustu sona Akureyrar en þeir bræður skemmtu heimamönnum og öðrum með ýmsum tónlistarlegum hætti um áratuga skeið, saman og í sitt hvoru lagi.

Finnur Eydal fæddist vorið 1940 á Akureyri fáeinum vikum áður en Bretar hernámu land hér í heimsstyrjöldinni síðari og breyttu öllu, m.a. tónlistinni en segja má að djasstónlistin hafi komið með þeim og áhugann á henni hafi Finnur þá fengið í vöggugjöf.

Hann var sjö ára farinn að læra á píanó og fjórum árum síðar einnig á klarinettu en Jose Riba var hans fyrsti klarinettukennari. Hann var um svipað leyti farinn að leika með oktett Lúðrasveitar Akureyrar og lék því nokkuð oft opinberlega á æskulýðsfundum og svo einnig á stærri samkomum. Hann var þá einnig farinn að spila nokkuð með Ingimari bróður sínum og sumarið 1953 léku þeir bræður við fjórða menn um helgar á Hótel Brúarlundi sem þá stóð í Vaglaskógi, það var fyrsti vísir að Hljómsveit Ingimars Eydal.

Finnur var aðeins um fjórtán ára gamall þegar hann ásamt Ingimari fór til vetrardvalar í Reykjavík til tónlistarnáms en þar hóf hann einnig að stunda samkomur Jazzklúbbs Reykjavíkur og tók m.a.s. þátt í jam-sessionum næstu veturna, hugsanlega hafði hann þó áður kynnst djassinum norðan heiða en árið 1952 var starfræktur slíkur klúbbur á Akureyri. Veturinn 1956-57 lék hann með Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar á Borginni og Hljómsveit Svavars Gests í Sjálfstæðishúsinu (síðar Nasa). Í þessum sveitum lék hann líklega bæði á saxófón og klarinettu, einnig bassaklarinettu.

Það var svo sumarið 1958 sem þeir Finnur og Ingimar stofnuðu Atlantic kvartettinn sem starfaði næstu fjögur sumur á Akureyri en Finnur var þá sunnan heiða á veturna, sú sveit átti eftir að vekja landsathygli og ekki síst fyrir framlag söngvara sveitarinnar, Helenu Eyjólfsdóttur og Óðins Valdimarssonar en átta litlar plötur komu út með sveitinni á árunum 1958-60 þar sem þau sungu hvern stórsmellinn á fætur öðrum, Manstu ekki vinur, Útlaginn, Einsi kaldi úr Eyjunum, Ég skemmti mér o.fl. Ein tveggja laga plata kom einnig út með úrvali tónlistarmanna undir stjórn Finns undir heitinu Icelandic All star þar sem hann blés sjálfur í klarinettu og Helena söng, sú plata fékk dreifingu einnig erlendis. Þar með var Finnur orðinn landsþekktur tónlistarmaður um tvítugt og hafði þá áralanga reynslu úr tónlistarheiminum, þau Helena voru um þetta leyti orðin kærustupar og gengu síðan í hjónaband sumarið 1961.

Helena og Finnur

Á veturna fyrir sunnan léku Finnur og Helena með ýmsum nafntoguðum sveitum næstu misserin, með KK-sextettnum, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og Hljómsveit Svavars Gests en með síðast töldu sveitinni lék Finnur inn á eina plötu. Hann var einnig virkur í djasslífinu á höfuðborgarsvæðinu og var m.a. með plötukynningar í Jazzklúbbi Reykjavíkur en hann átti þá þegar orðið gott safn platna, sem taldi líklega þegar mest var síðar um fimmtán þúsund plötur – margar fágætar 78 snúninga. Finnur var þarna orðinn einn af fremstu blásurum landsins, lék á saxófóna og klarinettur sem fyrr segir en baritón saxófónninn varð hans aðalsmerki og er hann einn fárra hér á landi sem lagt hafa aðal áherslu á það hljóðfæri.

Haustið 1960 stofnaði Finnur hljómsveit í eigin nafni sem starfaði um veturinn í Reykjavík, fyrst í Silfurtunglinu og svo í Stork-klúbbnum, Glaumbæ og víðar, og veturinn þar á eftir lék sveitin hins vegar mikið suður á Keflavíkurflugvelli enda var hún töluvert djössuð. Ein plata kom út með sveitinni, fjögurra laga skífa sem bar yfirskriftina Lögin úr „Allra meina bót“ en meðal laganna fjögurra var Bjórkjallarinn sem varð þarna eins konar einkennislag Finns og hljómsveitar hans, og naut töluverðra vinsælda. Veturinn eftir það (1961-62) störfuðu þau hjón með Hljómsveit Svavars Gests í Lídó en veturinn þar á eftir var hann aftur með eigin sveit í Þjóðleikhúskjallaranum sem ýmist var kölluð Hljómsveit Finns Eydal eða Tríó Finns Eydal, sú sveit starfaði reyndar fram að áramótum 1964-65. Samhliða þessari spilamennsku fékkst Finnur við tónlistarkennslu syðra.

Finnur Eydal

Það var svo vorið 1966 sem tímamót urðu í lífi þeirra Finns og Helenu en þá fluttu þau norður til Akureyrar þar sem þau áttu eftir að búa síðan, þar gekk hann til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal sem hafði notið gríðarmikilla vinsælda árin á undan með Vilhjálm Vilhjálmsson og Þorvald Halldórsson sem söngvara, og ári síðar bættist Helena einnig í sveitina. Þau hjónin störfuðu með Ingimari til ársins 1976 og á þeim tíma sendi sveitin frá sér fjölda lítilla platna og tvær breiðskífur auk jólaplötu ásamt Kirkjukór Akureyrar en þeir bræður fóru mikinn í akureysku tónlistar- og menningarlífi á þessum árum. Saxófón- og klarinettuleikur Finns setti mikinn svip á tónlist sveitarinnar og sum laganna nutu vinsælda beinlínis vegna hans, hann kom einnig fram sem lagahöfundur á þessum árum þótt ekki væru útgefin lög hans mörg. Sveitin lék mikið á dansleikjum, mest á Sjallaslóðum en einnig sunnan heiða og jafnvel erlendis í nokkur skipti.

Samhliða spilamennsku með Ingimari kom Finnur við sögu á einhverjum leiksýningum hjá Leikfélagi Akureyrar sem undirleikari næstu árin og eitthvað lék hann á plötum annarra listamanna s.s. Bjarka Tryggvasonar, Hörpu Gunnarsdóttur, Hljómsveitar Geirmundar Valtýssonar, Kórs Barnaskóla Akureyrar, Óðins Valdimarssonar og hljómsveitarinnar Eglu, reyndar kom hljómsveitin öll við sögu á sumum þessara platna.

Finnur hafði bætt við sig fagotti sem hann lærði á fyrir norðan, hann nam einnig prentiðn en hann hafði lokið námi 1974 og starfaði um tíma við prentverk en síðan einnig við að sníða hjá mokkaskinnadeildinni Heklu (á vegum Sambandsins). Hann starfaði því ekki einvörðungu við tónlistina og þegar Hljómsveit Ingimars hætti störfum 1976 í kjölfar bílslyss sem Ingimar lenti í liðu einhverjir mánuðir að hann starfaði ekki neinni hljómsveit en það hafði líklega ekki gerst síðan hann var á unglingsaldri. Þegar Ingimar komst aftur á ról stofnaði hann djasskvartett sem spilaði töluvert á djasssamkomum en hún bar nafnið Ingimar Eydal og félagar, Finnur lék að sjálfsögðu í þeirri sveit.

Það fór svo að Finnur stofnaði nýja Hljómsveit Finns Eydal haustið 1977 sem starfaði næstu árin, sú sveit tók að nokkru leyti við þeirri eftirspurn sem sveit Ingimars hafði skilið eftir sig og lék t.a.m. töluvert í Sjallanum á Akureyri en einnig annars staðar á Norðurlandi sem og á böllum fyrir sunnan, jafnvel sveitaböllum. Sveitin sendi frá sér breiðskífuna Kátir dagar árið 1980 og þar var m.a. að finna áðurnefndan Bjórkjallara sem Finnur hafði leikið inn á plötu um tveimur áratugum fyrr. Með sveitinni lék Finnur eitthvað á bassa en það hafði hann reyndar lítillega gert með einhverjum fyrri sveita einna. Um þetta leyti höfðu þau hjónin leikið og sungið inn á annað hundrað platna og komið fram í um tuttugu sjónvarpsþáttum.

Blásið í rör

Árið 1981 hóf Finnur Eydal að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri og það átti hann eftir að hafa að aðalstarfi út ævina en minnkaði jafnframt við sig í spilamennskunni, hljómsveit hans starfaði þó eitthvað áfram og líklega fram yfir miðjan níunda áratuginn, m.a. lék sveitin fimm sumur í röð á Hótel Sögu í Reykjavík. Þau Helena voru hins vegar oft kölluð til á níunda og tíunda áratugnum þegar rokksýningarnar svokölluðu komu til sögunnar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og síðan einnig fyrir norðan og á einni slíkri sýningu var Hljómsveit Ingimars Eydal endurreist.

Djasstónlistin fékk sífellt meira vægi hjá Finni og þegar Jazzklúbbur Akureyrar var stofnaður í bænum voru þeir bræður framarlega í þeirri vakningu, bæði félagsstörfum og spilamennsku. Hann kom þá á fót stórsveitum innan tónlistarskólans og stjórnaði þeim sem og hljómsveitum yngri nemenda við skólann. Finnur kom jafnframt oft til Reykjavíkur til að leika djass með kollegum sínum sunnanlands.

En áföll áttu eftir að dynja yfir á næstu árum og svo fór að Finnur þurfti smám saman að draga sig út úr tónlistinni þótt hann sinnti henni áfram eftir mætti. Um miðjan níunda áratuginn fékk hann krabbamein undir tungunni og þá var ekki endilega reiknað með að hann myndi blása meira í hljóðfæri, hann sigraðist þó á meininu og kom sér upp aðferð með mikilli æfingu til að spila og margir hefðu ekki getað heyrt mun á spilamennsku hans fyrir og eftir. Meiri veikindi fylgdu þó í kjölfarið, hann fékk aftur sams konar mein og nú í ristilinn sem þurfti að fjarlægja, og þá var einnig ljóst að nýru hans störfuðu ekki eðlilega og því þurfti hann að fara þrjár ferðir í vikur suður til Reykjavíkur í nýrnavél.

Finnur um 1995

Samhliða þessum veikindum starfaði hann áfram við tónlistarkennslu og eitthvað við spilamennsku á sviði en þurfti eðlilega að minnka við sig einkum vegna alls þess tíma sem fór í ferðir suður til Reykjavíkur. Aðstæður bötnuðu þó þegar hann fékk nýrnavél heim til sín norður og þar sá Helena um að meðhöndla hann, Zonta-klúbbur Akureyrar og Jazzvakning komu til hjálpar til að fjármagna dæmið með tónleikahaldi í Sjallanum á Akureyri og Hótel Sögu í Reykjavík til að létta undir með þeim.

Þrátt fyrir veikindi sín hafði Finnur enn stofnað hljómsveit í eigin nafni sem starfaði til ársins 1993 en sú sveit lék reyndar ekki oft, einnig kom hann eitthvað fram áfram, var m.a. að djassa, þá kom hann fram með Gleðigjöfunum í Reykjavík sem og á styrktartónleikum og minningartónleikum um Ingimar bróður hans í október 1996 sem þá hefði orðið sextugur en hann hafði látist þremur árum fyrr, á þeim tónleikum lék hann Bjórkjallarann í síðasta sinn.

Rétt um mánuði eftir minningartónleikana um Ingimar lést Finnur sjálfur eftir heilablóðfall, í nóvember 1996. Þar með voru þeir bræður báðir látnir eftir erfið veikindi, og er þeirra enn minnst sem eins konar samnefnara fyrir akureyskt tónlistarlíf um margra áratuga skeið.

Hljóðfæraleik Finns má heyra á fjölda platna sem komið hafa út í gegnum tíðina og tónlistina má einnig heyra á safnplötum sem geyma lög Hljómsveitar Ingimars Eydal, Hljómsveitar Finns Eydal, Atlantic kvartettsins o.fl. Heilmikið mun einnig vera til af óútgefnum hljóðritunum sem geyma saxófón- og klarinettuleik Finns frá tónleikum og víðar, og e.t.v. mun eitthvað af því efni einhvern tímann líta dagsins ljós opinberlega.