Frænka hreppstjórans (1991-2005)

Frænka hreppstjórans

Hljómsveit að nafni Frænka hreppstjórans starfaði um alllangt skeið að Laugum í Reykjadal þar sem hjónin Björn Þórarinsson skólastjóri tónlistarskólans á staðnum og Sigríður Birna Guðjónsdóttir tónlistarkennari bjuggu. Þau höfðu áður starfað með fjölda hljómsveita á Suðurlandi.

Sveitin var stofnuð í árslok 1990 og var í upphafi tríó þeirra hjóna og Ólafs Arngrímssonar skólastjóra grunnskólans á staðnum en sveitin hét þá fullu nafni Skólastjórar og frænka hreppstjórans. Fljótlega varð nafnið Frænka hreppstjórans ofan á.

Frænka hreppstjórans sérhæfði sig í tónlist fyrir þorrablót, árshátíðir og þess konar samkomur og lék líklega nánast eingöngu á Norðurlandi meðan hún starfaði. Ekki liggur fyrir hversu lengi sveitin var starfrækt, það gæti hafa verið allt til ársins 2005 eða jafnvel lengur en hún var jafnframt mjög mismunandi að stærð. Oft voru þau aðeins tvö hjónin sem skipuðu sveitina, Sigríður sem söngkona og Björn sem gítar- og eða hljómborðsleikari en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra þá sem gætu hafa verið með í sveitinni utan ofangreinds Ólafs. Þó er hugsanlegt að Halldór Valdimarsson hafi verið um tíma meðlimur hennar.

Allar frekari upplýsingar óskast um þessa sveit.