Skafti Sigþórsson (1911-85)

Skafti Sigþórsson

Skafti Sigþórsson var fjölhæfur listamaður, fyrir utan að leika á fjölda hljóðfæra og bæði með dans- og sinfóníuhljómsveitum var hann einnig virkur í félagsstarfi tónlistarmanna og textasmiður en fjöldinn allur af þekktum dægurlegatextum eru eftir hann.

Skafti Sigþórsson var Þingeyingur, fæddist 1911 en fluttist með fjölskyldu sinni til Akureyrar 1920. Litlar upplýsingar finnast um upphaf tónlistariðkunar hans en hann var orðinn átján ára gamall þegar hann hóf að læra á fiðlu hjá Karli O. Runólfssyni sem þá var búsettur á Akureyri. Í framhaldi af því byrjaði hann að leika með Hljómsveit Akureyrar undir stjórn Karls, sú sveit átti eftir að leika inn á plötu með Skafta innanborðs. Hann var jafnframt meðal stofnmeðlima Karlakórs Akureyrar þannig að áhugi Skafta lá augljóslega víða innan tónlistarinnar. Skafti var virkur í ungliðastarfi kommúnista fyrir norðan og starfaði svo lengi fyrir hreyfinguna eftir að hann fór suður, það var ágætur grunnur fyrir það starf sem hann átti eftir að vinna síðar í félags- og réttindamálum tónlistarmanna.

Skafti hafði byrjað í Menntaskólanum á Akureyri en lauk þar aldrei námi enda hafði hann þá ákveðið að helga sig tónlistinni. Það var svo líkast til árið 1933 sem hann fór suður til Reykjavíkur og hóf nám við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann lærði fiðluleik hjá Hans Stephanek en það var síðan aðalhljóðfæri hans. Hann átti þó eftir að leika á fjölda annarra hljóðfæra með danshljómsveitum víða um höfuðborgarsvæðið, s.s. saxófón, trompet og jafnvel trommur.

Skafti lék með fjölda danshljómsveita á næstu árum, hér má nefna sveitir eins og Blue boys (hljómsveit Henna Rasmus), Hljómsveit Carls Billich, Hljómsveit Þóris Jónssonar, Hljómsveit Óskars Cortes og Hljómsveit Aage Lorange á höfuðborgarsvæðinu en tók einnig sumartarnir á landsbyggðinni með Hljómsveit Karls O. Runólfssonar á Siglufirði og Akureyri. Skafti lék á hin ýmsu hljóðfæri með fyrrgreindum sveitum en þegar hann lék með hljómsveitum tengt Útvarpinu s.s. Útvarpshljómsveitinni og Danshljómsveit Bjarna Böðvarssonar lék hann yfirleitt sem fiðluleikari, einnig með Hljómsveit FÍH, Hljómsveit Reykjavíkur og Strengjasveit Tónlistarfélagsins í Reykjavík en hann lék stöku sinnum einleik á fiðlu einnig á tónleikum.

Skafti sæmdur gullmerki FÍH 1982

Skafti lék m.a. með Hljómsveit Reykjavíkur og stórum blönduðum kór á frægum tónleikum í Bifreiðaskála Steindórs árið 1939 þar sem Sköpunin eftir Haydn var flutt að viðstöddum um 2000 áhorfendum. Hljómsveit Reykjavíkur og Útvarpshljómsveitin voru meðal þeirra sveita sem síðar urðu að Sinfóníuhljómsveit Íslands sem var stofnuð 1950 en Skafti var þar meðlimur frá upphafi, fyrst sem fiðluleikari en svo sem lágfiðluleikari frá 1952 og til 1981 þegar hann hætti störfum fyrir aldurs sakir. Þannig má segja að hann hafi verið viðloðandi flesta stærstu klassísku tónlistarviðburði tónlistarsögu Íslands á 20. öldinni. Þá var Skafti einnig saxófónleikari í Lúðrasveit Reykjavíkur um árabil sem og hljómsveit Þjóðleikhússins, var virkur um tíma í djass-senunni og tók m.a. þátt í jam sessionum.

Skafti lék lítið með danshljómsveitum eftir að hann hóf að leika með nýstofnaðri Sinfóníuhljómsveit Íslands en starfrækti þó sjálfur danshljómsveit í eigin nafni á árunum 1935-56 og lék einnig lítillega með Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar, á þeim tíma mun hann einnig hafa leikið inn á nokkrar plötur með hljómsveitum Carls Billich og Aage Lorange (á plötum með söngvurunum Soffíu Karlsdóttur og Alfreð Clausen) en upplýsingar þ.a.l. eru takmarkaðar.

Skafti Sigþórsson

Skafti var atvinnutónlistarmaður nánast alla ævi en sem aukastarf rak hann einnig innrömmunarverkstæði heima hjá sér sem mun þó hafa verið í fremur litlum mæli, hins vegar voru störf hans innan félagsmála mun meira áberandi – hann var lengi í stjórn Félags Íslenzkra hljóðfæraleikara (Félag Íslenskra hljómlistarmanna – FÍH frá 1957), m.a. sem ritari og í ritnefnd tímaritsins Tónamála sem félagið gaf út. Hann var sæmdur gullmerki FÍH á fimmtíu ára afmæli félagsins árið 1982.

Skafti var afkastamikill textahöfundur framan af og fékkst nokkuð við þýðingar á erlendum textum, fjöldi þekktra íslenskra texta eru þannig úr hans ranni og hér eru nefndir nokkrir: Ó Jósep, Jósep, Dísa í dalakofanum, Ef að mamma vissi það, Kenndu mér að kyssa rétt, Kveðjukossinn, Suður um höfin og Heyr mitt ljúfasta lag, allt eru þetta textar sem voru á allra vörum hér áður og margir þekkja enn í dag.

Skafti Sigþórsson lést haustið 1985, sjötíu og fjögurra ára gamall.