Sigurveig Hjaltested (1923-2009)

Sigurveig Hjaltested

Sigurveig Hjaltested mezzosópran var ein af þeirra óperusöngvara sem hefur verið kölluð gullkynslóðin en sú kynslóð gat af sér fjölda þekktra söngvara auk hennar, eins og Guðrúnu Á. Símonar, Kristin Hallsson, Guðmund Jónsson, Þuríði Pálsdóttur, Magnús Jónsson og Guðmundu Elíasdóttur svo nokkur dæmi séu nefnd. Sigurveig söng fjölda óperuhlutverka, einsöng með kórum og hljómsveitum á  tónleikum auk þess dægurlagasöngs en hún þótti jafnvíg á klassík og dægurlög.

Sigurveig Lárusdóttir var bóndadóttir fædd í Ölfusinu árið 1923 en flutti með fjölskyldu sinni að Vatnsenda við Elliðavatn þegar hún var fjögurra ára gömul. Ekki liggur fyrir hvort hún var af söngfólki komin en yngri systir hennar, Ingveldur Hjaltested lagði sönginn fyrir sig eins og Sigurveig, meðal afkomenda hennar og tengdafólks eru margir söngvarar komnir.

Sigurveig mun hafa verið fjórtán ára gömul þegar hún söng fyrst opinberlega en í raun er litlar upplýsingar að finna um söngferil hennar framan af. Hún giftist Ólafi Beinteinssyni sem var m.a. söngvari og gítarleikari Blástakkatríósins og Kling klang kvintettsins en hann var nokkuð eldri en Sigurveig. Þau hjónakornin sem bjuggu framundir 1960 uppi við Elliðavatn áður en þau fluttu til Reykjavíkur, komu oft fram saman og skemmtu við töluverðar vinsældir. Þau komu stöku sinnum fram í útvarpi og í Tívolíinu í Vatnsmýrinni en einnig söng Sigurveig töluvert í danslagakeppnum SKT og kom stundum fram á miðnæturtónleikum í Austurbæjarbíói. Þá söng hún nokkuð með Sigfúsi Halldórssyni sem þá var töluvert að koma fram.

Sigurveig vakti landsathygli er hún söng árið 1953 inn á tveggja laga plötuna Blikandi haf / Kvöldkyrrð með Sigurði Ólafssyni við undirleik Hljómsveitar Carls Billich. Fyrrnefnda lagið (úr SKT-keppni) sem þau sungu saman naut töluverðra vinsælda og kom henni á dægurlagakortið. Sigurður var þá meðal vinsælustu dægurlagasöngvara landsins og kom lagið nokkrum sinnum út í endurútgáfum næstu árin en einnig sendu þau Sigurður frá sér tveggja laga plötuna Á Hveravöllum / Við komum allir, allir og sungu þau fyrra lagið saman. Þrátt fyrir þessar vinsældir komu ekki fleiri dægurlög út með Sigurveigu á plötum enda benti fátt til að hún myndi helga sig söng en hún var þá fjögurra barna húsmóðir við Elliðavatn.

Sigurveig um 1960

Hér má segja að söngferill hennar hafi tekið stefnuna í átt að klassík en hingað til hafði hún sem fyrr segir mestmegnis sungið dægurlög þótt hún hefði að vísu sungið með Kirkjukór Laugarneskirkju og Þjóðleikhúskórnum, og reyndar sungið einsöng með þeim báðum sem og karlakórnum Fóstbræðrum. Hún hóf að læra söng hjá Sigurði Demetz en hann var þá nýkominn til landsins (heimild segir að hún hafi þá áður verið lítillega í söngnámi hjá Þorsteini Hannessyni), hún hafði ekki ætlað sér í fullt söngnám enda hafði hún, heimavinnandi húsmóðir, hvorki tíma né efni á því en Sigurður hvatti hana til dáða og það leið ekki á löngu þar til hún söng sitt fyrsta óperuhlutverk, í Töfraflautunni sem sett var á svið Þjóðleikhússins um jólin 1956 en þá var Sigurveig orðin 33 ára gömul.

Í kjölfarið fylgdu tónleikar og alls kyns samkomur þar sem hún kom ýmist fram sem einsöngvari eða einsöngvari með kórum t.d. Karlakór Reykjvík og Kór kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands í Reykjavík, hún var ein af þeim söngvurum sem tóku þátt í tónleikaröðinni Syngjandi páskar en einnig söng hún nokkuð með Sigurði Ólafssyni á tónleikum og einsöng í útvarpi við undirleik Fritz Weissphapel, þá söng hún í óperunum Rakaranum frá Sevilla og Rigoletto sem settar voru á svið 1958 og 59.

Sigurveig fékk fullan stuðning Ólafs eiginmanns síns og þegar Sigurður Demetz söngkennari hennar kom því fyrir að hún gæti farið í söngnám til Salzburg í Austurríki hvatti hann hana eindregið til og þangað fór hún 1960 ásamt Snæbjörgu Snæbjarnardóttur og dvaldi um hríð. Fjórum árum síðar fór hún aftur utan og nam þá í Munchen í Þýskalandi (hlaut til þess þýskan styrk) og síðar var hún einnig í söngnámi hjá Maríu Markan, varð fyrsti nemandi hennar eftir að María flutti til Reykjavíkur.

Sjöundi áratugurinn varð eins konar hápunktur ferils Siguveigar og þar reis söngferill hennar hæst, árið 1961 kom út hennar fyrsta sólóplata, fjögurra laga smáskífa hjá Fálkanum undir titlinum Sigurveig Hjaltested mezzosoprano – það varð þó í raun hennar eina sólóplata þótt undarlegt megi virðast því það var svo ekki fyrr en á áttræðis afmæli hennar árið 2003 sem út komu tvær eins konar safnplötur með úrvali upptaka frá Ríkisútvarpinu, Sigurveig Hjaltested I og II en þær innihéldu fimmtíu einsöngslög og óperuaríur. Sigurveig söng einmitt mjög oft í útvarpssal (og einnig í Ríkissjónvarpinu þegar það kom til sögunnar) þannig að ógrynni upptaka var til með henni hjá stofnuninni og vel til fundið hjá RÚV að heiðra hana með þeim hætti í 80 ára afmælinu. Þess má og geta að þrjú lög úr fórum Ríkisútvarpsins með söng hennar rötuðu á plötu sem höfðu að geyma lög Stefáns Ágústs Kristjánssonar – Sönglög, sem kom út 1997.

Sigurveig og Guðmundur Guðjónsson

Árið 1962 hélt Sigurveig sína fyrstu sjálfstæðu einsöngstónleika í Landakotskirkju en þar söng hún við undirleik Kjartans Sigurjónssonar. Hún naut á þessum tíma mikilla vinsælda, hélt einsöngstónleika víða um land en hún söng jafnframt mikið á tónleikum með öðrum listamönnum s.s. Kristni Hallssyni og Guðmundi Guðjónssyni en þau unnu mikið með tónskáldunum Skúla Halldórssyni og Sigfúsi Halldórssyni, og fór jafnvel í tónleikaferðir um landið með þeim og fleirum, þá kom hún t.a.m. mikið fram á héraðsmótum á sumrin með öðrum skemmtikröftum og söng oft einsöng með kórum sem fyrr (Karlakór Reykjavíkur, Söngsveitin Fílharmónía, Karlakórinn Fóstbræður o.fl.) en einnig hljómsveitum eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sigurveig kom jafnvel fram á tónleikum hjá Musica Nova.

Sigurveig söng í mörgum óperu- og óperettuuppfærslum á þessum tíma, Sígaunabaróninn, Paganini, Il trovatore, Ævintýri Hoffmanns, Marta og Brúðkaup Fígarós voru þeirra á meðal en einnig tók hún þátt í útvarps uppfærslu Ríkisútvarpsins á Meyjaskemmunni.

Þótt Sigurveig syngi ekki á fleiri sólóplötum kom hún fram sem einsöngvari á ýmsum öðrum hljómplötum s.s. á tveimur plötum Karlakórs Reykjavíkur, á plötu Þjóðleikhúskórsins – Raddir úr leikhúsi og á safnplötunni Gullöld íslenzkra söngvara: The golden age of icelandic singers ásamt fleiri einsöngvurum. Síðar (1980) söng Sigurveig á plötu tileinkaðri tónskáldinu Árna Björnssyni og enn síðar (1997) kom hún við sögu ásamt fjölda söngvara á plötunni Heyrði ég í hamrinum, 75 ára yfirlit í flutningi einsöngvara og kóra; Lög Ingibjargar Sigurðardóttur, Bjálmholti í Rangárvallasýslu – það var líklega síðasta platan sem hún söng á.

Upp úr miðjum sjöunda áratugnum hóf Sigurveig svo að starfa á vegum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og fór þá víða til að raddþjálfa og leiðsegja kórsöngvurum á landsbyggðinni, þar með hófst kennsluferill hennar. Hún vann bæði með kirkjukórum og almennum kórum, og við lok slíkrar kennslu voru gjarnan haldnir tónleikar, þannig var það t.d. mörgum vestfirskum kórsöngvurum lengi minnisstætt þegar hún vann með Sunnukórnum á Ísafirði og Karlakór Ísafjarðar en þar tók hún einnig þátt í eftirminnilegum flutningi á kórverkinu Strengleikum eftir Jónas Tómasson í tilefni af 85 ára afmæli tónskáldsins og 100 ára afmæli Ísafjarðarkaupstaðar. Þá vann hún einnig með kórum eins og Kirkjukór Akraness, Árneingakórnum, Kór Átthagafélags Strandamanna, Kiwanis kórnum á Siglufirði og Garðakórnum svo aðeins örfá dæmi séu nefnd en mestmegnis voru það þó líklega kirkjukórar, Sigurveig söng gjarnan einsöng með kórunum við þessi tilefni.

Sigurveig og Guðrún Á. Símonar

Eftir því sem á leið á áttunda áratuginn varð söngkennslan söngnum yfirsterkari enda var Sigurveig þá komin á sextugs aldur en hún hafði byrjað fremur seint að syngja eins og fram hefur komið. Hún starfaði áfram við raddþjálfun á landsbyggðinni en hóf einnig að starfa við Kórskóla Söngsveitarinnar Fílharmóníu og svo við Söngskólann í Reykjavík en hún kom að stofnun þess skóla, síðar kenndi hún einnig á æskuslóðum í Árnessýslu, við Tónlistarskólann í Árnessýslu en á þeim slóðum þreytti hún jafnframt frumraun sína sem kórstjórnandi er hún hóf að stjórna kór eldri borgara á Selfossi sem hún gaf svo nafnið Hörpukórinn. Einnig gæti hún hugsanlega hafa stjórnað fleiri kórum fyrir austan fjall.

Eftir því sem söngkennslan tók yfir fækkaði þeim skiptum sem Sigurveig söng opinberlega á tónleikum, hún söng þó töluvert einsöng við messur og kirkjulegar athafnir – var t.a.m. alltaf eftirsótt við að syngja við jarðarfarir, en kom einnig fram á stöku skemmtunum s.s. árshátíðum, þorrablótum og þess konar samkomum, hún söng t.d. nokkuð á framboðsfundum fyrir forsetakosningarnar 1980, á tónlistarsýningu á Broadway þegar slíkar sýningar urðu vinsælar og einnig söng hún eitthvað áfram einsöng með kórum en hún var að mestu hætt að syngja opinberlega fyrir aldamót.

Sigurveig var þó síður en svo gleymd og árið 2006 heiðruðu Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir (barnabarn hennar) og Stefán Helgi Stefánsson (barnabarn Stefáns Íslandi) þau Stefán með tónleikum í Salnum í Kópavogi undir yfirskriftinni Hjaltested / Íslandi, þar sem þau sungu einsöngs- og tvísöngslög sem þau Sigurveig og Stefán höfðu sungið fyrr á öldinni. Um svipað leyti var Sigurveig svo heiðruð með fálkaorðunni fyrir framlag sitt til sönglistarinnar.

Sigurveig Hjaltested lést sumarið 2009 áttatíu og sex ára gömul, hafði þá dvalið um tíma á Droplaugarstöðum en Ólafur eiginmaður hennar hafði þá látist nokkrum árum fyrr. Þess má geta að árið 2016 voru haldnir tónleikar í Salnum undir yfirskriftinni Brautryðjendurnir en þar voru sungin lög sem Sigurveig, María Markan og Þuríður Pálsdóttir höfðu gert skil á árum áður.

Fyrr eru nefndar þær plötur sem Sigurveig Hjaltested hefur sungið inn á en enn eru ónefndar nokkrar safnplötur sem einkum hafa að geyma dægurlagasöng hennar, s.s. Blikandi haf – þetta eru safnplötur eins og Óskastundin 4 (2005), Bíódagar (1994), Svona var 1953 (2005), Aftur til fortíðar 50-60 II (1990) Stóra bílakassettan-serían, Gömlu dagana gefðu mér (2013, Stelpurnar okkar (1994), Íslenskar söngperlur (1991 og Síldarævintýrið (1992).

Efni á plötum