Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)

Sigvaldi Kaldalóns

Fá tónskáld eiga jafn mörg þekkt sönglög og Sigvaldi Kaldalóns en þau lög skipta tugum sem þjóðin hefur hummað með sér, sungið hástöfum eða heyrt í margvíslegum útgáfum og útsetningum enda eiga þau það sammerkt að hafa verið gefin út á plötum með mörgum flytjendum. Sönglög eins og Á Sprengisandi og Sofðu unga ástin mín hafa t.d. líklega komið út í á annað hundrað útgáfum hvort um sig og önnur þekkt lög hans eins og Ég lít í anda liðna tíð, Suðurnesjamenn, Svanurinn minn syngur, Hamraborgin og Nóttin var sú ágæt ein hafa einnig komið út í ótal útgáfum á plötum.

Sigvaldi Stefánsson var borinn og barnfæddur í Reykjavík, fæddur snemma árs 1881 og var elstur fjögurra bræðra en Eggert Stefánsson tenórsöngvari var einn þeirra. Eitthvað mun hafa verið iðkuð tónlist á æskuheimilinu, móðir hans söng og lék á gítar en faðirinn kvað rímur og lék á langspil, þeir bræður munu einnig hafa sungið nokkuð – jafnvel fjórraddað á unglingsárum.

Sigvaldi fékk þannig snemma áhuga á tónlist og þegar hann var í barnaskóla kenndi Jónas Helgason organisti söng í skólanum, þar lærði hann að lesa nótur og í Latínuskólanum naut hann leiðsagnar söngkennaranna Steingríms Johnsen og Brynjólfs Þorlákssonar en allir kennararnir þrír voru miklir frumkvöðlar í tónlistarlífinu í Reykjavík um aldamótin 1900. Sigvaldi lærði einnig hljómfræði og á orgel (harmonium) og var jafnframt í litlum söngkór (þreföldum kvartett) á námsárunum undir stjórn Brynjólfs. Sigfús Einarsson (síðar tónskáld) var vinur hans og hafði nokkur áhrif á tónlistaráhugann, fékk hann t.d. til að vera undirleikari hjá kór sem hann var að æfa á þeim árum, einnig eru heimildir um að Sigvaldi hafi verið undirleikari hjá Ólafi Magnússyni í Arnarbæli á tónleikum á Eyrarbakka. Orgel var þá komið á æskuheimilið og fékk tónlistin æ meiri tíma á kostnað námsins.

Sigvaldi fór í læknisfræðina að stúdentsprófi loknu og lauk því prófi 1908 en mun þó ekki hafa verið mikill námshestur enda var þá tónlistin að taka svolítið yfirhöndina – síðar mun hann hafa sagt að ef námsbækurnar hefðu verið skrifaðar með nótum þá hefði hann dúxað, og þegar hann var í Kaupmannahöfn við lok námsins drakk hann í sig þá alþjóðlegu tónlistarstrauma sem þar voru fyrir hendi. Sjálfur hafði hann byrjað að setja saman lög á unglingsárunum en var ekkert að flíka því og jafnvel hans nánustu vissu ekki að hann væri að semja tónlist.

Sigvaldi giftist danskri hjúkrunarkonu sem hann kynntist á námsárunum og að námi loknu fluttu þau norður á Strandir þar sem hann varð héraðlæknir, fyrst á Hólmavík í eitt og hálft ár en svo í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp þar sem þau áttu eftir að búa og starfa í tólf ára eða til 1922. Læknisbústaður þeirra var á bænum Ármúla sem liggur rétt við Kaldalón og fljótlega eftir að þau fluttust þangað tók hann sér nafnið Sigvaldi Kaldalóns, náttúran á Ströndum hafði mikil áhrif á það hvernig hann nálgaðist tónlistina og þarna hóf hann í frístundum sínum að semja tónlist með markvissari hætti en áður undir áhrifum frá náttúrunni sem bæði gat verið hörð hvað landslag og veðurfar varðar en einnig ljúf. Þannig fékk hann bæði að kenna á náttúrunni þegar hann fór í vitjanir í þessu harðbýli en naut hennar líka og samdi jafnvel lög sín á hestbaki við bestu skilyrði.

Sigvaldi Stefánsson ungur að árum

Eggert bróðir Sigvalda hafði farið utan og menntað sig í sönglistinni, hann kom reglulega heim til Íslands og notaði þá tækifærið til að heimsækja bróður sinn vestur í Djúp, Sigvaldi var þá sem fyrr segir farinn að semja af fullum krafti og hafði þá bróður sinn stundum í huga við tónsmíðarnar, og „prufukeyrði“ lögin gjarnan á Eggerti. Þeir bræður tóku sig svo til og héldu saman tónleika á Ísafirði, þá fyrstu árið 1913 þar sem Eggert söng lög Sigvalda við undirleik tónskáldsins, þannig munu lög eins og Á Sprengisandi og Ég lít í anda liðna tíð fyrst hafa komið fyrir sjónir almennings. Þeir bræður áttu eftir að syngja margoft saman á tónleikum með þessum hætti, bæði fyrir vestan og svo síðar í Reykjavík og víðar um land og voru slíkir tónleikar oft kallaðir Kaldalónskvöld.

Sigvaldi naut mikilla vinsælda og hylli fyrir vestan fyrir læknisstörf sín í þessu hrjóstuga héraði en einnig fyrir tónsmíðar sínar og eitt sinn er hann kom heim úr vitjun höfðu sveitungar hans komið með flygil sem þeir færðu honum að gjöf, og reyndar þurfti virkilega að hafa fyrir því á þessu landssvæði og hvað þá að koma hljóðfærinu inn í húsið en til þess þurfti að rjúfa útvegg og stækka glugga.

Á þessum árum hafði Sigvaldi samið smálög eins og það var kallað, einsöngs- og kórlög eins og Þó þú langförull legðir, Ásareiðin, Ave Maria, Svanurinn minn syngur og Við sundin auk fyrrnefndra laga en hann var þá einnig eitthvað lítillega farinn að fást við stærri tónverk, Kaldalónsþankar (í þremur þáttum) var slíkt verk en á þeim tíma voru fá íslensk tónskáld farin að fást við slík verkefni og Sigvaldi klárlega sá eini sem var óskólagenginn í þeim fræðum. Hann mun alltaf hafa séð eftir að hafa ekki menntað sig fremur í tónsmíðafræðunum til að geta helgað sig stærri verkum.

Sigvaldi hafði reynt að koma lögum sínum á framfæri með nótnaútgáfu sem var þess tíma aðferð til að gefa út tónlist, en prentsmiðjur og bókaútgáfur sáu sér ekki hag í því. Það varð því úr að sveitungi hans, Sigurður Þórðarson frá Laugarbóli gaf út sönglagahefti með lögum Sigvalda þrívegis (1916-18), þau hefti seldust upp og það var fyrst þá sem Ísafoldarprentsmiðja tók við sér og gaf eftirleiðis út nótur með lögum hans. Þessi nótnahefti voru til að kynna tónlist Sigvalda en útvarp kom ekki til sögunnar fyrr en 1930, einnig mun Benedikt Elfar, ungur tenórsöngvari hafa verið duglegur að syngja lög hans á tónleikum víða um land, sem og einnig Stefán Íslandi svo þau nutu almennrar hylli. Sigurður þessi Þórðarson var sonur Höllu Eyjólfsdóttur en Sigvaldi samdi mörg lög við ljóð hennar, flest laga hans voru þó samin við ljóð Gríms Thomsen. Þess má geta að bróðir Höllu, Guðmundur Geirdal samdi ljóðið við lagið Þú eina hjartans yndið mitt, sem Sigvaldi samdi til eiginkonu sinnar, lagið Sofðu, sofðu góði varð til þegar Sigvaldi sat með son sinn í fanginu og var að svæfa hann.

Starfslok Sigvalda við Ísafjarðardjúpið urðu með fremur snöggum hætti, hann hafði hvergi hlíft sér í vitjunum sínum sem læknir og frostaveturinn mikla 1918 mun hann hafa gengið afar nærri sér og urðu það upphaf veikinda sem tók hann nokkur ár að jafna sig á, 1920 og 21 var hann meira og minna frá vegna veikinda og þurfti svo að kljást við berkla í ofanálag í kjölfarið, hann lá á Vífilsstöðum um hríð og leitaði sér heilsubóta í Danmörku en í raun jafnaði hann sig aldrei almennilega á veikindum sínum og var heilsuveill eftir þetta, hann starfaði því ekki sem læknir næstu árin sökum þessa og það var ekki fyrr en árið 1926 sem hann hóf störf aftur sem slíkur – en þá í Flatey á Breiðafirði.

Sigvaldi við hljóðfærið

Sigvaldi hafði í veikindunum vissulega tóm til að stunda tónsmíðar sínar og hlaut reyndar listamannastyrk frá alþingi til að sinna þeim verkefnum. Hann dvaldi á þeim tíma mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og lék þá oftsinnis á tónleikum með Eggerti bróður sínum á Kaldalónskvöldum en áfram komu út ný lög á nótum með reglulegu millibili. Það þótti yfirleitt fréttnæmt þegar hann sendi frá sér nýjar tónsmíðar, sem sýnir auðvitað hversu hátt hann var nú metinn sem tónskáld. Á þessum árum samdi hann m.a. tónlist fyrir sjónleikinn Dansinn í Hruna ásamt Emil Thoroddsen og þarf vart að taka fram að það var í eitt af fyrstu skiptum hérlendis sem tónlist var samin sérstaklega fyrir leikhús, það var svo aftur sett á svið af Leikfélagi Reykjavíkur árið 1942.

78 snúninga hljómplötur hófu að koma út snemma á öðrum áratug aldarinnar og á næstu árum komu út um tuttugu lög eftir Sigvalda á plötum Eggerts bróður hans en einnig sungu Einar Markan, Sigurður Skagfield, Hreinn Pálsson, Engel Lund og fleiri lög eftir hann sem komu út á slíkum plötum, alls 36 lög með um 20 söngvurum. Hér má nefna lög eins og Draumur hjarðsveinsins, Svanasöngur á heiði, Brúnaljós þín blíðu, Alfaðir ræður, Ave Maria, Betlikerlingin, Heimir, Leiðsla o.fl.

Sigvaldi varð sem fyrr er nefnt læknir í Flatey á Breiðafirði og þar dvaldist hann næstu árin eða til 1930, í eynni var hann eins og í Djúpinu vinsæll læknir en umdæmi hans náði yfir Flateyjarhrepp allan sem um þetta leyti hafði á fjórða hundrað íbúa. Þá var hann jafnframt mikilvægur póstur í menningarstarfsem eyjaskeggja en hann stjórnaði þar bæði karlakór og blönduðum kór. Á Flateyjarárum sínum mun hann hafa samið lagið Ísland ögrum skorið við ljóð Eggerts Ólafssonar, það lag vakti hins vegar ekki almenna athygli fyrr en það var sett í forgrunn við stofnun lýðveldis sumarið 1944.

Það var svo árið 1930 að Sigvaldi flutti sig um set og í Keflavíkurumdæmið sem á þeim tíma náði nánast yfir allt Suðurnesjasvæðið, Keflvíkingar voru hins vegar ekki með húsnæði á lausu fyrir verðandi lækni svo Grindvíkingar buðu honum að vera þar og byggðu svo reyndar fyrir hann læknisbústað. Í Grindavík átti hann eftir að búa það sem eftir var ævinnar og sem fyrr varð hann virtur og vinsæll meðal bæjarbúa auk þess sem heimili hans varð eins konar menningarsetur. Í Grindavík voru ýmsir listamenn búsettir um tíma á þessum árum, Gunnlaugur Scheving, Ríkarður Jónsson og Steinn Steinarr voru meðal þeirra sem og Eggert bróðir Sigvalda sem kom reglulega heim til Íslands, og var oft gestkvæmt í læknisbústaðnum og tónlist þar stór þáttur. Þegar Sigvaldi varð fimmtugur 1931 orti Steinn til hans afmæliskveðju í ljóðaformi sem birtist í Tímanum en það var fyrsta ljóðið sem birtist eftir hann á prenti – það kom reyndar aldrei út á bók. Í Grindavík hélt Sigvaldi utan um að minnsta kosti tvo kóra innan stúkunnar Járngerðar, karlakór og blandaðan kór sem hann að öllum líkindum stjórnaði sjálfur.

Bræðurnir Eggert og Sigvaldi

Þeir Sigvaldi og Eggert fóru á þessum árum víða um landsbyggðina með tónleikahaldi þar sem hvert Kaldalónskvöldið á fætur öðru var haldið, árið 1930 voru t.d. sextán slíkir tónleikar haldnir en þeir voru einnig á ferð með tónleika 1933, áfram héldu að koma út plötur með ýmsum flytjendum og nótnasöfn með lögum Sigvalda og árið 1939 höfðu komið út um 70 lög hans á nótum, margt var þó enn óútgefið.

Sigvaldi var síður en svo hættur að semja og náttúran á Suðurnesjum var honum ekki síður hugleikin en í Flatey eða Ísafjarðardjúpi þótt hann segði einhverju sinni í blaðaviðtali að frjósamasta tímabilið hefði verið í Djúpinu, á Grindavíkur árunum urðu til tónsmíðar eins og Suðurnesjamenn og Hamraborgin (sem mun reyndar hafa orðið til eftir að hann kom í Hjörleifshöfða austur í Skaftafellssýslu).

Tónlist Sigvalda breiddist mun hraðar út með tilkomu Ríkisútvarps 1930 og þá fengu hlustendur um land allt notið tónlistar hans, þegar Sigvaldi varð sextugur árið 1941 var jafnvel dagskráin að hluta til helguð honum og slíkt ýtti undir og hjálpaði til við vinsældir tónlistar hans. Þeir bræður héldu einnig áfram að halda tónleika þegar því var komið við, t.d. árið 1943 og ári síðar héldu þeir tónleika í Grindavík fyrir troðfullu húsi. Það voru þó líklega síðustu tónleikar Sigvalda því vorið 1945 fékk hann heilablæðingu og lá rúmfastur um tíma, hann komst á fætur fyrir tilstilli eiginkonu sinnar sem var hjúkrunarkona en hafði lamast að einhverju leyti og spilaði ekki aftur á hljóðfæri eftir það. Fleiri áföll komu í kjölfarið og rúmlega ári síðar fékk hann hjartaslag sem reið honum að fullu. Þar með var fallinn í valinn sumarið 1946 aðeins sextíu og fimm ára gamall, afkastamesta og vinsælasta tónskáld samtímans og þótt til lengri tíma væri litið.

Sigvaldi hafði samið sitt síðasta lag (Minning) vorið 1945 en töluverður tími leið þar til komið var á hreint hversu mörg lög hann hafði samið, útgefin lög hans á plötum og nótum munu vera um 200 talsins en alls um 320 lög – flest öll samin fyrir söng. Fljótlega eftir andlát hans var hafist handa við að gefa út heildarsafn laga hans og kom það út í nokkrum heftum á næstu árum undir nafninu Söngvasafn Kaldalóns sem sérstök útgáfa, Kaldalónsútgáfan annaðist.

Hér að ofan hafa mörg af þekktustu lögum Sigvalda verið nefnd en hér mætti einnig nefna lög eins og Leitin, Mamma ætlar að sofna, Lofið þreyttum að sofa, Fjallið eina, Barnið, Stormar, Vorvindur og Erla góða Erla. Sigvaldi samdi einnig jólalög, tvö þeirra eru hér nefnd – annars vegar Í Betlehem er barn oss fætt, samið á Djúp-árunum og kom út 1926 en náði ekki fótfestu enda er til annað miklu þekktara lag við sama ljóð, – hins vegar öllu þekktara jólalag, Nóttin var sú ágæt ein (Kvæði af stallinum Christi) við ljóð Einars úr Eydölum sem er líklega eitt elsta ljóð sem sungið er við lag hérlendis og hefur komið út í tugum útgáfa en það kom fyrst út á Jólasálmum Þuríðar Pálsdóttur 1958.

Sigvaldi á Grindavíkur-árum sínum

Erfitt er að henda reiður á hversu mörg lög og hversu margar útgáfur hafa komið út á plötum með lagasmíðum Sigvalda en vinsældir þeirra hafa síður en svo dalað með árunum. Þó nokkuð margar plötur hafa komið út og verið tileinkaðar skáldinu, hér er fyrst nefnd níu laga platan Kaldalónskviða sem Lögreglukór Reykjavíkur sendi frá sér árið 1962. Níu árum síðar, 1971 þegar níutíu ár voru liðin frá fæðingu tónskáldins kom út plata á vegum Karlakórs Reykjavíkur en hún bar titilinn Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Sigvalda Kaldalóns. Það sama ár kom jafnframt út bók um hann, Bókin um Sigvalda Kaldalóns e. Gunnar M. Magnúss.

Selma Kaldalóns dóttir Sigvalda fékkst við tónsmíðar einnig þegar hún var komin nokkuð fram á miðjan aldur og í samstarfi við Guðrúnu Tómadóttur sópran söngkonu gaf hún út árið 1978 plötu með tólf sönglögum sínum og tíu lögum föður síns undir titlinum Sönglög eftir Sigvalda og Selmu Kaldalóns. Næst kom út plata sem lítið bar á enda var hún gefin út í litlu upplagi og upphaflega alls ekkert fyrir almennan markað, það var sjö laga platan Kristinn Bergþórsson syngur lög eftir Sigfús Halldórsson og Sigvalda Kaldalóns en hún kom út 1983. Þrettán ár liðu svo uns næsta plata leit dagsins ljós (árið 2000), það var platan Úr söngvasafni Kaldalóns: 27 sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns / From Kaldalon‘s songbook: 27 songs by Sigvaldi Kaldalons, með Árna Sighvatssyni baritón söngvara hljóðrituð í Salnum í Kópavogi en Kaldalóns-útgáfan kom að þeirri plötuútgáfu.

Það var svo árið 2004 sem Smekkleysu-útgáfan stóð fyrir veglegri útgáfu á lögum Sigvalda undir yfirskriftinni Svanasöngur á heiði: Sönglög, tveggja diska albúm með fimmtíu lögum tónskáldsins og tveimur árum síðar kom út framhald, Ég lít í anda liðna tíð: Íslensk einsöngslög II sem innihélt fimmtíu og tvö lög til viðbótar. 2008 voru plötutvennurnar tvær endurútgefnar í fjögurra diska kassa en nokkrir þekktir einsöngvarar sungu lögin 102 við undirleik Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara sem jafnframt hélt utan um verkefnið, upptökurnar höfðu farið fram í Salnum í Kópavogi 2003 og 2005. Plöturnar seldust upp og voru lengi ófáanlegar þar til þær voru endurútgefnar árið 2019 af Minningasjóði Sigvalda Kaldalóns sem hafði verið stofnaður utan um skáldið.

Lög Sigvalda hafa komið út á hundruð platna og langt mál yrði að telja þau öll upp og líklega hvergi til tæmandi skrá um þær útgáfur, mörg laganna hafa komið út með tugum mismunandi og ólíkra flytjenda og nægir hér t.d. að nefna útgáfur Þuríðar Pálsdóttur og hljómsveitarinnar Diktu af laginu Nóttin var sú ágæt ein eða Á Sprengisandi flutt af Sigurði Skagfield annars vegar og hljómsveitinni Pelican hins vegar, til að átta sig á til þess breiða hóps sem tónlist Sigvalda nær til.

Íslendingar hafa löngum verið duglegir að minnast Sigvalda Kaldalóns við ýmis tækifæri og árlega eru haldnir tónleikar sem helgaðir eru tónlist hans, sýningar og annað. Hér má einnig nefna að minnisvarðar eru um hann í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp, í Flatey á Breiðafirði og í Grindavík en á síðast talda staðnum má einnig finna örnefnið Læknaklif en Sigvaldi mun oft hafa lagt leið sína á þann stað á gönguferðum sínum.

Efni á plötum